Morgunblaðið - 31.12.2022, Blaðsíða 51
MORGUNBLAÐIÐ TÍMAMÓT 31.12.2022 51
Fadil Berisha
„Að reisa ættarveldi
merkingar“
Þegar móðir mín var eins árs fór fjölskylda
hennar um borð í djúnku og yfirgaf Kína fyrir
fullt og allt. Þau voru á leið til Filippseyja þar
sem amma mín heillaði hana á þeirra nýja
heimili með grípandi sögum um drukkin goð og
gyðjur og flökkuskáld, vitra kjána og talandi dýr,
um gula keisarann, Kínamúrinn og aðrar dýrðir
hinnar stórkostlegu fimm þúsund ára gömlu sið-
menningar, keisaradæmisins, sem kallað hefur
verið miðríkið.
Þegar ég var að alast upp í West Lafayette í
Indiana sagði móðir mín mér sömu sögur. En
hún sagði mér einnig frá skelfilegri æsku meðan
á hersetu Japana á Filippseyjum stóð. Hún lýsti
japönskum hermönnum sem stungu kornabörn
með byssustingjum og neyddu einn af frændum hennar til að þamba svo mikið vatn
að hann sprakk. Hún rakti hvernig foreldrar hennar dulbjuggu hana sem dreng – ég
áttaði mig aðeins á því löngu síðar að það hefði verið vegna þess að þau höfðu heyrt
svo margar hryllilegar sögur af því hvað japanskir hermenn hefðu gert við ungar stúlk-
ur. Og hún lýsti gleðideginum þegar Douglas MacArthur hershöfðingi frelsaði Filipps-
eyjar og hún og vinir hennar hlupu á eftir bandarísku jeppunum, hrópandi af fögnuði
um leið og hermenn hentu út Spam-dósum.
Þegar ég eignaðist dætur mínar tvær sagði ég þeim allar sögurnar sem móðir mín
hafði sagt mér. Þegar þær voru 13 og 16 ára skrifaði ég bók sem hét „Battle Hymn
of the Tiger Mother“ um hvernig ég hefði reynt að ala þær upp með sama hætti og
foreldrar mínir hefðu alið mig upp og hvers vegna ég ætlaðist til svona mikils af þeim,
endursagði söguna um æsku dætra minna frá mínu sjónarhorni. Bókin var að hluta til
ástarbréf, að hluta afsökun, að hluta réttlæting. Ég átti aldrei von á því að sögurnar
mínar myndu fá hárin til að rísa á jafn mörgu fólki. En sögur geta haft ólíka merkingu
fyrir ólíku fólki. Og hafa lag á því að öðlast sitt eigið líf, verða kveikjan að fleiri sögum
og andsögum og yfirsögum.
Við segjum sögur af ótal ástæðum: til að gleðja og eyðileggja, til að vopna og
afvopna, til að hugga og kalla fram hlátur. Þessa dagana elska ég að fara með fyrir
nemendum mínum sögur af höfnun og auðmýkingu frá því ég var yngri – hræðilegum,
fullkomnum vonbrigðum, sem mig svíður enn undan í andlitinu. Sögur geta brúað
gjár, tengt okkur í okkar sameiginlega fáránleika. Innan um utnaðakomandi segjum
við sögur til að varðveita, til að koma á framfæri stolti milli kynslóða, til að reisa ætt-
arveldi merkingar.
Amy Chua er lagaprófessor við Yale-háskóla og rithöfundur. Nýjasta
bók hennar er Political Tribes: Group Instinct and the Fate of Nations.
Amy Chua
Zhang Jinfan
„Okkar besti og
þrautseigasti félagi“
Svo lengi sem fólk andar mun það tala, skrifa og
segja sögur.
Sögur hafa verið til jafnvel frá því áður en
maðurinn öðlaðist hæfnina til að segja þær.
Þegar líf fólks fléttuðust saman og frumstæð-
ar tilfinningar vöknuðu urðu án efa til alls
konar sögur. Þegar samskipti manna hófust
og félagsleg bönd urðu til varð skýrleiki þeirra
meiri og þær urðu flóknari og smám saman
kom í ljós hlutverk þeirra í að skemmta og
fræða.
Alveg sama á hvaða stigi mannkyn hefur
verið, sögurnar hafa alltaf verið okkur við hlið
og orðið okkar besti og þrautseigasti félagi.
Allt frá því við vorum nýfædd smábörn og
byrjuðum að líkja eftir hljóðum höfum við hlustað grannt á sögur. Þær koma frá
fjölskyldum okkar, nágrönnum, úr sveitum og bæ, úr bókum. Af þessum sögum
lærum við um grundvallaratriði á borð við réttlæti, siði, eðli viskunnar og hvað það
þýðir að trúa; við öðlumst skilning á góðu og illu, siðmenningu og listum, greind
og fáfræði.
Þótt leiðirnar til að miðla þeim geti hafa breyst með tímanum er innri kjarni þessara
sagna hinn sami. Á hverju stigi mannlegrar tilveru sjáum við svipuð þemu endurtaka sig.
Að fæðast, eldast, veikjast og deyja; sorgin við að kveðja og gleði endurfunda: Reynsla
sem allir eiga sameiginlega. En smáatriðin í því hvernig við nálgumst þessi þemu og segj-
um frá þeim þróast á ólíkum skeiðum og taka á sig ólíkar myndir, sem velta á aðstæðum
á borð við bakgrunn, kynþátt og kyn.
Óteljandi einstakar sögur mynda í heild sinni sameiginlega sögu allrar mannlegrar
þekkingar og tilfinninga. Sumar sögur eru langar, aðrar stuttar, og sumar eru óljósar og
ókláraðar – en allar eru þær hluti af þróun okkar. Og þegar við ferðumst í gegnum lífið
verðum við líka sögumenn. Og eftir því sem líf okkar þræðir spíralinn upp á við hækka
sögur okkar flugið án afláts.
Fang Fang er rithöfundur og handhafi Lu Xun-bókmenntaverðlaunanna.
Hún er höfundur Wuhan Diary: Dispatches From a Quarantined City.
(Michael Berry þýddi úr kínversku á ensku.)
Fang Fang
Austin Fuller
„Í sögu skákarinnar liggur
víðtækari mannleg saga“
Ég segi sögur vegna þess að á streymisveitunni
Twitch er ætlast til þess að ég sé skemmtikraftur.
Á yfirborðinu stillir fólk á streymið mitt til að horfa
á mig tefla, en hefði ég enga sögu að segja um
leikina, sem ég leik, gæti ég eins verið tölvuforrit.
Ég þarf að ýta undir – eða búa til – dramatíkina í
skákinni til að halda athygli aðdáenda minna og
ýta undir meiri áhuga.
Í streyminu mínu segi ég sögur um skák, skák-
mót, sögulega viðburði og viðureignir. Ég geri
sjálfan mig líka að persónu í sögu skákarinnar. Að
minni reynslu er það nú einu sinni þannig að að-
eins nokkur hundruð manns hafa þolinmæði fyrir
þurri greiningu á skákfléttum, en hundruð þús-
unda vilja heyra af því þegar andstæðingur þinn var alltaf að sparka í þig undir borðinu
eða var svo hræðilega andfúll að þú gast ekki einbeitt þér. Þannig verður saga um skák
að mannlegri sögu með víðari skírskotun. Jafnvel fólk, sem veit ekki mikið um skák,
getur tengt við skákmann, sem þurfti að glíma við óviðkunnanlegan andstæðing, upplifði
sársaukafullt tap eða tókst að knýja fram dramatískan sigur eftir að hafa lent undir.
Fyrir þau okkar sem elskum skák hefur það að segja sögur af viðureignunum annan
tilgang. Endursagnir af skákmótum og reynslu skákmanna gefur þeim, sem eru í skák-
klúbbum heima í héraði, tækifæri til að ímynda sér heim utan hins fámenna hóps þeirra
reglulegu andstæðinga. Þeir geta séð sjálfa sig fyrir sér sem hluta af risastóru alþjóð-
legu samfélagi, sem í er litríkt, hæfileikaríkt fólk sem talar önnur tungumál og kemur frá
ólíkri menningu, en getur samt talað saman í gegnum leikina á skákborðinu.
Sögurnar sem ég segi um skák kunna að hafa altæka skírskotun, en þær spretta úr
mjög persónulegum grunni. Þegar ég tala um fólkið sem kenndi mér, kom mér á óvart,
sýndi mér eitthvað sérstakt í skákinni, viðheld ég einnig tengingunni við þann hluta af
mér sem elskar þessa íþrótt. Þessar sögur eru mér hvatning til að leita að nýjum hug-
myndum og finna meiri fegurð í fléttunum á skákborðinu, uppgötva nýja hluti í íþróttinni
– og um sjálfan mig.
Hikaru Nakamura er stórmeistari í skák, einn af bestu hraðskákmönnum
heims, fimmfaldur bandarískur skákmeistari og vinsælasti skákmaðurinn
á Twitch og YouTube.
Hikaru Nakamura
Með leyfi Michelle Thaller
„Alheimurinn er saga sem
er til frá upphafi til enda“
Mannshugurinn gengur allur út á tengingar. Það
er ekkert vit í stakri taugafrumu, hugsun eða
staðreynd; það eru tengingarnar sem við gerum
og undirliggjandi kortlagning okkar sem gerir
okkur kleift að greina raunveruleikann. Fyrir
þúsundum ára, kannski við logandi varðeld,
hljóta fyrstu sagnamennirnir að hafa uppgötvað
þennan mátt mannshugans, sem fram að því
hafði verið dulinn. Í dag hengjum við okkur á
sögur líkt og heila okkar þyrsti í þær. Þær gera
okkur kleift að koma skipulagi á þekkingu og
láta hana ganga til annarra. Að segja sögur gæti
hæglega verið það sem gerir okkur kleift að vera
með fullri vitund.
Saga er för frá einum punkti til annars þar sem
sett eru í samhengi þær staðreyndir og viðburðir,
sem koma fyrir í henni. Opnaðu uppáhaldsbókina þína á hvaða síðu sem er og lestu
fyrstu setninguna, sem þú sérð. Um leið ert þú kominn með aðgang að allri sögunni.
Þú veist hvað gerðist á undan, hvaða persóna er að tala og hvernig allt mun fara. Heil
tilvera getur falist í einum punkti.
Verið getur að raunveruleikinn sé ekkert nema tengingar. Kannski eru engir atburðir
eða staðir, ekkert rúm eða tími eins og við skiljum þessa hluti. Heimurinn gæti verið
líkur heilmynd (nei, þetta þýðir ekki að við lifum í einhvers konar tölvuhermiveröld), og
skynjun okkar á tíma og rúmi gæti verið hluti af stærri heild, sem við vitum ekki af. Ég
gerði heilmynd í háskóla: rauð ljósnæmu geli á glerplötu. Ég bjó til mynd af litlum vasa
með blómum og dáðist að þrívíddaráhrifunum þegar ég beindi leysigeisla að glerinu
og sneri plötunni minni til að sjá blómin frá ólíkum hliðum. Leiðbeinandinn minn sagði
mér þá að brjóta glerplötuna með hamri. Þegar ég horfði í gegnum lítið, stökkt brot af
upprunalega glerinu gat ég enn séð alla myndina. Hver einasti hluti heilmyndarinnar
felur alla hina í sér.
Þarna kemur hin djúpa náttúra sagnanna fram. Okkar takmörkuðu heilar skynja
undirliggjandi byggingu hreinnar tengingar með sama hætti og við hugsum um alheim,
sem teygir sig út í tíma og rúm.
Ég kýs að sjá fyrir mér að heimurinn sé saga, sem sé til frá upphafi til enda, öll í einu.
Bókin opnaðist á blaðsíðu þar sem augnablikið sem þú upplifir núna er að finna, en
allar hinar síðurnar eru líka til. Alla söguna er að finna í hverjum punkti, jafnvel þeim
örlitla punkti tíma og rúms sem þú ert að lesa þetta. Við erum öll saman í þessari
sögu, þar er rúmið allt og tíminn allur. Reynum að sjá til þess að hún verði góð.
Dr. Michelle Thaller er stjörnufræðingur og vísindaskýrandi. Hún starfar við
Goddard-geimferðamiðstöð bandarísku geimvísindastofnunarinnar, NASA.
Michelle Thaller