Morgunblaðið - 31.12.2022, Blaðsíða 24
24 MORGUNBLAÐIÐ TÍMAMÓT 31.12.2022
TÍMAMÓT HVER ER STAÐA ÍSLENSKUNNAR?
Á að sameina en ekki sundra
Að nýloknu jólabókaflóði dettur okkur ekki annað
í hug en að íslensk tunga standi sterkt. Á hverju
ári kemur út ótrúlegur fjöldi bóka sem ber kröftugu
bókmenntastarfi og nýsköpun tungunnar vitni, og
nýjar öflugar raddir koma úr hópi innflytjenda. Árleg
könnun Miðstöðvar í íslenskum bókmenntum sýnir
að þjóðin les/hlustar að meðaltali á 2,4 bækur á
mánuði, en sá hópur sem aldrei les bók stækkar
hins vegar. Um 65% landsmanna lesa eingöngu
eða oftar á íslensku en öðru tungumáli, en þau sem
eru 34 ára og yngri lesa oftar en þau sem eldri eru á
öðru tungumáli en íslensku.
Öll þessi frjóa bókmenntastarfsemi styrkir
stöðu íslenskunnar, en um leið vitum við að þar
með er ekki öll sagan sögð. Enskan tekur sér æ
stærra rými í mál- og hljóðheimi þeirra sem yngri eru og fullorðinna líka, og því blasir
við að aðgengi að efni á íslensku verður að vera enn fjölbreyttara og ríkulegra, annars
leita þau eðlilega í þær gríðarstóru efnisveitur sem eru á öðrum tungumálum. Áramóta-
heitið ætti að vera að spara í engu stuðning við framleiðslu á efni fyrir yngra fólk á
íslensku, hljóðbækur eða rafbækur, en ekki síður margvíslegt sjónvarps-, kvikmynda-
og leikjaefni.
Spár eru um að Íslendingum fjölgi um 100.000 þúsund á næstu fimmtíu árum og að sú
fjölgun verði einkum í hópi innflytjenda. Færni í tungumálinu er mikilvæg forsenda þess
að þeir verði strax fullgildir þátttakendur í samfélaginu. Það verður ekki aðeins gert með
því að auðvelda aðgengi að kennslu í íslensku sem öðru máli og setja meira fé í þann
málaflokk, sem er nauðsynlegt, heldur verðum við sem tölum málið að styðja þá sem læra
íslenskuna, tala við þau og hvetja áfram – og muna að við sjálf tölum ekki aðrar tungur
fullkomlega eða hreimlaust. Tungumálið á að sameina en ekki sundra, þannig sköpum við
heilsteypt samfélag.
Sumir segja að það taki því ekki að spyrna við fótum því að enskan muni ríkja ein í þeim
alþjóðlega stafræna heimi sem við hrærumst í alla daga og hún leysi allan vanda. En þá
horfum við framhjá styrk allra móðurmála og ást okkar á þeim, en ekki síður að gerlegt
er að styðja við íslenskuna í þessum nýja tækniheimi með markvissri þróun íslenskrar
máltækni og gervigreindar. Heimurinn þarf á fjölbreyttum sögum, margvíslegri reynslu og
sjónarhornum á heiminn að halda og íslenskan mun dafna, eins og önnur tungumál, ef
við færum henni þau tól sem hún þarfnast. Í samhengi hlutanna kostar ekki mikið að veita
þann stuðning – en margfalt dýrara að gera það ekki.
Guðrún Nordal, forstöðumaður Árnastofnunar
Við erum fáránlega góð
Staða íslenskrar tungu er sú að allir innlendir
höfundar skrifa á íslensku og í hóp þeirra bætast
ört skáld af öðrum uppruna. Við eigum ljóðlist
sem leyfir slíkan liðsauka. Við eigum líka unga
höfunda sem gera sér grein fyrir ævintýrinu sem fá-
mennistunga er, svo sem Jónas Reyni Gunnarsson
sem fagnar þeim sem helga sig skrifum á máli ‚sem
er nánast ekki til‘ og Maríu Elísabetu Bragadóttur
sem kveðst skrifa ‚á leynitungumáli‘.
Stöðu íslenskrar tungu má líka taka erlendis; þús-
undir barna alast upp á heimilum þar sem íslenska
er töluð af öðru eða báðum foreldrum og gleymist
furðu oft að telja með.
Staða íslenskrar tungu er tæknileg áskorun, mál-
tæknin er ótrúleg og frábær. Himneskar hersveitir þýðenda mega samt ekki gleymast því
gervigreind ein gæti flatt oss út.
Staða íslenskrar tungu er bág við margt afgreiðsluborðið, eins og neytendur
þreytast ekki á barma sér yfir. Ég eyddi haustinu í Svíþjóð og þar var ég ævinlega
afgreidd á sænsku. Sú sænska var með margvíslegum hreim en alltaf sænska sem
sameinaði.
Tungumál er manninum kannski meðfætt, kannski lært, en það er furðu fullkomið kerfi,
viðkvæmt, sterkt og ótrúlega sveigjanlegt. Krafturinn býr í því að sérhvert mál getur þróast
án þess að farast. Fyrst eigendur ensku hafa verið uggandi yfir meintri hnignun hennar í
fleiri hundruð ár hlýtur okkur, hinum fáu, að fyrirgefast stundleg óró. Einn daginn eru það
slettur, annan daginn latmæli – og jesús pétur, hvað með viðtengingarháttinn?! Aðhald er
gott, en aldrei verður synt algjörlega á móti straumnum því allir sem tala málið eru eigend-
ur þess.
Fámenni kallar á aukna vakt; kennslu, styrk og auðvitað lestur, sem gefur aðgang að
gríðarlegum forða íslenskunnar og tengir okkur við það sem hingað til hefur verið hugsað.
Mál er aldrei á safni, það er ekki lifandi nema það sé notað og ekki verðmætt nema það sé
lifandi.
Staða íslensku, eins og annarra mála, er að hún lagar sig að þörfum einstaklinga og
að hreyfingum á stórum skala. Tungan er til fyrir okkur og við ráðum hvort hún gerir
okkur gagn. Kannski verðum við einn daginn formlega margtyngt þjóðfélag, kannski
erum við þegar hætt að vera eintyngd, en íslenskan hefur hingað til náð að aðlagast,
og lýsa, stórkostlegum samfélagsbreytingum. Því er engin ástæða til að vantreysta
henni núna.
Það fyndnasta er að öll skoðanaskipti um málið fara fram á málinu sjálfu og á meðan við
tölum um allt í lífinu, þ.m.t. málið, með glænýjum og þúsund ára gömlum orðum í sömu
andrá, erum við, eins og eigendur framtíðar segja, bara fáránlega góð.
Sigurbjörg Þrastardóttir rithöfundur
Kjarni þjóðmenningar okkar
Íslensk tunga er ekki einungis tæki til tjáskipta.
Hún er sjálfur kjarni þjóðmenningar okkar og
samsömunar. Íslendingar státa ekki af glæsilegum
mannvirkjum frá miðöldum, höggmyndum, mál-
verkum, tónsmíðum eða dönsum. Við eigum hins
vegar stórkostlegan menningararf lifandi tungu og
bókmennta. Þannig er íslenskan síkvikt listaverk í
krafti gegnsæis, orðsifja og sköpunarmáttar.
Staða íslenskrar tungu er í senn sterk og veik. Hún
er sterk að því leyti að laga sig sífellt að krefjandi
viðfangsefnum og nýrri tækni, þar á meðal staf-
rænni, með öflugri nýyrðasmíð ásamt blómlegu
bókmenntalífi. Styrkur íslenskunnar felst ekki síður í
fjölda þeirra sem láta sér annt um málið sitt og þá er
ótalin breiðfylking Almannaróms.
Íslensk tunga er veik að því leyti að lesskilningur unglinga, sérstaklega drengja, er slakur.
Einnig á málkennd mjög undir högg að sækja, ekki síst í fjölmiðlum, þar sem lögmál
tungunnar eru gjarnan virt að vettugi. Vísast átta sumir okkar ágætu fræðimanna sig ekki á
því hve miklu atfylgi þeirra getur skipt með glöggum viðmiðum og ábendingum um rétt mál
eða æskilegt. Það er letjandi og ruglandi fyrir þá sem vilja tala gott mál, og ekki síður þá
sem eru að læra íslensku frá grunni, að hafa ekki skýr leiðarljós.
Í riti sínu, Skynsamleg orð og skætingur sem út kom 1985, fjallar höfuðsnillingurinn Helgi
Hálfdánarson um þetta álitamál á gamansömum nótum: „Mér hefur virzt sú skoðun nokkuð
almenn, að sú deild háskólans, sem kennd er við íslenzk fræði, sé helst til lík þeirri lækna-
stétt, sem fengist við það eitt að safna gögnum um heilsufar landsmanna fyrr og síðar,
greina sjúkdóma og skrá tíðni dauðsfalla af völdum þeirra á ýmsum tímum, ekki í því skyni
að ráða niðurlögum neinnar veiki, heldur af hreinvísindalegum áhuga einum saman; enda
væri sjúkdómur, sem maður hefur á annað borð tekið, orðinn hið rétta eðli þess manns
upp frá því; fylgzt væri vandlega með stöku sjúklingi, ekki til að reyna að lækna hann, held-
ur til að skrá líðan hans dag frá degi á skýrslur og líta á klukkuna þegar hann deyr.” Þessu
glensi Helga fylgir auðvitað hvatning til dáða.
Það er fyrst og fremst íslensk alþýða sem hefur varðveitt málið okkar alla tíð og
skynjað samfellu þess við fornan málarf þjóðarinnar. Þannig vorum við nokkrir krakkar
svo lánsamir að fá að fara í sveit þar sem okkur var gert ljóst að jafnmiklu skipti að
virða lögmál íslenskrar tungu og að standa vel að verki. Lagt var að jöfnu að fara rétt
með fleygar setningar úr fornsögum eða ljóð Jónasar og að fara rétt að hrossi. Mál-
rækt og jarðrækt áttu góða samleið, okkur krökkunum var hrósað fyrir gagnyrt tungu-
tak og við vorum hvött til að lesa bækur samtímahöfunda, kvenna og karla. Virðing
þessara mætu bænda fyrir hinni einstöku perlu, íslenskunni, var ungu fólki ómetanlegt
veganesti. Megi svo lengi verða.
Jón Þorvaldsson ráðgjafi
Afstaðan mætti vera skárri
Staða íslenskrar tungu er í eðli sínu góð. Hvað
getur hún beðið um meira: Lofsungin þjóðtunga
með rætur sem nærast á fornum heimsbókmennt-
um og hefur síðan vaxið og blómstrað í ljóðum og
sögum og daglegri lífsbaráttu í aldanna rás. Og
nóg er enn skrifað og ort og skáldað og skapað á
íslensku. Kannski aldrei meira en nú. Nægir ekki
að nefna öll þau ágætu skáldverk og fræðirit sem
út hafa komið að undanförnu? Fórnarlembing
tungunnar sé okkur því fjarri.
Staða, eða öllu heldur afstaða okkar sem tölum
og brúkum þessa einstöku tungu mætti hins vegar
vera skárri. Við þurfum að standa betur með henni,
gera hana markvisst gildandi í öllum umdæmum
tækniheima, setja hana í fyrsta sæti alstaðar þar
sem texti sést á almannafæri. Sýna metnað. Taka ekki á móti allra þjóða ferðamönnum í
Leifsstöð með skiltum sem segja þeim að hér sé íslenska undirsáti enskunnar. Ekki man
ég hversu oft og lengi því hefur verið lofað að færa þá hörmung til betri vegar, samt gerist
það aldrei.
Baráttan hefur sjaldan verið mikilvægari en einmitt nú þegar ljóst er að mikill fjöldi fólks
sem talar önnur mál hefur sest hér að og mun setjast að til frambúðar. Lykilatriði er og
verður að stórefla á alla lund íslenskukennslu fyrir útlendinga. Annars mun nýtt mál taka
sér varanlegan sess sem annað opinbert eða hálfopinbert mál, nefnilega vanefnaenskan,
svo notað sé orð úr smiðju Ríkarðs Arnar Pálssonar heitins sem sjálfur kom hingað til
lands sem hálfgerður útlendingur á unglingsárum. Þannig hefur „enskumælandi ráð“ sam-
kvæmt fréttum þegar tekið til starfa í að minnsta kosti einu sveitarfélagi á Íslandi. Eflaust
vel meint og til þess ætlað að veita útlendingum aðgang að stjórnsýslu og pólitík en um
leið viss uppgjöf. Merki um það sem verða kann ef við stöndum okkur ekki. Endar loks inni
á Alþingi þar sem vanefnaenska yrði fullgilt mál til jafns við íslensku.
Íslendingar eru sem betur fer löngu hættir að setja það fyrir sig þó sumir tali íslensku
með hreim og beygi orðin frjálslega. Allt skilst það samt. Við berum öll mikla virðingu fyrir
því aðkomufólki sem vill læra málið. Reynsluheimur þess er nú þegar farinn að birtast
okkur í ljóða- og sagnagerð á íslensku. Það er mikilvæg viðbót við íslenskar bókmenntir og
á eftir að frjóvga þær og efla á marga lund.
Við eigum ekki hika við að gera kröfur um íslenskukunnáttu en vitaskuld jafnframt að
auðvelda fólki á alla lund að uppfylla þær kröfur. Og aldrei að hlusta á þá landa okkar sem
telja það flokkast undir þjóðrembu að halda fram hlut íslenskunnar.
Þórarinn Eldjárn rithöfundur