Morgunblaðið - 31.12.2022, Blaðsíða 14
14 MORGUNBLAÐIÐ TÍMAMÓT 31.12.2022
Morgunblaðið/Kristinn
Sólveig Anna Jónsdóttir kom, sá og sigraði með Baráttulista sínum og endurheimti völd í Eflingu í febrúar en tók ekki við fyrr en í apríl. Ekki leið á löngu þar til fór að blása að nýju innan ASÍ.
Byltingin sem át börnin sín – tvisvar
Árið 2022 var ár væringa í verka-
lýðsmálum. Átök geisuðu, samn-
ingar voru undirritaðir, félög klofn-
uðu og hurðum var skellt. Enn er
óljóst hvað verður um ASÍ og enn
er ekki útséð um hvort til verkfalla
komi á nýju ári.
Við upphaf árs varð ljóst að fram undan væru
væringar innan verkalýðshreyfingarinnar.
Heimsfaraldurinn minnti enn á sig, enn ríkti
talsvert atvinnuleysi og ekki var víst hvernig
land og þjóð kæmu undan stærsta samfélags-
lega áfalli sem dunið hefur á heiminum síðan í
seinni heimsstyrjöld. Þá lá fyrir að kjarasamn-
ingar yrðu lausir á árinu, að formennskukjör
yrði bráðlega í Eflingu, sem og stjórnarkjör í
VR, að þaulreyndur formaður Starfsgreina-
sambandsins léti af störfum, ný forysta tæki
við og að þing ASÍ yrði haldið á árinu.
Gamalkunnur draugur, sem lengi hafði legið í
dvala, var farinn að láta á sér kræla. Verð-
bólgan var komin yfir fimm prósent, staða sem
landsmenn láta sig dreyma um í dag.
Sólveig Anna Jónsdóttir hafði sagt sig frá
formennsku í Eflingu, einu stærsta verkalýðs-
félagi landsins, eftir átök í eigin herbúðum.
Herskái armur verkalýðshreyfingarinnar, sem
ætlaði sér byltingu, var laskaður. Byltingin
hafði étið börnin sín. Inni í ASÍ ríkti logn.
Þrátt fyrir allt ofantalið var á engan hátt
hægt að sjá fyrir þær flugeldasýningar sem
urðu á vettvangi verkalýðshreyfingarinnar á
árinu og urðu lyginni líkastar.
Við afsögn Sólveigar Önnu tók Agnieszka
Ewa Ziółkowska við formennsku Eflingar, fyrst
pólskra kvenna, og naut stuðnings Ólafar Helgu
Adolfsdóttur - eða segja má að þær hafi stutt
hvor aðra. Auk þess mátti greina samhljóm á
milli þeirra og Drífu Snædal, forseta ASÍ.
Þær stöllur gerðu heiðarlega tilraun til þess
að halda forystunni í Eflingu í stjórnar- og
formannskjöri. Þeim varð ekki kápan úr
því klæðinu því að Sólveig Anna kom, sá og
sigraði með nýjan Baráttulista og endurnýjaði
umboð sitt sem formaður Eflingar í febrúar.
Þrátt fyrir að framboð Ólafar, Agnieszku og
félaga hafi að mörgu leyti notið stuðnings í
almennri umræðu er ljóst að þeirra sterka hlið
var ekki að virkja fólk og smala í kosningar.
Atkvæðagreiðslan var rafræn og var þátttaka
skammarlega lítil, líkt og oftast í verkalýðs-
félögum. Lýðræðishallinn, sem ríkjandi er í
fjöldahreyfingunum, sem verkalýðsfélögin eru,
hefur sjaldan verið skýrari – nema mögulega
aðeins síðar á árinu.
Sólveig Anna tók þó ekki við stjórnartaum-
unum fyrr en í apríl samkvæmt lögum og venj-
um Eflingar. Við tók hið furðulegasta tímabil
þar sem Sólveig reyndi að fá stólaskiptum flýtt
og fann lögunum allt til foráttu. Lögum, sem
viðurkennast verður að eru nokkuð óheppileg,
en hún hafði sjálf verið í öllum færum til að
lagfæra í fyrri formennskutíð sinni.
Aðeins örfáum dögum síðar var stjórnarkjör
í VR þar sem hálf stjórnin er endurnýjuð á
tveggja ára fresti. Skemmst er frá því að segja
að þar komust fleiri að en vildu.
Seint í mars var þá þing Starfsgreinasam-
bandsins. Björn Snæbjörnsson lét af for-
mennsku eftir tólf ár og Vilhjálmur Birgisson,
yfirlýstur bandamaður Sólveigar sem vart
þarf að kynna, fór með nauman sigur af hólmi í
formannskjöri.
Á aðeins þremur mánuðum hafði róttæki
armurinn farið frá því að liggja í dvala, yfir í að
hafa náð völdum í Eflingu, VR og Starfsgreina-
sambandinu, ásamt því að njóta stuðnings
fleiri félaga á landsbyggðinni.
En líkt og verða vill í blóðheitri baráttu sem
ekki snýst um sameiginlegar hugsjónir, heldur
persónulegan metnað einstaklinga í bandalagi,
voru brestir ekki lengi að koma í ljós. Sólveig
Anna gat ekki snúið aftur á skrifstofu Eflingar
og starfað með fólkinu sem hún taldi hafa
hrakið sig úr starfi. Þvert á móti afþakkaði hún
kjörið tækifæri til sátta, nýs upphafs, og sagði
öllu starfsfólki á skrifstofu Eflingar upp í nafni
skipulagsbreytinga og langsóttra fullyrðinga
um yfirtöku sérfræðingaveldis hinnar mennt-
uðu millistéttar á baráttu láglaunafólks. Dylst
engum raunverulegur tilgangur fordæma-
lausra uppsagnanna og virtist Sólveig engu
skeyta um að dagleg starfsemi skrifstofunnar
yrði í lamasessi í lengri tíma, að stofnanaminni
myndi tapast, eða þá stöðu sem hún setti fé-
laga sína í róttæklingabandalaginu í, þegar hið
augljósa gerðist og félagar hennar yrðu inntir
eftir viðbrögum við útspilinu.
Sólveig Anna mætti óvæntri mótspyrnu,
þar sem félagsmenn Eflingar söfnuðu yfir 300
undirskriftum til að knýja fram félagsfund
þar sem greidd yrðu atkvæði um þá tillögu
að draga uppsagnirnar til baka. Hefði tillagan
fengist samþykkt hefði staða Sólveigar Önnu
veikst verulega þrátt fyrir nýlega endurnýjað
umboð.
Svo fór að tillagan var felld á hitafundi. Enn
er áðurnefndur lýðræðishalli svo skýr að hann
er blindandi. Langtum færri mættu á fundinn
en höfðu skrifað undir kröfu um boðun fundar-
ins. Örfáar hræður, í stóra samhenginu, ákváðu
örlög fjölda starfsfólks þvert á almenna um-
ræðu og almenna skynsemi í stærsta hitamáli
ársins í verkalýðshreyfingunni.
Frá því að Sólveig Anna boðaði endurkomu í
Eflingu tók að blása að nýju innan ASÍ. Lognið,
sem ríkt hafði um stundarkorn, reyndist
svikalogn. Forseti ASÍ sá í hvað stefndi og tók
sumarið í að liggja undir feldi og meta stöðu
sína.
Skömmu eftir verslunarmannahelgi, þegar
samfélagið var um það bil að hrökkva í gang
eftir sumarleyfi sagði Drífa Snædal af sér sem
forseti ASÍ. Róttæki armurinn virtist standa
með pálmann í höndunum. Það eina sem eftir
var, var að skipta embættum innan ASÍ á milli
sín en yfirtaka þeirra virtist óumflýjanleg.
Ragnar Þór yrði næsti forseti ASÍ.
Framboðin í hverja stöðu fyrir sig voru
tilkynnt og hver formaður fyrir sig átti að
tryggja sína þingfulltrúa á grundvelli þess
augljósa, að bandalagið hefði meirihluta á þingi
ASÍ. Á elleftu stundu sýndi „hinn armurinn“
að hann væri ekki dauður úr öllum æðum.
Mótframboð bárust í öll embætti frá fólki sem
kalla má mótspyrnuna við yfirtökunni. Loks
tóku að renna tvær grímur á yfirtökuleiðtog-
ana, þegar ljóst varð að fulltrúar VR, fjölmenn-
asta félagsins innan ASÍ, kysu að hugsa fyrir
sjálfa sig og myndu ekki styðja Sólveigu Önnu
skilyrðislaust.
Þegar ljóst varð að Ragnar, Sólveig og
Vilhjálmur höfðu ekki fullkomna stjórn á
aðstæðum gengu þau út af þinginu. Eftir stóð
ASÍ, margklofið og umboðslaust fyrir komandi
kjarasamninga.
Atburðarásin sem síðan fór af stað, þegar að
samningum kom, er engu líkari en að hún hafi
verið samin á kontór hjá Samtökum atvinnu-
lífsins. Sólveig Anna klauf sig frá Starfsgreina-
sambandinu, ASÍ án hlutverka og samvinna
ASÍ, BHM og BSRB fór út um þúfur.
SA sáu sér leik á borði og lögðu gott tilboð
fyrir SGS, tilboð sem Vilhjálmur Birgisson
gat ekki hafnað fyrir sitt félagsfólk þar sem
sérstaklega var litið til starfa fiskvinnslu-
fólks. Ekkert tryggðabandalag hélt þegar
kom að samningum og Vilhjálmur reyndist
ekki tilbúinn að fórna hagsmunum síns fólks
fyrir hælinn á Sólveigu Önnu. Tóninn var
settur.
Ragnar Þór, í tryggðaklemmu á milli
Sólveigar Önnu annars vegar og félagsfólks
síns hins vegar, skrifaði undir álíka samn-
inga tilneyddur, rauk á dyr og reyndi að
fá samninginn felldan í atkvæðagreiðslu.
Samningurinn var samþykktur með yfirgnæf-
andi meirihluta og örlítið skárri þátttöku en
vanalega.
Eftir stendur Efling. Fyrir liggur að samn-
ingar verða ekki undirritaðir fyrir áramót
og SA er í sterkri stöðu þar sem samið hefur
verið við stóran hluta vinnumarkaðarins.
Nú hefur reynt á tilraun hinnar nýju róttæku
stéttabaráttu í samningum og óhætt að
fullyrða að hún hefur ekki gengið sem skyldi.
Byltingin hefur étið börnin sín, aftur.
Eftir stendur að Efling getur enn efnt til
átaka. Ef hið ólíklega gerist að það náist
betri samningar en þegar hafa verið undir-
ritaðir, sjáum við fram á nýjan veruleika í
verkalýðsbaráttunni þar sem samningamód-
elið snýst um að eitt félag fari fram og taki
hitann og þungann af átökum og önnur fylgi
á eftir.
Örfáar hræður, í stóra samhenginu,
ákváðu örlög fjölda starfsfólks þvert á
almenna umræðu og almenna skynsemi
í stærsta hitamáli ársins í verkalýðshreyfingunni.
TÍMAMÓT VERKALÝÐSHREYFINGIN LOGAÐI OG VAR VETTVANGUR FLUGELDASÝNINGA OG SJÓNARSPILS.
KARÍTAS RÍKHARÐSDÓTTIR
hefur starfað sem blaðamaður á ristjórn Morgun-
blaðsins og mbl.is frá árinu 2020.