Due to maintenance work, there may be disruptions to the Tímarit.is service from 18:00 onwards.

Morgunblaðið - 31.12.2022, Síða 4

Morgunblaðið - 31.12.2022, Síða 4
4 MORGUNBLAÐIÐ TÍMAMÓT 31.12.2022 Morgunblaðið/Óttar Einar Þorsteinsson og Dagur B. Eggertsson greina frá meirihlutamyndun í aldingarðinum og ekki eitt snjókorn á lofti. Morgunblaðið/Hari Meðan allt lék í lyndi hjá hinni pópúlísku verkalýðsforystu landsins. Morgunblaðið/Eggert Bjarni Benediktsson sigri hrósandi eftir formannskjörið á landsfundi. ...og ávallt það kemur til baka Stjórnmálin voru fjörleg á árinu sem er að líða, enda kosningaár og sveitarstjórnarmálin í deiglu. Það var þó fremur í landsmálunum sem tekist var á um ýmis veigamikil viðfangsefni en mjög misjafnt var hvernig gekk úr að ráða. Þau mátti enda mörg rekja til utanaðkomandi aðstæðna og óróa í heimsmálum. ANDRÉS MAGNÚSSON er fulltrúi ritstjóra Morgunblaðsins og fjallar einkum um stjórnmál á síðum blaðsins og í Dagmálum. Árið 2022 reyndist líflegt á stjórnmála- sviðinu, eins og við var að búast á kosninga- ári. Þó má segja að stjórnmálaumræðan hafi mótast mun meira af landsmálunum, jafnvel heimsmálum, en ætla hefði mátt í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga. Þar skipti máli að þingkosningar höfðu farið fram haustið 2021 og ríkisstjórnarsamstarfið ekki formlega endurnýjað fyrr en í lok nóvember. Svo gerðist það undir lok febrúar að sóttvörnum vegna kórónuveitufaraldursins var loks aflétt í landinu, en daginn eftir réðust Rússar inn í Úkraínu. Hvorugt beindi athyglinni að sveit- arstjórnarkosningum í maí. Þó má segja að nokkur upphitun hafi falist í fáránlega síðbúnu prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík, sem Hildur Björnsdóttir sigraði nokkuð afgerandi en þó með innan við helm- ingi atkvæða. Skömmu áður hafði sjónvarps- maðurinn Einar Þorsteinsson verið valinn til þess að leiða lista Framsóknarflokksins í borginni, en úrslitin í alþingiskosningun- um og skoðanakannanir bentu til þess að Framsókn ætti meira erindi í höfuðborginni en dæmi voru um áður. Hins vegar voru skýr merki um að Samfylkingin, undir forystu Dags B. Eggertssonar borgarstjóra, ætti mjög undir högg að sækja. Áður en til kosninga kom þyrluðust þó ýmis mál upp utan sveitarstjórnarmálanna og þar bar tvö hæst. Annars vegar óviðurkvæmileg orð Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokkins, þar sem hann gerði athugasemdir við litaraft framkvæmdastjóra Bændasamtakanna, og hins vegar síðari salan á hlutum ríkisins í Íslandsbanka, sem mörgum þótti hafa gengið öðruvísi fyrir sig en rétt væri og Bjarna Benediktssyni, for- manni Sjálfstæðisflokksins, var af nokkurri ósanngirni legið á hálsi fyrir. Málin voru mjög ólík, en þegar kom að kosningum virtust þau síður en svo hafa áhrif á kjörfylgi Framsókn- ar. Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins hlutu hins vegar dræmari undirtektir en vonir þeirra stóðu til. Í fæstum sveitarfélögum var kosið um stórpólitísk mál, svona að öðru leyti en þessu hefðbundna og almenna um forystu þeirra. Í höfuðborginni örlaði þó á umræðu um fjármál borgarinnar, en Dagur borgarstjóri vísaði allri gagnrýni á bug og sagði fjármálin til algerrar fyrirmyndar. Í Reykjavík fór það þó svo að meirihluti Samfylkingarinnar féll einu sinni enn, en þvert á þær miklu breytingar, sem Ein- ar Þorsteinsson hafði boðað, tók hann að sér að verða varadekk Samfylkingar, svo Dagur hélt borgarstjórastólnum áfram, en Einar á að setjast í hann 2024. Hveitibrauðsdagarnir urðu þó færri en að var stefnt. Fljótlega kom í ljós að fjárhagur borgarinnar var miklu verri en fram hafði komið og margvíslegrar brotalamir komu í ljós á grunnþjónustu borgarinnar, meðal annars þannig að Reykjavíkurborg stóð ráðþrota frammi fyrir snjókomu. Að venju fannst borgarstjóri ekki til þess að svara fyrir það, en Einar og aðrir meðreiðarsveinar og -sveinkur þurftu að verja mál, sem voru tæplega á þeirra ábyrgð. Í heildina vann Framsókn víða góða sigra, ekki síst í þéttbýlinu, þar sem hún hefur sögulega ekki átt víðtæku fylgi að fagna. Utan höfuðborgarinnar gátu sjálfstæðismenn ekki beinlínis kvartað, en þeir töldu sig þó víða hafa átt vonir um meira og kenndu fyrrnefndri bankasölu um, sem hefði verið óvarlega nálægt kosningum. Í því fólst nokkur gagnrýni á fjár- málaráðherra og formann flokksins, þó ekki bæri á henni opinberlega af hálfu flokksmanna. Eftir því sem mál skýrðust um bankasöluna þegar á leið árið reyndust minni efni í gagnrýn- inni en upphaflega hafði verið látið, en skaðinn var samt skeður. Það hefur Guðlaugur Þór Þórðarson um- hverfisráðherra ugglaust tekið með í reikn- inginn þegar hann tók að ráðgera formanns- framboð í Sjálfstæðisflokknum um sumarið. Landsfundur var boðaður í nóvember, sá fyrsti síðan 2018, og lögðu stuðningsmenn Guðlaugs allt í sölurnar við val á landsfundar- fulltrúum, þó framboð hans væri raunar ekki kunngert fyrr en innan við viku frá fundinum. Gríðarleg spenna var á fundinum, sem var ákaflega vel sóttur, en þegar atkvæði voru talin reyndist Bjarni vera með helmingi fleiri atkvæði en Guðlaugur. Í aðdragandanum gekk á ýmsu og eftir því var tekið að Bjarni þakkaði mótframbjóðand- anum ekki fyrir drengilega baráttu. Sagði þó að úrslitin hefðu ekki nein áhrif á stöðu Guðlaugs sem ráðherra að sinni, svo eftirmálin eru eftir. Í bráð eru þær breytingar á ráðherra- liði sjálfstæðismanna einar í kortunum að Jón Gunnarsson eftirlætur Guðrúnu Hafsteins- dóttur dómsmálaráðuneytið í júní, þó ekkert útiloki að þá verði frekari breytingar gerðar. Aftur á móti varð Kristrún Frostadóttir sjálfkjörinn formaður Samfylkingarinnar og Guðmundur Árni Stefánsson varaformaður. Þau boða bæði afturhvarf til grunngilda jafn- aðarmennskunnar og er ekki annað að merkja af skoðanakönnunum en að sú Samfylking falli hinum venjulega kjósanda betur í geð en sú gamla. Þingflokkurinn er hins vegar enn lítill og ekki allur á bandi Kristrúnar. Enn vilja sum- ir leggja alla áherslu á Evrópumálin og ýmsa kreddu aðra, sem halda má fram að gert hafi Samfylkinguna að áhrifalausum smáflokki. Kristrúnar bíður því ærinn starfi, en hún hefur það þó með sér að vera eini stjórnar- andstöðuflokkurinn sem nær einhverju máli. Viðreisn á í nokkurri tilvistarkreppu, Píratar helga sig trúðslátum, Miðflokkurinn réttir tæplega úr sér héðan af og Flokkur fólksins er nokkuð sér á báti. Stjórnmálalífið á komandi ári (og sennilega hin næstu líka) mun því mikið ráðast af því hvernig ríkisstjórnarflokkunum gengur að ráða úr aðsteðjandi vanda og halda friðinn sín á milli. Það er oft grunnt á hinu góða þar og það er augljóst af ýmsum málum á borð við útlendingamál, umhverfis- og orkumál, lög- gæslumál, fjölmiðlamál og jafnvel heilbrigðis- mál að þar skeikar um margt svo miklu, að lítið þokast og gagnkvæm óánægja grefur um sig. Þar mun mikið reyna á forystumennina, en til þessa virðist lausnin sú að halda áfram taumlausri útgjaldaaukningu til þess að friða alla flokka. Það gengur þó ekki að eilífu, allra síst eftir því sem óvissa eykst í efnahagsmálum heimsins og Íslands þar með. Um það fær rík- isstjórnin heldur ekki öllu ráðið, eins og sjá má á kjaramálunum, sem segja má að slegið hafi verið á frest með bráðabirgðasamningum. Þar bæta ófriðareldar í launþegahreyfingu ekki úr skák. Hinir pópúlísku verkalýðsleiðtogar fóru langleiðina með að slátra Alþýðusambandi Ís- lands með misheppnaðri tilraun til valdatöku, en svo kastaðist í kekki, umboð formanns VR í uppnámi og óljóst hvort markmið Eflingar er að ná samningum eða umróti í þjóðfélaginu. Ekki er lengur við heimsfaraldurinn að etja, en að öðru leyti eru viðfangsefni stjórnmál- anna að miklu leyti alls óbreytt í upphafi nýs árs og þess, sem nú er að líða. Nema hvað að efnahagsóvissan er meiri, verðbólgudraugur- inn enn á sveimi, höfuðborgin komin í miklar fjárhagskröggur og hælisleitendabylgjan rís enn. Þar blasa viðfangsefnin við en lausnirnar ekki og hið nýja ár mun vafalaust fela í sér ýmsa nýja ágjöf, sem þjóðarskútan má vart við. Fljótlega kom í ljós að fjárhagurinn var miklu verri en fram hafði komið, brotalamir komu í ljós á grunnþjónustu borgarinnar og Reykja- víkurborg stóð ráðþrota frammi fyrir snjókomu. TÍMAMÓT Í STJÓRNMÁLUNUM VAR ÖLLU SLEGIÐ Á FREST SEM HÆGT VAR OG VIÐ ERUM ENN Á BYRJUNARREIT.

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.