Norræn jól : ársrit Norræna félagsins - 01.12.1944, Síða 71
Norrœn jól
Það er viðbúið, að einhverjir góðir frændur vorir og unnendur norrænnar
samvinnu telji það varhugaverðar aðgerðir fyrir framtíð vora að leysa á þessum
tímum aldagömul stjórnarfarsleg bönd við annað Norðurlandaríki, og bendi oss
á, hver áhætta það sé fyrir vora litlu þjóð að ætla sér að sigla sinn eigin sjó.
En það er nú einu sinni svo, að þessi sjálfstæðisþrá er oss í blóð borin. Góð
ráð og bendingar stöðva hana ekki. Að þessu leyti rennur víkingablóðið oss enn
í æðum. Vér sjáum, að oss er háski búinn á margan veg, en vér látum oss ekki
skiljast, að hann verði umflúinn, þótt hin fyrri stjórnarfarslegu bönd væru hnýtt
saman aftur að styrjöldinni lokinni. Þjóðin teldi sig bregðast hugsjón sinni, ef
hún léti hætturnar og óvissuna, sem framundan eru, aftra sér frá því að renna
skeiðið á enda.
Nálægt fjórðung af síðustu 30 árum hefur leiðin austur á bóginn héðan
verið annað hvort lokuð með öllu eða lítt fær, en aðrar leiðir opnar. Hér við
bætist svo það, að stórveldin uppgötvuðu landið, ef svo má að orði kveða. Ný
viðhorf hafa myndazt, og vér verðum að laga háttu vora eftir þessum aðstæðum.
En það eru fleiri en frændur vorir austan hafs, sem telja tvísýnt, hvert leið
vor liggur.
Eitt merkasta dagblað heimsins minntist íslenzku þjóðarinnar, að gefnu dl-
efni, 11. október 1941. Eftir nokkur hlý og lofsamleg ummæli um þjóðina, kemst
blaðið að orði á þessa leið: „Hið hernaðarlega mikilvægi Islands í nútíma styrjöld
hefur sýnt sig að fullu, og landið hefur, góðu heilli, komizt réttu megin inn í
stjórnmál heimsins. En hvort þetta leiðir til þess, að hin þjóðlega menning landsins
deyr smám saman út eða ekki, mun seinni tíminn leiða í ljós.“
Hér er talað aí raunsæi og rósemi um efnið, eins og við mátti búazt. Mér
urðu þessi orð minnissstæð af því, að þau voru sögð með svo miklu látleysi, en
einnig festust þau í minni mínu sökum þess, að í ríkisútvarpið íslenzka var fluttur
um sama leyti langur erindaflokkur um þjóðir, sem týndust.
Þessi erindaflokkur var óskemmtilegur. Það kemur við hjartað í Islending-
um, þegar talað er um þjóð, sem dó út eða týndist. Islendingar fóru einu sinni í
vesturveg og festu þar byggðir og bú. Þeir mynduðu þjóðfélag, sem stóð um
nokkrar aldir, en svo fór að lokum, að þetta fólk týndist. Þetta fólk var snar þáttur
af íslenzku þjóðinni, og það hvarf með öllu, af því að norræn samvinna brást. Þetta
er ein hin ömurlegasta saga í annálum Norðurlanda.
Það vill engin þjóð týnast, og það er því ekkert sérkennilegt, þótt íslenzka
þjóðin sé ráðin í að reyna að týnast ekki. Hún trúir því, að henni muni takast að
lifa enn um langan aldur, þrátt fyrir allan heimsósóma, sem kann að hafa hent
hana nú allra síðustu ár. Það ætti einnig að verða henni stoð í lífsbaráttunni, að
„landið hefur, góðu heilli, komizt réttu megin inn í stjórnmál heimsins“, það er,
sama megin og hinar Norðurlandaþjóðirnar eru í hjarta sínu.
69