Bændablaðið - 23.09.2021, Síða 16

Bændablaðið - 23.09.2021, Síða 16
Bændablaðið | Fimmtudagur 23. september 202116 Skelfiskur hefur verið nýttur við Ísland um aldir. Um tíma voru skelfiskveiðar og vinnsla nokkuð mikilvægur þáttur í sjávarútvegi hér á landi. Miklar vonir voru bundnar við þessa grein en þær hafa brostið af ýmsum ástæðum. Víða um heim eru skelfiskveið- ar og skelfiskrækt atvinnuvegur sem skilar miklum verðmætum enda margar skeljar eftirsótt lost- æti. Heildarframleiðsla á skeljum (samlokum) í heiminum var fyrir nokkrum árum um og yfir 15 millj- ónir tonna á ári að verðmæti um 23 milljarðar dollarar, um 2.941 milljarður íslenskra króna. Þetta var um 14% af heildarverðmæti sjáv- arafurða í heiminum á þeim tíma. Um 89% af skelfiskframleiðsl- unni er ræktun en veiðar á villtri skel er 11%. Um og yfir 100 skelja- tegundir eru nýttar í heiminum. Þrjár skeljar nytjaðar Hér við land hafa aðallega þrjár skeljategundir verið nytjaðar, þ.e. hörpudiskur, kræklingur (bláskel) og kúskel (einnig nefnd kúfskel). Enn fremur hefur verið stunduð tilraunarækt á ostruskel í sjó í Skjálfanda. Því efni var gerð góð skil í síðasta tölublaði Bændablaðsins og ostran kemur því ekki við sögu hér. Nytjar á skel eru í dag ekki svip- ur hjá sjón frá því sem var. Eitthvað er um það að fólk tíni kræklinga sér til matar í fjörum á þeim tímum sem eiturþörungar láta ekki á sér kræla. Einnig plægja stöku bátar fyrir kúskel til að nota kúfisk í beitu. Hirtur til matar og beitu Áður en lengra er haldið er forvitnilegt að nefna nytjar á skel við Ísland hér áður fyrr og þar verður stuðst við hið merka ritverk „Íslenskir sjávarhættir“ eftir Lúðvík Kristjánsson. Fyrr á öldum var skelfiskur einkum nýttur til beitu en eitthvað til matar. Litlar sem engar ritaðar heimildir finnast um skelfiskneyslu til forna. Í riti frá því um 1.700 eru skelfiskfjörur nefndar á allmörg- um jörðum. Þar er aðallega rætt um beitarnotkun. Á stöku stað er sagt að kræklingur sé hafður til matar. Þá og á næstu öldum var skelin aðallega nýtt sem fæða í hörðum árum eða á þeim árstíma sem lítið var um fæðu. Þetta var þó misjafnt eftir svæðum. Kræklingur var helst nýttur fyrir vestan. Kúfiskur var lítið hirtur til matar, hann þótti of seigur en bragðgóður. Allt er betra en berir önglar Í dag heyrir til undantekninga að beita öngla á handfærum. Hér áður fyrr var fiskur hins vegar yfirleitt ekki veiddur á handfæri nema höfð væri beita. Allt er betra en berir önglar, segir máltækið. Beitan var af ýmsum toga en skelbeitan var mikilvæg. Hægt var að týna kræklinginn eða öðuskel í fjöru og skelin var einnig sótt grunnt út með svokallaðri seiða- hrífu. Erfiðara var að ná kúskel- inni, sem liggur dýpra, en einkum var sótt í hana á 19. öld. Notuð var sú rekaskel sem gafst en hún var einnig vaðin uppi eða krækt í hana úr bátum. Seint á 19. öld komu plógar til sögunnar sem dregnir voru frá landi. Síðan var tekin upp flotplægin með frumstæðu spili um borð. Hæfir skel kjafti Skeljar voru til ýmissa hluta nyt- samlegar svo sem til að skammta mat og borða hann, einkum ef beiningarfólk bar að garði. Skelin var notuð til að gefa þeim slettu af spónamat. Langhungruðum þótti smátt betra en ekkert. Af þessu er komið orðatiltækið að lepja dauð- ann úr skel. Svo þegar beiningar- fólk fékk lúnar skeljar til að spæna í sig matinn var stundum sagt að þar hæfði skel kjafti. Einnig má nefna að skeljar voru leikföng barna. Hörpudiskurinn verðmætastur Hörpudiskur er verðmætasta skelin sem finnst við Íslandsstrendur. Veiðar hófust árið 1969 í Ísafjarðardjúpi. Árið eftir hófust veiðar í Breiðafirði sem síðan þá hefur verið mikilvæg- asta og nánast eina veiðisvæðið. Hörpudiskaflinn varð mestur 17.068 tonn árið 1985, þar af fengust 12.128 tonn í Breiðafirði. Stykkishólmur var höfuðstaður veiða og vinnslu. Stofninum í Breiðafirði hnign- aði um og eftir aldamótin uns hann hrundi. Hnignun stofnsins er talin hafa stafað af nokkrum þáttum. Þar vegur þungt hár náttúrulegur dauði sem rekja má til frumdýrasýkingar. Undanfarin ár hefur sýking verið í rénum en stofninn hefur ekki náð sér á strik. Engar veiðar hafa verið stundað- ar í Breiðafirði síðan árið 2003 að undanskildum tilraunaveiðum árin 2014 til 2019. Upplýsingar hér að ofan eru einkum fengnar úr gögnum frá Hafrannsóknastofnun. Stofnunin leggur til að heildarafli fiskveiðiárið 2021/2022 verði innan við 100 tonn alls á tveim svæðum í Breiðafirði. Sem dæmi má nefna að útflutn- ingsverðmæti hörpudisks árið 1999 nam rúmum 915 milljónum króna á verðgildi þess árs af tæplega 98 millj- arða útflutningi allra sjávarafurða, eða tæpt 1% af heild. Til samanburð- ar var verðmæti humars 715 milljónir árið 1999. Á brattann að sækja Kræklingur er veiddur og ræktaður til manneldis. Mörg undanfarin ár hefur nær öll uppskera selst á inn- anlandsmarkaði sem stækkaði mikið samfara fjölgun ferðamanna áður en kórónaveiran kom til sögunnar. Kræklingarækt hefur af ýmsum ástæðum átt á brattann að sækja allt frá því að fyrstu alvöru tilraunir voru gerðar hér við land árið 1988. Miklar vonir voru bundnar við þessa nýju atvinnugrein í upphafi þessarar aldar. Þegar mest var voru eitthvað á annan tug kræklingaræktenda á Íslandi. Þeim fækkaði fljótt en þrjú fyrirtæki héldu velli lengi vel sem stunduðu ræktun í Breiðafirði og Steingrímsfirði. Nú hafa þau einnig gefist upp. Kræklingur er ræktaður á línum sem settar eru út í sjó. Kræklingslirfur setjast á þær síðla sumars eða að hausti. Ræktunartíminn er 2 til 3 ár uns markaðsstærð er náð. Fyrirtækin voru reyndar að mestu hætt að rækta skelina frá grunni en reiddu sig að miklu leyti á veiðar á villtri skel. Árleg framleiðsla við eðlilegar mark- aðsaðstæður hefur verið í kringum 100 tonn og þar af vel yfir helmingur villt skel, að því er fram kemur í skýrslu Matvælastofnunar (MAST) 2020. Ævintýrið á enda „Ævintýrið er á enda. Covid reyndist okkur erfitt en kostnaður og vandkvæði við greiningu sýna gerðu þó útslagið,“ sagði Bergsveinn Reynisson hjá Nesskel á Króksfjarðarnesi í Breiðafirði í samtali við Bændablaðið. „Áður voru mælingar á þör- ungaeitri gerðar af aðilum hér heima en síðan var samið við vottunarfyrirtæki á Írlandi. Við þurfum að senda sýni út til að fá vottun um að skelin sé í lagi. Kostnaður við þetta er alltof mikill auk þess sem sýni hafa tafist í tolli á Írlandi. Ef vottorð koma seint höfum við misst af viðskiptum. Við gáfumst hrein- lega upp. Ljóst er að kræklingarækt á ekki framtíð fyrir sér nema grein- ing sýna verði flutt heim og til komi stuðningur hins opinbera til að gera það mögulegt,“ sagði Bergsveinn ennfremur. Erfiður markaður fyrir kúskel Tilraunaveiðar á kúskel til mann- eldis hófust á Suðureyri árið 1987. Veiðin það ár var rúm 1.000 tonn. Árið 1988 veiddust 4.700 tonn en eftir það lögðust meiriháttar veiðar niður til ársins 1995. Veiðar og vinnsla á kúskel hófust á Þórshöfn árið 1996. Vinnsla var stopul á árunum 1997 til 2001. Skelfiskskipið Fossá ÞH kom síðan nýsmíðað frá Kína árið 2001. Eftir það var kúskel unnin á Þórshöfn í talsverðum mæli en með nokkrum hléum vegna tregðu í sölu afurða. Haustið 2008 var veiðum og vinnslu hætt vegna markaðserfiðleika. Á árunum 2001 til 2008 var veiði á kúskel á bilinu 450 til 14.430 tonn. Mestum útflutningsverðmætum skilaði kúfiskurinn árið 2004, eða tæpum 200 milljónum króna. NYTJAR HAFSINS Kjartan Stefánsson kjartanst@simnet.is Kúskel er stórmerkilegt dýr burtséð frá nytjum hennar í atvinnuskyni. Langlífasti einstaklingur sem fundist hefur í öllu dýraríkinu í heiminum er kúskel sem veiddist við Grímsey sumarið 2006. Skeljar sem veiddust þar voru aldursgreindar með því að telja árlegar vaxtarrendur þeirra. Flestar rendur fundust í einni kúskel sem fönguð var á lífi og reyndust þær vera 507. Hún hlaut nafnið Hafrún. Rannsóknir á þessari skel og 28 öðrum kúskeljum frá Íslandsmiðum, sumar þeirra voru fangaðar sem skelin tóm löngu eftir að lífi þeirra lauk, hafa leitt í ljós að efnasamsetning þeirra veitir mikilsverðar upplýsingar um ástand sjávar undan norðurströnd Íslands frá ári til árs í meira en þúsund ár aftur í tímann. Á þessu er byggt svonefnt skeljatímatal sem er meðal annars mikilvægur grunnur til rannsókna á hlýnun jarðar. Drottning kúskeljanna er óum- deilanlega Hafrún frá Grímsey. Hún veiddist sem sagt þegar 507 ár voru liðin frá klaki hennar árið 1499. Ekki hafa fundist gögn eða heimildir um langlífari einstakling í dýraríkinu. Þegar Hafrún var á lirfustigi var ýmislegt að gerast í heiminum og á Íslandi. Þá hafði Kólumbus siglt til Vesturheims örfáum árum áður. Hafrún byrj- aði að mynda um sig kalkskel í tíð Gottskálks grimma Nikulássonar yfir Hólastifti, svo eitthvað sé nefnt. Þessar upplýsingar um Hafrúnu er að finna í áhugaverðri grein í Náttúrufræðingnum frá 2017. Kúskelin Hafrún hefur eflaust mátt muna tímana tvenna. Hún var fönguð lifandi við Grímsey þegar hún hafði lagt 507 ár að baki. Drottning kúskeljanna Uppskera á kræklingi hjá Bláskel í Stykkishólmi. Louise Patrouix er ánægð með afraksturinn. Mynd / Símon Sturluson Tilraunaveiðar á hörpudiski í Breiðafirði á Hannesi Andréssyni SH fyrir nokkrum árum.

x

Bændablaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.