Morgunblaðið - 31.12.2022, Blaðsíða 10
10 MORGUNBLAÐIÐ TÍMAMÓT 31.12.2022
TÍMAMÓT AUÐURINN Í OPINSKÁRRI UMRÆÐU
Morgunblaðið/Ásdís
Hjónin Steingerður Lóa og Auður takast á við nýjan veruleika
eftir að Steingerður Lóa kom út sem trans kona fyrir skömmu.
Morgunblaðið/Ásdís
Mars M. Proppé er kynsegin aktívisti sem telur að fólk þurfi sjálft að
kynna sér málefni hinsegin fólks til að skilja hlutina betur.
Morgunblaðið/Ásdís
Una Torfadóttir hefur upplifað á unga aldri að takast á við krabbamein
í heila. Hún tekst nú á við lífið með reynsluna ogæðruleysið að vopni.
Aldrei í mínum villtustu draumum
Viðmælendur Sunnudagsblaðsins
eru á öllum aldri og af öllum kynjum
en eiga það sameiginlegt að opna á
umræður sem er nauðsynlegt til að
auka skilning og minnka fordóma.
ÁSDÍS ÁSGEIRSDÓTTIR
hefur verið blaðamaður á Sunnudagsblaði
Morgunblaðsins frá 2015. Hún var áður ljós-
myndari blaðsins frá 1995-2007.
Fólk er svo áhugavert að það er varla til sú
fullorðin manneskja sem gæti ekki sómað sér
vel í sunnudagsviðtali og oft eru það hvunn-
dagshetjurnar sem snerta mest hjörtu lesenda.
Það er alltaf sérlega skemmtilegt að heyra í
því fólki, sem og ævintýrafólki, Íslendingum
erlendis, flóttamönnum og fólki af erlendum
uppruna og af öllum kynjum. Blaðamaður
ákvað að fletta til baka í viðtöl sín í Sunnu-
dagsblöðum ársins og rifja upp það sem fólk
hafði til málanna að leggja á árinu sem er að
líða. Þið takið til ykkar það sem ykkur hentar
en undirrituð lærði svo margt af viðmælend-
um ársins að það væri efni í heilt blað. Fyrir
valinu urðu fimm konur, transkona og kvár. Þið
afsakið, karlmenn.
Í viðtölunum sem vitnað er í var rætt um
sjálfsvíg, ofbeldi og sjúkdóma. Það var talað
um hinseginleika og fordóma. Í hópnum eru
Íslendingar og útlendingar, ungt fólk sem hefur
upplifað erfiðleika og kona sem komin er af
léttasta skeiði og býr yfir visku sem aðeins
fæst með hækkandi aldri.
Sár sem geta gróið
Í janúar hringdi undirrituð myndsímtal til
Berlínar og náði tali af Elmu Stefaníu Ágústs-
dóttur leikkonu. Viðtalið snerist að mestu
um leiklistina. En daginn eftir viðtalið sendi
Elma blaðamanni skilaboð. Hún vildi bæta við
nokkru sem hún hafði aldrei talað um áður,
ekki síst vegna þess að hún taldi að saga sín
gæti hjálpað öðrum. Hún sagði þá frá því, með
tárin í augunum, að kærastinn hennar hefði
framið sjálfsvíg eftir rifrildi við hana þegar
hún var aðeins tvítug að aldri og þó langur
tími væri liðinn, væri sársaukinn enn til staðar.
Frásögn hennar sat lengi í blaðamanni.
„Öll fjölskyldan hans og vinir kenndu mér
um og ég mátti ekki mæta í jarðarförina.
Mér var sagt að ég ætti að fara í fangelsi fyrir
manndráp af gáleysi. Ef ég hitti einhvern
tengdan honum niðri í bæ var mér hótað; mér
var gerð grein fyrir því að ég ætti ekki að láta
sjá mig. Það væri hættulegt,“ segir Elma.
„Ég fór að hugsa um alla þá sem sitja eftir; um
þá sem kennt er um svona. Við lendum öll í ein-
hverju í lífinu. Kannski les þetta einhver sem lent
hefur í svona og sér að það er hægt að komast í
gegnum þetta og maður getur látið drauma sína
rætast,“ segir hún og vill segja fólki að það sé
hægt að komast í gegnum slík áföll.
„Þetta eru sár sem geta gróið. Þótt ég gráti
núna þá græt ég ekki á hverjum degi. En nú vil
ég vera óhrædd, stíga inn í óttann og segja frá
þessu.“
Mér er algjörlega sama um hina!
Fleiri Íslendingar erlendis lentu í sunnu-
dagsviðtölum. Hin hálfíslenska Anna-Sigga
Niccolazzi var sérlega skemmtilegur viðmæl-
andi. Hún er saksóknari í Brooklyn sem gerðist
þáttastjórnandi í hlaðvarpi um alvöruglæpa-
mál. Sjálf hafði hún upplifað hroðalegan glæp í
eigin fjölskyldu þegar frænka hennar var myrt
úti á götu. Foreldrar ungu stúlkunnar urðu
aldrei samir.
„Það að sjá alla þá sem þjást og munu aldrei
verða samir, hefur alltaf verið eitt af því sem
hefur drifið mig áfram þegar ég hef unnið
að morðmálum. Ég fer ekki að sofa þó ég sé
þreytt því við fáum bara eitt tækifæri í réttar-
salnum og aðstandendur eiga það skilið að við
gerum okkar allra besta,“ segir hún.
Önnur áhugaverð kona sem ég ræddi við
á árinu var Sibilla Bjarnason, listakona á
níræðisaldri í Nice í Frakklandi. Sibilla, fædd
í Lettlandi, hafði lifað spennandi lífi víða um
heim. Í Moskvu kynntist hún íslenskum manni
og þegar hjónin fluttu til Íslands var ætlast
til þess að þau gerðust njósnarar. Hann lést
svo langt fyrir aldur fram og Sibilla, sem var
tannlæknir, flutti til Svíþjóðar, gerðist doktor í
tannlækningum og vann þar ýmis störf í þágu
vísinda. En á efri árum fór hún að fikta við
að mála og endaði með að gerast listakona í
Frakklandi. Í dag ferðast Sibilla víða um heim
og sýnir list sína og nýtur lífsins sem aldrei
fyrr, 84 ára gömul.
„Maður veit ekki hvar maður endar. Þetta
var aldrei í mínum villtustu draumum,“ segir
Sibilla og segir ekki alla kunna að meta sína
list en það trufli hana ekki.
„Ég hef mikinn áhuga á að hlusta á það fólk
sem ég met og virði. En mér er algjörlega
sama um hina.“
Góð ráð það!
Að velta sér upp úr frelsinu
Í ágúst var Mars M. Proppé sannarlega
áhugaverður viðmælandi sem opnaði augu
blaðamanns, og vonandi lesenda, en hán sagði
frá lífi sínu sem kynsegin aktívista. Hán gekk
í gegnum erfitt tímabil þegar hán kom út sem
kynsegin en hefur trú á að fólk vilji ekki vera
með fordóma.
„Yfirleitt vil ég meina að fólk sé móttækilegt
og tilbúið að læra. Hvert og eitt þarf að sjá að
heimurinn er í stöðugri þróun og þá þarf fólk
að endurmeta heimsmynd sína samkvæmt því.
Ég get ekki gert það fyrir fólk; það þarf sjálft
að lesa sér til og víkka sinn sjóndeildarhring
eða bara setjast niður og hugsa um sína upplif-
un. Það er oft gott að líta í eigin barm og pæla í
þessum hlutum.“
Blaðamaður spyr þá hvort hán sé glatt að
vera kynsegin. Hán lá ekki á svarinu.
„Já, ég er svo glatt að vera kynsegin og gæti
ekki hugsað mér að festast innan boxanna, að
vera karl eða kona. Ég velti mér upp úr þessu
frelsi alla daga.“
Hinsegin hjón voru einnig í viðtali í haust.
Steingerður Lóa Gunnarsdóttir kom út fyrir
konu sinni Auði Ákadóttur sem trans kona.
Auður skilgreinir sig í dag hinsegin.
„Þetta er ekki endilega þannig að maður
fæðist í röngum líkama; líkami manns er alltaf
manns eigin. En það er misræmi í heilanum og
líkamanum,“ segir Steingerður Lóa og segist
hafa óttast að Auður myndi hafna sér en það
gerði hún ekki.
„Persónan skiptir meira máli og Auði finnst
ég aðlaðandi í báðum hlutverkum,“ segir Stein-
gerður Lóa, en hún er samkynhneigð.
„Það var líka ástæðan fyrir því að ég var
svona lengi að átta mig á að ég vildi vera kona
því sýnileiki trans lesbía var svo lítill og það
voru meiri fordómar gagnvart þeim en gagn-
kynhneigðum trans konum. En þetta er alveg
ótengt. Annað gengur út á hver þú ert og hitt
gengur út á kynhneigð þína,“ segir Steingerður
Lóa og bætir við: „Maður er aldrei of seinn að
vera maður sjálfur.“
Öll í stöðugum slag við dauðann
Söngkonan Una Torfadóttir er yngsti við-
mælandinn af þeim sem hér eru nefndir. Hún
segir hispurslaust frá heilaæxli sem nú er horf-
ið. Æðruleysið skín í gegn, sem og þakklætið.
„Ég held að maður öðlist nýtt viðhorf til lífs-
ins. Það er ekkert sjálfgefið og það þýðir ekkert
að hugsa hlutina þannig að ég sé í stöðugum
slag við dauðann. Í rauninni skilur maður að við
erum það öll. Við vitum ekki neitt og vitum ekki
hvenær eitthvað kemur fyrir. Þess vegna verður
maður að leggja sig fram við að vera þakklátur
fyrir það sem maður hefur, frekar en að vera
hræddur við að missa það allt. Krabbameinið er
ekki viðfangsefni sem ég hef sérstakan áhuga á
að kryfja eitthvað meira, en sé það frekar sem
reynslu sem mótaði mig. Það gerir mér kannski
kleift að takast á við lífsins verkefni af meira
æðruleysi.“
Við látum það verða lokaorðin. Gleðilegt nýtt
ár kæru lesendur!
Við vitumekki neitt og vitumekki hvenær eitthvað
kemur fyrir.Þess vegna verðurmaður að leggja
sig framvið að vera þakklátur fyrir það semmað-
ur hefur, frekar en að vera hræddur við aðmissa það allt.
Ljósmynd/Belathée Photography
Hin hálfíslenska Anna-Sigga Nicolazzi er
með hlaðvarpsþáttinn Anatomy of Murder.
Ljósmynd/Edda Pétursdóttir
Leikkonan Elma Stefanía opnar sig um
sjálfsvíg kærasta síns margt fyrir löngu.
Ljósmynd/Úr einkasafni
Sibilla Bjarnason gerðist listakona á efri
árum og er sama hvað öðrum finnst.