Peningamál - 04.05.2022, Síða 55

Peningamál - 04.05.2022, Síða 55
PENINGAMÁL 2022 / 2 55 Að öllu samanteknu virðist ekki líklegt að stríðsátökin hafi mikil bein neikvæð áhrif á utanríkisviðskipti Íslands þótt þau geti orðið nokkur fyrir einstaka fyrirtæki og atvinnu- greinar. Óbein áhrif í formi mikillar verðhækkunar á orku- gjöfum og annarri hrávöru verða hins vegar víðtæk hér á landi eins og víða annars staðar. Kostnaður fyrirtækja eykst, innflutnings verð hækkar og framfærslukostnaður heimila þar með einnig, sem hefur neikvæð áhrif á eftirspurn eftir vöru og þjónustu. Aukin óvissa um efnahagshorfur kann jafnframt að draga enn frekar úr útgjalda- og fjárfestingarvilja inn- lendra heimila og fyrirtækja. Á móti vegur hins vegar sterk eignastaða heimila og mikill uppsafnaður sparnaður sem þau geta gengið á til að mæta hækkun verðlags. Áhrifin á framfærslukostnað heimila verða einnig minni hér á landi en á meginlandi Evrópu þar sem vatnsafl og jarðvarmi eru notuð hér á landi til húshitunar og rafmagnsframleiðslu fremur en olía og jarðgas. Verðhækkun mikilvægra útflutningsafurða eins og áls og sjávarafurða vegur einnig á móti neikvæðum áhrifum mikillar hækkunar olíu- og hrávöruverðs á viðskipta- kjör (sjá kafla I). Þá er líklegt að áhrif átakanna á innlent fjármála- kerfi verði takmörkuð enda eru fjármálaleg tengsl þess við Rússland og átakasvæðið hverfandi (sjá einnig rammagrein 1 í Fjármálastöðugleika 2022/1). Lausafjárstaða innlendra banka er auk þess góð, gjaldeyrisforði Seðlabankans rúmur og erlend staða þjóðarbúsins sterk. Innlent fjármálakerfi ætti því að vera vel í stakk búið til að takast á við mögulegar neikvæðar hliðarverkanir átakanna. Þrátt fyrir að skulda- tryggingarálag á ríkissjóð hafi lítið breyst í kjölfar ástandsins hefur vaxtaálag á erlendar skuldbindingar hans sem og innlendra viðskiptabanka hækkað. Það ætti þó ekki að hafa mikil áhrif á ríkissjóð til skamms tíma litið þar sem þörfin fyrir endurfjármögnun er ekki brýn. Áhrifin á innlend fyrirtæki og viðskiptabanka sem þurfa að endurfjármagna erlendar skuldabréfaútgáfur á komandi misserum gætu hins vegar orðið meiri. Þá kann gjaldmiðlaálag á íslensku krónuna að hækka vegna aukinnar óvissu í alþjóðlegum efnahagsmálum og gengi krónunnar því orðið heldur lægra en ella á næstu mánuðum. Á heildina litið valda stríðsátökin því að verðbólga hér á landi verður meiri og þrálátari en hún hefði ella verið og vöxtur einkaneyslu minni. Hagvöxtur í helstu viðskipta- löndum verður einnig minni og útflutningur héðan eykst því hægar en ella þótt betri viðskiptakjör vegi þar á móti. Hagvöxtur hér á landi verður því minni en á horfðist áður en stríðið braust út. Óvissa um efnahagshorfur er hins vegar mikil og hversu mikil áhrifin verða mun ráðast af framvindu mála á alþjóðavísu.

x

Peningamál

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Peningamál
https://timarit.is/publication/1144

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.