Strandapósturinn - 01.06.1987, Síða 62
sagt að íkornar geri, enda var hann hverjum ferfætlingi fljótari.
En þegar hann stóð á öllum fótunum fjórum og hallaði undir flatt,
brosti og horfði á mann, fékk maður það á tilfinninguna, líkt og
hann vildi segja: „Sjáðu hvað ég er duglegur að standa í alla
fæturna fjóra“.
Eftir að við feðgar lögðum niður hundahald tóku synir rnínir
við og eignuðust nokkra hunda. En flestir urðu skammlífir, sumir
fóru fyrir bíla eða dráttarvélar, öðrum var lógað. Einn missti
nokkuð af skottinu sökum þess að hann hljóp yfir greiðu á sláttu-
vél sent var í gangi.
En allir þessir hundar reyndust mér vel. Þeir buðu mér góðan
daginn og heilsuðu upp á mig þegar þeir gengu framhjá og
sögðu: „A aaa Á“. Þeir geltu að gestum samkvæmt sínu hundseðli
og sögðu mér til þegar dráttarvélar fóru í gang. Og þegar þetta er
ritað á ég aðeins þá tvo góðvini, þá Lubba á Ljótunnarstöðum og
Smala í Norðurfirði.
Hundar hafa spádómsgáfu, eða höfðu áður en bílarnir fóru að
rugla þá í ríminu. Þeir spáðu þó aðallega fyrir gestakomum en
lítið fyrir veðrabrigðum og stóðu köttum langt að baki í þeirri
íþrótt. Kettir spáðu þó fyrir gestakomum með því að setja upp
gestaspjót, en menn tóku yfirleitt lítið mark á slíku og þá helst eftir
á þegar spádómar hundanna urn gestakomur höfðu rætst. En
spádómar katta varðandi veðrabrigði voru næstum óbrigðulir. Ef
kötturinn þvoði sér upp fyrir bæði eyru vissi það á langvinnt
góðviðri. Ef köttur klóraði í tré vissi það á áhlaupsveður. Ef hann
gekk um eirðarlaus og mjálmaði vissi það á langvinnt óveður og
segja má að hann næði ekki andlegu jafnvægi fyrr en veðrið fór að
ganga niður.
Annars eru oft sagnir um að skepnur, bæði tamdar og villtar,
finni á sér veðrabrigði miklu fyrr en mennirnir.
Víkjum svo aftur að gestakomuspám hundanna.
Þær byrjuðu venjulega með einhverskonar óró. Þeir ráfuðu um
snuðrandi í allar áttir, öðru hvoru settust þeir svo niður og spang-
óluðu. Loks þegar þeir þóttust vissir um að gesta væri von lögðust
þeir niður fram á lappir sínar og stungu trýninu niður á milli
lappanna. Sneru þeir þá ævinlega í þá átt er þeir vissu gesta von.
60