Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2016, Blaðsíða 156
155STUTT YFIRLIT UM INNSIGLI Á ÍSLANDI
b, kaupmannsvörur eru almennt merktar, optast nær með upphafsstöfum af
nafni kaupmannsins eða hans firma, og kaupstaðarins sem varan er ætluð til
eða frá. Þessi merki eru með latínustöfum, og hafa verið tíðkanleg að minnsta
kosti síðan á XVII. öld. Að menn hafi í fornöld merkt vöru-sekki sína eða
farángur, ætla eg efalaust, þó eg muni eigi að tilfæra neinn stað um það úr
fornum ritum, og naumast finnist nú slíkar menjar. Þegar menn kaupa varníng
í kaupstöðum, setja menn á hann mark sitt, þegar mönnum þykir þess þurfa.
c, Mark á fénaði hefir á Íslandi hina mestu þýðingu, og hefir haft frá
fornöld, því á markinu einu byggist opt öll eignarhelgi eigandans. Í sögum
vorum er opt talað um mark á fénaði, og lögin skýra frá því greinilega. Þar
er skipað (í Grágás) að marka allan fénað, naut, sauði, svín, geitur, nema
það sem gengur heima við bæi með móðurinni; þar er skipað, að marka
þessi húsdýr á eyrum, og ekki annarstaðar. Ali fugla, (endur, gæsir, álptir)
er skipað að marka á fitjum, annars sé ekki lögmark (Landsl.b., ed AMagn.
cap. 48).103 Þar á móti hafa aldrei hálfviltir fuglar (t.d. æðarfugl) eða alviltir,
svosem tjaldar, lóur, spóar o. f l. verið merktir, þó menn hafi þekkt þá og
tekið eptir að þeir hefði hreiður sín í sömu stöðum ár eptir ár.
Sérhvert lögmark er ákveðið, og gengur að erfðum, það verður og gefið
eða selt öðrum, og þeir sem vilja taka upp ný mörk verða að sýna það og
lýsa því. Í Jónsbók (1281) eru lagagreinirnar um mark á fénaði í sumum
efnum nákvæmar teknar fram en í Grágás. Þar er talað um skrár, sem rituð
hafa verið á mörk allra manna í hreppnum ( Jónsb. Landslb. cap. 47).104
Vér höfum nú að vísu engar af þessum skrám, en varla er að efa, að þær
hafi í öllu verulegu verið samskonar eins og þær, sem enn tíðkast, og farið
er að prenta í sumum sýslum á seinni árum. Að því leyti mér er kunnugt
hafa markaskrár verið prentaðar í fjórtán sýslum síðan 1855. Til sýnis
fylgja hér þrjár, þó tvær þeirra séu ekki allskostar heilar: 1) Úr Gullbríngu
og Kjósar sýslu og Reykjavík 1865; 2) úr Eyjafjarðar sýslu 1866 og 3) úr
Þingeyjar sýslu 1866. Mörkin hafa yms nöfn, einsog sjá má í skránum,
eptir því hvernig skurðir þeir eru lagaðir, sem á eyrunum eru myndaðir.
Aðalmörkin eru: sýlt (skorið ofan í brodd eyrans og að ofanverðu og tekið
úr eyranu skarð), stýft (skorið ofan af broddi eyrans), sneitt (skorið á snið
ofan af broddi eyrans öðrumegin, framan, eða aptan), hvatt (skorið af
broddi eyrans á snið beggjamegin), fjöður (skorið inn í rönd eyrans ofan
eða neðan frá), biti (skorið úr rönd eyrans, lítið stykki).
103 Sama heimild.
104 Sama heimild.