Strandapósturinn - 01.06.1987, Page 67
Eina setningu sýslumanns man ég enn: „Þá telur vitnið sig hafa
séð Dungal bónda að elta hundaþvögu með byssu í hönd“.
En þessi yfirheyrsla hafði slæm áhrif á Guðmund. Eins og áður
er sagt var hann dálítið tæpur á taugum og höfðu slíkar upp-
ákomur, er að framan greinir, ill áhrif á hann. Eftir Borðeyrar-
ferðalagið lagðist hann í þunglyndi og Jóhann bróðir hans sá
þann kost vænstan að fara með hann til lækninga suður.
Eftir heimkomuna var Guðmundur nokkurn veginn búinn að
ná sér eftir yfirheyrsluna. En Jóhann bróðir hans var óánægður
með það að ekkert frekar yrði gert í málinu og reynt að hafa uppá
sökudólgnum, manninum sem hafði skrifað greinina í Dýra-
verndarann. Nauðaði hann í mér og taldi að ég ætti að beita mér
fyrir því við sýslumann að hann héldi rannsókn málsins áfram. En
ég vildi ekki blanda mér í málið, vildi engin afskipti af slíku hafa.
Að nokkrum vikum liðnum var aftur efnt til réttarhalda. Þau
fóru fram í Bæ og var stefnt þangað þrem vitnum auk Dungals
bónda, sem játaði að hafa skorið féð og sömuleiðis að hafa skotið
álft. Kvaðst hann hafa orðið að gera það sökum matarskorts.
Sumarið áður hefði hann legið við ásamt heimilisfólki sínu langt frá
heimili sínu. Hefði hann þá brugðið á það ráð að skjóta þrjár álftir
hl þess að drýgja vistir sínar og spara sér með því ferð um langan
veg til byggða.
Þá mætti fyrir réttindum Lýður bóndi í Bakkaseli. Hann hafði
einnig verið við heyskap ekki mjög langt frá Dungal bónda.
Kvaðst hann hafa heyrt þrjú skot ekki langt frá þeim stað er
Dungal og fólk hans hafðist við. Auk Lýðs var tveim mönnum
öðrum stefnt fyrir þennan rétt. Það voru þeir Bjarni Þorsteinsson
barnakennari og Jón Matthíasson í Jónsseli. Munu þeir hafa verið
valdir með hliðsjón af því að þeir voru taldir vel sendibréfsfærir
og þar af leiðandi taldir líklegir til þess að hafa skrifað hina
nafnlausu grein.
Það var víst ekki mikið á framburði Bjarna að græða, hann mun
hafa vitað álíka mikið og ég, eða því sem næst ekki neitt. Öðru máli
gegndi um Jón Matthíasson. Þegar hann kom fyrir réttinn lýsti
hann því yflr óaðspurður að hann væri höfundur hinnar marg-
umræddu ritsmíðar.
65