Bændablaðið - 02.12.2021, Blaðsíða 60

Bændablaðið - 02.12.2021, Blaðsíða 60
60 Bændablaðið | Fimmtudagur 2. desember 2021 LÍF&STARF Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði á Keldum Útrýmum vöðvasullsbandorminum á Íslandi! Árið 2017 birtist grein í Náttúru­ fræðingnum þar sem farið er yfir árangursríka útrýmingarsögu fjögurra bandormstegunda hér á landi, bandorma sem lifðu allir á fullorðinsstigi í hundum. Þrjár þessara tegunda eru ígulbandormurinn, netjusullsbandormurinn og höfuðsóttarbandormurinn. Lirfustig þeirra, svonefndir sullir, lifðu aðallega í sauðfé en sumir líka í geitum, nautgripum og svínum en aldrei í hrossum. Sullstig ígulbandormsins gat auk þess lifað í fólki sem orsakaði hina illræmdu sullaveiki sem um fimmti hver landsmaður var smitaður af fyrir hálfri annarri öld. Sullaveiki var hræðilegur sjúkdómur sem dró fólk iðulega til dauða á kvalafullan hátt. Mannafló hýsti lirfustig fjórðu tegundarinnar, flóarbandormsins svonefnda, en sá hvarf þegar flónni var útrýmt í híbýlum fólks um miðja síðustu öld. Þeim sem vilja fræðast nánar um þessa bandorma er bent á að áðurnefnd grein (Bandormafána landspendýra á Íslandi að fornu og nýju) er aðgengileg í opnum aðgangi á netinu og er hún auðfundin með því að gúggla greinarheitið. Fimmta tegundin sem fundist hefur í hundum hér á landi – vöðvasullsbandormurinn Taenia ovis – er umfjöllunarefni þessarar samantektar. Hann lifir nefnilega enn í landinu og honum verður ekki útrýmt á Íslandi nema með samstilltu átaki þar sem þekking, vilji og virk bandormalyf þurfa að vinna saman. Greininni er ætlað að stuðla að því að vöðvasullsbandorminum verði útrýmt hér sem allra fyrst og árangursríkast er talið að gera það með staðgóða þekkingu í vopnabúrinu: Um vöðvasullsbandorminn Lífsferill vöðvasullsbandormsins er sýndur á mynd 1. Lirfustigið, litlar blöðrur í vefjum sauðfjár, var fyrst greint hér á landi við kjötskoðun í sláturhúsi haustið 1983. Í fram- haldinu fóru dýralæknar að leita skipulega að vöðvasullum í kjöti og ákveðnum líffærum (einkum hjarta og þind). Árangurinn lét ekki á sér standa því eftir haustslátrun 1985, tveimur árum síðar, hafði vöðva- sullur fundist í sláturfé frá 40 sauð- fjárbýlum í átta varnarhólfum um vestan- og norðavert landið. Þessi víðtæka dreifing hefur vakið sérstaka athygli. Það að ná svo víðfeðmri útbreiðslu hlýtur að hafa tekið sníkjudýrið marga áratugi. Á yfirlitskortinu sem hér er birt (2. mynd) er útbreiðslusvæðið árið 1985 skyggt með fölgulum lit. Öllum sem þekkja hömlurnar sem voru á fjár- flutningum milli sauðfjárveikivarn- arhólfa innanlands áratugina þar á undan má vera ljóst að vöðvasullur hafði árið 1985 dulist mönnum á þessu svæði áratugum saman. Þar að baki liggja sjálfsagt ýmsar ástæð- ur, ekki hvað síst sú staðreynd að sullblöðrurnar eru oft lítt áberandi (þunnveggja litlar, vökvafylltar blöðrur, um 5 mm í þvermál, sjá 1. mynd), ekki hvað síst þegar sull- blöðrurnar eru fáar. Um lífsferilinn Hér skal áréttað að bandormurinn lifir ekki í mönnum. Skoðum sull- stigið aðeins betur. Sullirnir geta sest víða að í líkama sauðfjárins, oft eru blöðrurnar mest áberandi í blóðþurftarmiklum líffærum eins og hjarta og þind. Og lirfan, ein í hverri blöðru, nær fullum þroska á 6-8 vikum berist hún niður í hund og í honum getur fullorðni band- ormurinn lifað árum saman. Frysting á kjöti við mínus 10 gráður í viku tíma drepur vöðvasulli sem kunna að leynast í sauðfjárafurðum. Kalk sest fljótlega í sullveggina. Þá hverfur blaðran og verður að lítilli, harðri örðu í kjötinu. Líklegt er að ýmsir hafi orðið varir við þessa litlu hnúta án þess að gera mikið veður út af þeim, sérstaklega þó meðan ekki var vitað að þarna gátu verið kalkaðir vöðvasullir á ferðinni. Hvenær barst vöðvasullsbandormurinn til Íslands? Eftir á að hyggja er helst talið að bandormurinn hafi borist hingað til lands með platínurefum frá Bandaríkjunum í byrjun seinni heimtyrjaldarinnar, fyrst 1939. Þessir alirefir (stökkbreytt afbrigði af rauðref sem eru vel þekktir lokahýslar tegundarinnar) voru í framhaldinu fluttir yfir á loðdýrabú víðs vegar um landið (3. mynd). Þegar loðdýrabúin voru hreinsuð var refaskítur og annar úrgangur, sem þar hafði safnast upp, gjarnan borinn á völl eins og hver annar áburður þannig að væru egg vöðvasullsbandormsins í skítnum gátu þau borist yfir á gróður sem sauðfé náði síðan að bíta í námunda við loðdýrabúin. Þannig gat smitið fljótlega hafa borist í sauðfé og svo áfram frá smituðu fé yfir í heimilishunda. Og þar sem engin höft hafa í gegnum tíðina verið á flutningi hunda milli landshluta gat vöðvasullsbandormurinn borist hratt og örugglega með hundum um langa vegu innanlands, þar með yfir sauðfjárveikivarnarlínur. Gífurlegt smitmagn Hver bandormur framleiðir gjarnan um 250.000 egg á degi hverjum og dreifast eggin næstu vikur og mánuði yfir á beitarlandið í námunda við skít- inn, jafnvel tugi metra frá skítnum. Við hagstæðustu skilyrði, raka og lágt hitastig, geta eggin lifað þar í allt að 10 mánuði. Og þar sem bandormur- inn er langlífur í görn smitaðra hunda og hundurinn fær um að skíta víða á langri ævi, getur gífurlegt eggjasmit magnast upp þar sem smitaðir hundar halda sig. Þáttur villta refsins enginn? Á 9. áratug síðustu aldar, fljótlega eftir að vöðvasullurinn greindist hér fyrst í sauðfé, skoðuðu Karl Skírnisson og Matthías Eydal á Keldum 50 villta refi (melrakka) sem felldir höfðu verið á útbreiðslusvæði bandormsins frá Hvalfirði norður á Svalbarðsströnd með það í huga að leita sérstaklega að þessum bandormi. Enginn þessara refa reyndist vera með vöðvasullsbandorm. Áframhaldandi rannsóknir Matthíasar á tugum refa til viðbótar nú síðasta áratuginn sýndu sömu niðurstöðu, íslenski melrakkinn hefur sem sagt aldrei fundist smitaður af vöðvasullsbandormi. Hundar eru því greinilega mikilvirkastir í því að dreifa eggjum bandormsins hér á landi og dreifingin verður fyrst og fremst í námunda við sauðfjárbýlin þar sem hundarnir halda sig mest. Áskorun um aukið eftirlit og forvarnir Í mars 2019 sendi Félag Sauðfjár- bænda í Skagafirði Landsambandi Sauðfjárbænda og Matvælastofnun áskorun þess efnis að beita sér fyrir auknu eftirliti og forvörnum vegna vöðvasulls í sauðfé. Í greinargerð með áskoruninni kom fram að vöðvasullir fundust ekki í sauðfé á árabilinu frá 2001 fram til 2013 en árið 2014 og næstu ár þar á eftir hafi vöðvasullur fundist á fjölda býla, 6 býlum árið 2016, fjórum 2017 og hvorki meira né minna en á 16 búum árið 2018 (2. mynd). Vöðvasullsbandormurinn 2021 Staðsetning sauðfjárbýla þar sem smit hefur verið staðfest undan- gengin 7 ár er sýnd á 2. mynd. Þar vekur sérstaka athygli að smit hefur verið að greinast á nýjum slóðum, á þremur sauðfjárbýlum á Vestfjörðum, þremur býlum á Norðausturlandi og tveimur á Austurlandi. Eðlilega spyrja menn sig hvað þarna hafi verið að gerast. Svarið er augljóst, þarna hafa hundar smitaðir af vöðvasullsbandormi verið að dreifa eggjum yfir bithaga sauðfjárins sem vöðvasullir fundust síðan í við kjötskoðun í sláturhúsi. Hundarnir hafa greinilega ekki verið meðhöndlaðir með lyfi sem drepur í þeim bandorma. Þetta eru ótrúlega margir bæir. Þótt engin vöðvasullssýni hafi verið send að Keldum þetta haustið (2021), né heldur tvö undangengin haust, þá er ekki þar með sagt að bandormurinn sé ekki um þess- ar mundir einhvers staðar enn til staðar í hundum þannig að sauðfé sé enn að smitast. Mestar líkur eru á því að þetta geti gerst á bæjum þar sem trassað hefur verið að gefa bandormalyf sem sannarlega drepur Taenia bandorma, á bæjum þar sem hundar hafa komist í hráar sauðfjár- afurðir eða jafnvel verið fóðraðir á ófrosnu kjöti. Um lögbundna bandormahreinsun á hundum Í grein 57 í reglugerð nr. 941/2002 um hollustuhætti er kveðið á um að fyrirbyggja skuli sýkingar af völdum bandorma og spóluorma í hundum með því að gefa hundum sem náð hafa fjögurra mánaða aldri árlega inn ormalyf, lyf sem Lyfjastofnun hefur viðurkennt til þeirra nota. Sérstakur kafli er um hunda þar sem búrekstur er stundaður. Þar skulu hundar ormahreinsaðir að liðinni aðalsláturtíð eða í síðasta lagi í desember ár hvert, nema að annað komi fram í samþykkt hlut- aðeigandi sveitarfélags. Enn fremur, setji sveitarfélag sér samþykkt um hundahald, skal í henni kveða á um hreinsun hunda. Lyf til að útrýma þráðormum drepa ekki endilega bandorma Hundaeigendur og dýralæknar sem gefa hundum ormalyf þurfa að hafa það í huga að nota þarf lyf með virkni gegn bandormum svo sem praziquantel. Á lista Lyfjastofnunar eru nokkur lyf sem ætluð eru til ormahreinsunar í hundum, lyf sem innihalda paraziquantel en einnig annars konar lyf sem drepa þráð- orma. Bandormalyf eru til að mynda „Prazitel Plus“, „Drontaste í hunda“ og „Zantel“ og öll fást þessi lyf á töfluformi hjá dýralæknum. Til eru svokallaðar blettunar- lausnir (spot on lyf). Um er að ræða lyf á vökvaformi sem ætluð eru til útvortis notkunar gegn þráðormum eins og spóluormum sem og ytri sníkjudýrum (mítlum, lúsum og flóm). Lyfinu er dreypt á húðina. Þær blettunarlausnir sem fáanlegar eru hér á landi til notkunar á hunda drepa ekki bandorma! Mikilvægt er að átta sig á því þegar ætlunin er að meðhöndla hunda gegn bandormum í lögbundinni árlegri ormahreinsun allra hunda hér á landi. Vöðvasullur í nágrannalöndunum – markaðsvara Vöðvasullur er viðvarandi vanda- mál í flestum stærri sauðfjárrækt- arlöndum heims, svo sem í Ástralíu, á Nýja-Sjálandi, Kanada, Norður- Evrópu og í Wales. Auk fjárhunda geta til dæmis rauðrefir og úlfar hýst bandorminn og dreift eggjum yfir beitarlönd sauðfjár og geita. Þar er sums staðar mælt með því að varð- hundar hjarðanna séu meðhöndlaðir með bandormalyfi á fjögurra til sex vikna fresti. Erlendis er vöðvasull- ssmitað kjöt ekki markaðsvara fyrir fólk, sama er upp á teningnum hér á landi þannig að það að vera með smitaða hjörð hefur vissulega nei- kvæð áhrif á afkomu. Lokaorð Við hvetjum hunda- og sauðfjár- eigendur sem og dýralækna til þess að taka höndum saman og freista þess að útrýma vöðvasullsbandorminum hér á landi sem allra fyrst. Regluleg ormahreinsun sem beinist að því að drepa bandorma (lyf sem innihalda praziquantel) er lykilatriði. Rétt er þó að undirstrika að engar blettun- arlausnir (lyf gefin í dropaformi á húð) virka enn sem komið er til að drepa bandorma í hundum. Til að ná árangri þarf algjörlega að koma í veg fyrir að hundar á sauðfjárbýlum séu fóðraðir á hrámeti. Sé ætlunin að nota hráar sauðfjárafurðir til fóð- urs þurfa þær að hafa verið frystar það lengi (í amk. tíu stiga frosti í viku) að vöðvasullir í fóðrinu (þeir geta verið í öllum vefjum í líkama sauðfjárins) séu ekki enn lifandi og þar með smithæfir fyrir hundana. Til sveita er ráðlegt að bandormahreinsa alla hunda áður en þeir eru fluttir milli bæja eða svæða. Þá eru selj- endur hunda, ungra sem gamalla, ekki hvað síst fjárhunda, hvattir til að gefa ormalyf áður en hundarnir eru afhentir nýjum eigendum. Rétt er að gefa ormalyf oftar á svæðum þar sem vöðvasullssmits hefur orðið vart á undanförnum árum og brýnt er að engir hundar sleppi við meðhöndlun. Höfundar þakka Hákoni Hanssyni, dýralækni á Breiðdalsvík, fyrir gagnlegar ábendingar í tengsl- um við ritun greinarinnar. Karl Skírnisson og Kristbjörg Sara Thorarensen, sníkjudýradeild, Tilraunastöðinni á Keldum. Mynd 1. Lífsferill vöðvasullsbandormsins Taenia ovis. Bandormurinn getur orðið hálfs annars metra langur í iðrum hundsins, eggin dreifast út frá hundaskít yfir á beitarlandið og berast með gróðrinum niður í sauðféð. Bandormurinn getur lifað árum saman í hundinum, egg hans lifa mánuðum saman, stundum í allt að ár, á beitarlandinu. Mynd 2. Staðsetning sauðfjárbýla þar sem vöðvasullur hefur verið staðfestur á Íslandi frá árinu 2014 en þá jókst útbreiðslan allt í einu eftir áralangt hlé. Hvert býli er stjörnumerkt. Útbreiðslusvæði vöðvasulls á 9. áratug 20. aldar er gullitað en þá fannst vöðvasullur á 40 sauðfjárbýlum í átta aðskildum sauðfjárveikivarnarhólfum. Mynd 2. Staðsetning sauðfjárbýla þar sem vöðvasullur hefur verið staðfestur á Íslandi frá árinu 2014 en þá jókst útbreiðslan allt í einu eftir áralangt hlé. Hvert býli er stjörnu- merkt. Útbreiðslusvæði vöðvasulls á 9. áratug 20. aldar er gullitað en þá fannst vöðvasullur á 40 sauðfjárbýl- um í átta aðskildum sauðfjárveiki- varnarhólfum.
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60
Blaðsíða 61
Blaðsíða 62
Blaðsíða 63
Blaðsíða 64
Blaðsíða 65
Blaðsíða 66
Blaðsíða 67
Blaðsíða 68
Blaðsíða 69
Blaðsíða 70
Blaðsíða 71
Blaðsíða 72

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.