Bændablaðið - 14.01.2021, Page 34

Bændablaðið - 14.01.2021, Page 34
Bændablaðið | Fimmtudagur 14. janúar 202134 Menntaskólinn að Laugarvatni: Landsbyggðarskóli með ríkar hefðir og afar góðan kór Menntaskólann að Laugarvatni þarf vart að kynna fyrir fólki en hann er einn af elstu menntaskól- um landsins, stofnaður formlega 12. apríl 1953. Þeir skipta orðið þúsundum stúdentarnir sem sett hafa upp hvíta kollinn í ML og gengið þaðan beinir í baki til að takast á við lífið og tilveruna sem tekur við að námsárum loknum. Það er nú svo að heimavistar­ fyrirkomulagið hentar mjög vel fólki til sveita því þá er hægt að senda unglingana að heiman í eins öruggt umhverfi og kostur er, með þeirri gæslu sem því tilheyrir, auk þess sem í boði er fullt fæði, þvottahús, aðgangur að íþróttahúsi og sundlaug og þannig mætti lengi telja. Nánast allir nemendur skólans eru á heimavistinni og má segja að það sé góður skóli út af fyrir sig. Skólinn er hefðbundinn bóknáms­ skóli en valgreinar hafa lengi skipað stóran sess og þar má nefna mat­ reiðslu, myndlist og ljósmyndun, en langvinsælustu valgreinarnar undanfarin ár hafa verið útivist og kór. Útivistin í ML Þeir sem velja útivist á fyrsta ári fara í kanóferð á vatninu. Oftast hefur verið farið niður Hólaá og endað í Apavatni í samvinnu við landeigendur. Eftir kanóferðina bíður þeirra skálaferð og er þá farið inn í Bása í Þórsmörk og gengið þar um svæðið. Gist er í skálanum um kvöldið, grillað og síðan er kvöldvaka fram eftir kvöldi. Þriggja daga skíðaferð hefur svo verið farin eftir áramótin, norður á Akureyri eða í Bláfjöll. Í framhaldsáföngum fara þau í GPS gönguferð um ná­ grennið, í hellaskoðanir, rafting, hjólreiðaferðir, ísklifur og fleira. Þessi áfangi er mjög vinsæll, enda eru ferðirnar skemmtilegar og krefj­ andi. Kór ML Söngmenning hefur ávallt verið rík í Menntaskólanum að Laugarvatni. Í upphafi að hluta vegna þess að Þórður heitinn Kristleifsson, sem stjórnaði skólakórnum í Héraðsskólanum, og margir eldri nemendur þaðan muna eftir, var einnig stjórnandi fyrsta kórsins sem stofnaður var í ML. Ekki hefur kór verið starfandi óslitið alla sögu skólans og gengið mis­ vel að koma honum til, tíðarandinn hefur ekki alltaf verið honum í hag má segja. En undanfarin ár hefur gengi kórsins vaxið ár frá ári og nú er svo komið að hann er orðinn langstærsti framhaldsskólakór lands­ ins, með 130 syngjandi nemendur innan sinna raða. Það er ótrúlegur hópur, einkum ef horft er til þess að í skólanum öllum eru 145 nemendur. Kórinn er valgrein og eins og sjá má þá velja nánast allir að vera með í kór. Mætti alveg halda því fram þangað til það verður hrakið að um heimsmet sé að ræða miðað við höfðatöluna. En það er ekki nóg að vera mjög stór kór, hann þarf líka að vera góður og það er hann svo sannarlega. Áður en Covid­19 setti það strik í reikninginn sem allir þekkja, þá var komið nokkuð gott ferli í starf kórsins. Æfingar eru tvisvar í viku en þar að auki fer kórinn í æfinga­ búðir einu sinni á önn og þá t.a.m. að Varmalandi í Borgarfirði og þá sungnir tónleikar í Reykholtskirkju. Jólatónleikar í Skálholti eru fastur liður og hefur verið fullt út úr dyrum á tvennum tónleikum í upphafi aðventu. Á vorönn eru svo aðrar æfingabúðir og vortónleikar í Skálholti og Reykjavík. Hljóðfæraleikarar innan nem­ endahópsins fá tækifæri til að njóta sín með kórnum og hafa spilað undir á þverflautur, fiðlur, píanó, trommur, gítar, bassa o.fl. Kórinn hefur ferðast erlendis, fyrst til Kaupmannahafnar vorið 2015, þar sem sungnir voru tónleikar í fallegri kirkju, skólar heimsóttir og landið skoðað. Vorið 2018 var farið til Bolzano á Ítalíu og þangað var förinni heitið aftur í vor, en því miður frestast það í bili. Það hefur skapast sterk heild um kórinn í ML innan raða nemenda, öllum þykir vænt um hann, eru stolt­ ir af honum og gera því sitt besta. Útkoman er mikið og öflugt hljóð­ færi sem hvaða skóli sem er myndi vera rífandi stoltur af. En það er ekki nóg að hafa gott hljóðfæri, það þarf einhver að spila á það og það gerir stjórnandinn, Eyrún Jónasdóttir frá Kálfholti, listavel. Það er að miklu leyti henni að þakka hve vel hefur tekist til með kórinn, hún held­ ur uppi góðum aga en er um leið traustur vinur og félagi. Í haust tókst ekki í ljósi aðstæðna að koma öllum nemendum í skólann í einu, aðeins einn árgangur gat komið og verið í eina til tvær vikur. Því átti að reyna að halda úti æfingum með hverjum árgangi og það tókst furðu vel þar til allt fór eins og það fór og hér hafa ekki verið nemendur í nokkrar vikur, en það stendur nú til bóta. Í vor er á stefnuskránni að fara í ferð innanlands en það er þó í óvissu því enginn getur spáð af öryggi fyrir því hvernig allt þróast næstu mánuði. Stjórnendur ML hafa ávallt stutt vel við bakið á kórnum sem skiptir miklu máli, þeir eiga heiður skilið fyrir það. En vonandi fer nú að sjá fyrir endann á þessu ástandi sem við höfum þurft að búa við og lífið fari að færast í eðlilegt horf. Það verður gaman þegar allur kórinn má koma saman á æfingu, þá drífum við okkur í Skálholt. Pálmi Hilmarsson, Menntaskólanum að Laugarvatni.Útivistin í rafting niður Hvítá. Kór Menntaskólans að Laugarvatni á jólatónleikum í Skálholti. Menntaskólinn að Laugarvatni og heimavistir. Kór Menntaskólans að Laugarvatni í Bolzano á Ítalíu vorið 2018. LÍF&STARF

x

Bændablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.