Strandapósturinn - 01.06.1987, Síða 75
spegilsléttur. Þá var sjálfgert að nema staðar og virða fyrir sér
dásemdir sköpunarverksins. Avallt var stigið af baki og gengið
niður Spengibrekku, og áð þar. Nú gyllti síðdegissólin hlíðar
Hjallans, græna grasgeira, hrjúft grjót og síðast en ekki síst fast
mótuð hamrabelti brúnanna, sem að öllu voru kunningjar frá
smalamennskudögum. Ærnar héldu sig títt efst í hlíðunum, þar
sem grasið var kjarngott og safaríkt. Nú er sú tíð að baki, en í
minni engu að síður. Eftir var nú aðeins Kjósarhjallinn. Gekk sú
leið fljótt fyrir sig. Reykinn frá verksmiðjunni lagði út fjörðinn,
minntist þá enginn á „mengun“. Það orð þekktist vart í mæltu
máli. Fjöldi skipa komu að eða fóru strax og löndun var lokið.
Allt bar vott um áframhaldandi starf. Þá var ég það bjartsýn að
mér kom ekki til hugar annað en ég ætti eftir að fara oftar yfir
Trékyllisheiði, svo fremi mér entist aldur til, þó að þessi ferð yrði
mín síðasta. Bjart er yfir henni, og geymd í huga mynd fjallanna,
Háafells og Búrfells, verði hins fagra fjarðar, sem engir á þeim
tíma er hér um ræðir, hefðu getið til að ætti eftir að hreppa þau
örlög sem raun ber vitni um. (Fór í eyði 1983.) Aðeins fossbúinn
þylur sitt dynþunga lag ljúfan, þýðan óð, eins og hann hefur gert
frá ómuna tíð. Eða dimman bassaóm, trega einbúans.
SNATI
Fyrir utan hana Vinagjöf, fyrstu kindina sem ég eignaðist, og
afi og amma gáfu mér smábarni og ég átti lengi, eða þar til önn-
ur, Hetja að nafni, kom í hennar stað, er mér minnisstæður mó-
rauður, fremur lítill hundur, Snati að nafni. Við vorum leikfélag-
ar og vinir. Ur mórauðu augunum hans mátti lesa tryggð og vin-
áttu, sem ekki brást. Fjárhundur var hann í góðu meðallagi. Þá
var fært frá á hverjum bæ. Og sá smali sem naut þess að hafa í
hjásetunni trúan smalahund var vel settur og alls ekki einn, því
seppi gat upp á mörgu gamni tekið, sem stytti litlum smaladreng
stundir og tók af honum margt sporið kringum ærnar. Svo var
eins og vitrir hundar færu nærri um, þegar tími var til kominn
að þoka ánum heim á leið, er líða fór á daginn. Fáir eða engir
smalar höfðu úr og vissu því óglöggt hvað tíma leið, þegar sólar
naut ekki við. Ekki gleymdi smaladrengur að gefa félaga sínum
73