Morgunblaðið - 31.12.2022, Blaðsíða 12
12 MORGUNBLAÐIÐ TÍMAMÓT 31.12.2022
Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Lífsgæði á Íslandi eru með þeim mestu í heiminum. Þau geta þó orðið enn meiri ef við höldum rétt á spilunum.
Lúxushótelið Deplar Farm í Fljótunum var reist fyrir erlent fjármagn og
hefur fært Ísland hátt upp í gæðaflokki fágætisferðaþjónustu.
Vilhelm Þorsteinsson EA er eitt af fjölmörgum glæsilegum skipum
íslenska flotans sem halda áfram að skapa okkur mikil verðmæti.
Verður Ísland best í heimi?
Ísland hefur alla burði til að vera
besta land í heimi þegar horft er
til lífsgæða og hagsældar. Til þess
þarf þó að ryðja ýmsum hindrunum
úr vegi, eða í það minnsta hætta að
smíða þröskulda.
GÍSLI FREYRVALDÓRSSON
er fréttastjóri viðskipta á Morgunblaðinu og um-
sjónarmaður ViðskiptaMoggans.
Ætli Ísland geti orðið besta land í heimi?
Þetta er auðvitað afar einföld spurning, en
hún kom upp þegar ég hélt stutt erindi fyrir
ungt fólk um stjórnmál og viðskipti fyrr á
þessu ári. Það lá í orðanna hljóðan að hér væri
átt við efnisleg gæði, enda höfðu þau verið
umræðuefnið. Ég svaraði eitthvað á þá leið
að vissulega gætum við það, enda værum við
ekki langt frá því. Við mælumst hátt í nær
öllum vísitölum, hvort sem horft er til lífsgæða,
hamingju eða jafnréttis og þannig mætti áfram
telja.
Rétt eins og það hefur aldrei verið betra að
vera uppi í sögunni en í dag hefur aldrei verið
betra að búa á Íslandi. Þökk sé hinu frjálsa
markaðshagkerfi, kapítalismanum, fyrir það.
Þær framfarir sem við höfum fengið að njóta
hér á landi hafa þó ekki orðið til af sjálfu sér.
Það er ekki langt síðan Ísland var einhvers
konar aðeins fínni útgáfa af Austur-Þýska-
landi, kannski án þeirra miklu kúgunar sem
kommúnisminn þar eystra hafði í för með sér.
Við bjuggum þó við takmörkuð tækifæri, ýmiss
konar höft og oft forneskjulega lagaumgjörð. Í
því samhengi er auðvelt að benda á bjórbannið,
sem vissulega var ekki stærsta vandamálið
en er samt – þegar horft er til baka – ákveðin
táknmynd upp á þau tímamót sem þó voru að
eiga sér stað. Til að fá banninu aflétt þurfti til
stjórnmálamenn sem voru tilbúnir til að taka
slaginn í litlu frelsismáli. Sá slagur var á köfl-
um ekkert auðveldur en vannst að lokum.
Þetta litla dæmi minnir okkur á að til að ýta
sumum framförum áfram þarf pólitíska for-
ystu. En þá er líka eins gott að það sé einhver
til staðar til að veita þá forystu. Það þarf líka
pólitíska forystu til að taka þátt í og viðhalda
hinu frjálsa markaðshagkerfi.
Við getum gert enn betur
Við búum sem fyrr segir við mikil lífsgæði.
Við getum þó gert miklu betur og það blasa við
okkur fjölmörg tækifæri til þess. Frjálsa mark-
aðshagkerfið ýtir undir framfarir á mörgum
sviðum, en við erum þó því miður háð því að
stjórnmálamenn þurfa að sýna forystu og ryðja
hindrunum úr vegi.
Það er hægt að taka mörg dæmi um mál
þar sem stjórnmálamenn segja eitt en gera
annað. Við heyrum til dæmis mikið talað um
samkeppnishæfni. Það er ekki til sá stjórn-
málamaður sem ekki vill bæta samkeppnis-
hæfni landsins í aðdraganda kosninga. Þeir eru
þó mun færri sem gera í alvöru eitthvað í því á
þeim vettvangi sem þeir starfa.
Á þetta reyndi meðal annars við söluna á
Mílu fyrr á þessu ári. Salan tók ellefu mánuði
og töfin verður að mestu leyti skrifuð á stjórn-
völd, þá sérstaklega Samkeppniseftirlitið,
sem varð landinu til skammar við afgreiðslu
málsins og olli miklu fjárhagslegu tjóni.
Þó tekist hafi að ljúka málinu stendur það
eftir að hvorki íslenskir né erlendir fjárfestar
geta gengið að því vísu hvernig lagaumhverfið
hér á landi er túlkað, enda er það háð geðþótta
embættismanna og stjórnmálamanna. Það er
ekki fallið til þess að auka samkeppnishæfni
Íslands. Það er þó öllu verra að þeir fáu stjórn-
málamenn sem átta sig á þessu hafa lítið að-
hafst til að einfalda málin og þeir fáu sem hafa
reynt hafa orðið undir í þeirri baráttu.
Hömlur á erlendar fjárfestingar
Það má þó í framhaldi af þessu spyrja sig
hvort erlendar fjárfestingar séu yfir höfuð
velkomnar? Sú ríkisstjórn sem nú situr hefur
markvisst reynt að koma í veg fyrir erlendar
fjárfestingar frá því að hún tók við völdum
árið 2017. Með stuðningi Sjálfstæðisflokks-
ins, sem alla jafna gefur sig út fyrir að vera
hlynntur alþjóðaviðskiptum, hefur Katrín
Jakobsdóttir forsætisráðherra lagt fram og
fengið samþykkt nokkur lagafrumvörp sem
hindra erlenda aðila í að fjárfesta hér á landi,
hvort sem er í jarðarskikum, fasteignum eða
fyrirtækjum. Í samráðsgátt stjórnvalda var
nýlega kynnt enn eitt frumvarpið í þá veru. Um
er að ræða heildarlög þar sem leggja á mat á
það hvort erlendar fjárfestingar „skapi ógn
fyrir þjóðaröryggi eða allsherjarreglu“ eins og
það er orðað. Allar umsagnir sem bárust um
frumvarpið voru neikvæðar í garð þess og það
verður fróðlegt að sjá hvort tillit verður tekið
til þeirra ef og þegar frumvarpið verður lagt
fram á Alþingi.
Það er þó alveg ljóst að þær miklu hindranir
sem ýmist hafa verið settar eða til stendur að
setja á erlendar fjárfestingar eru ekki til þess
fallnar að bæta samkeppnisstöðu Íslands.
Það eru fleiri svona dæmi sem hægt er að
nefna sem skerða samkeppnishæfni okkar.
Okkur tekst reglulega að gera hlutina flókna
og torvelda undir því yfirskyni að við séum
að innleiða EES-reglur. Stjórnmálamenn
tala reglulega um sérstaka og hærri skatta á
ákveðnar greinar, við erum með séríslenskar
reglur í fjármálageiranum og þannig mætti
áfram telja. Það má með sanngjörnum hætti
segja að stærsti þröskuldur framfara sé reistur
af stjórnvöldum.
Tilefni fyrir bjartsýni til lengri tíma
Við skulum þó fara bjartsýn inn í nýtt ár
enda höfum við allt sem við þurfum til þess.
Sem fyrr segir bíða okkar fjölmörg tækifæri
til að gera miklu betur en við erum að gera
í dag og fram undan eru spennandi verkefni
í atvinnulífinu sem vert er að horfa til með
jákvæðum huga. Það má til dæmis horfa til
fyrirtækja á borð við Controlant, Kerecis og
Alvotech sem öll eru líkleg til að skapa gífurleg
verðmæti til framtíðar (og hafa nú þegar gert
að einhverju leyti). Við sáum ferðaþjónustuna
taka hratt við sér eftir heimsfaraldur og til
lengri tíma litið munum við sjá frekari vöxt
þar á bæ. Icelandair og Bláa lónið eru fyrirtæki
sem koma strax upp í hugann en þó ert vert
að nefna að listinn er langur af fyrirtækjum
sem munu viðhalda Íslandi sem áhugaverðum
áfangastað í framtíðinni.
Sjávarútvegurinn mun áfram standa fyrir
sínu og skapa þjóðarbúinu mikil verðmæti.
Samherji, Brim, Ísfélagið og Síldarvinnslan
eru, ásamt fleirum, dæmi um fyrirtæki sem
hafa vaxið og dafnað undir því sem segja má
að sé besta fiskveiðistjórnarkerfi heims. Af
greininni hafa orðið til önnur mögnuð fyrirtæki
á borð við Marel, Völku, Skagann 3X auk þess
sem ráðgert er að fara í stórtæka uppbyggingu
á fiskeldi á landi.
Við búum sömuleiðis að öflugum fjármála-
fyrirtækjum, framúrskarandi fyrirtækjum á
sviði hugbúnaðargerðar og síðast en ekki síst
mikilli þekkingu og reynslu í orkuiðnaði. Þessi
listi er ekki tæmandi og enn eru ónefnd öll litlu
og meðalstóru fyrirtækin sem halda hjólum
atvinnulífsins gangandi og leggja grunn að því
að Ísland geti svo sannarlega orðið besta land í
heimi hvað varðar lífsgæði og hagsæld.
Þangað ættu stjórnmálamennirnir að stefna.
Rétt eins og það hefur aldrei verið betra að
vera uppi í sögunni en í dag hefur aldrei ver-
ið betra að búa á Íslandi.Þökk sé hinu
frjálsa markaðshagkerfi, kapítalismanum, fyrir það.
TÍMAMÓT EKKI ER HÆGT AÐ GANGA AÐ ÞVÍ VÍSU HVERNIG LAGAUMHVERFI HÉR ER TÚLKAÐ,
ENDA ER ÞAÐ HÁÐ GEÐÞÓTTA EMBÆTTISMANNA OG STJÓRNMÁLAMANNA.