Rökkur : nýr flokkur - 01.06.1980, Síða 27
25
því góða, sem jarðneskt líf hefir að oss rétt, og vekur minningar,
margs konar minningar, bros á barns vörum, lóukvak á vori,
hnegg í haga, leitandi vinar eða fagnandi og ótal aðrar, sem koma
eins og ósýnilegar loftbylgjur og hræra strengi sálarinnar, og eru
uppbót fyrir aðrar, sem voru þungar sem gnauð hafsins eða kald-
ur hríðarsúgur á Þorra.
Minnzt góðra og glaðra liðinna daga
Á kyrrum stundum ævinnar, hafa vaknað á ný minningar frá
þessum liðnu dögum, sem urðu tilefni umhugsana um það, hve
gott það er, að hafa átt þær stundir, að hafa unað við lítinn heim
en fagran, fyrst í bernsku og svo síðar, á miðri ævi á stuttu skeiði.
Ég minnist þá hinna mörgu góðu stunda í litla eldhúsinu í kjallara
gamla hússins í Þverholtum með kolakynntu eldavélinni. Glugg-
arnir vissu gegn suðri og gluggakisturnar aðeins handarlengd
ofar túninu, og oft opinn á sumrin sá glugginn, sem hægt var
að opna, og þá ekki ótítt Gráni minn, að þú kæmir í heimsókn,
í von um, að þér yrði hyglað einhverju matarkynns, og urðu
konur þá að hafa snör handtök oftlega, því að þér var ekki gefin
biðlund, og áttir það til að teygja höfuð og háls inn yfir borðið, loka
glugganum í snarheitum, og færa þér út á tún gamla þvottafatið,
sem safnað var í matarúrgangi handa þér. En undir niðri þótti
okkur öllum gaman að þessum heimsóknum þínum, en tækifærin
til þeirra gáfust þér, er þú varst í notkun á túni um sláttinn Og
í þetta litla eldhús komu margir og þar var mikið rabbað og oft
glatt á hjalla. „Ja, nú er hlegið í Þverholtum", sagði Ingi á
bakka einu sinni. 1 þessari eldhúskytru varð það mér eitt sinn
umhugsunarefni, er ég sat þar og horfði á börnin teiga volga
mjólkina, úr könnum sínum, er ég sjálfur var barn í sveit, og
hafði vakað yfir túninu og kannan mín fleytifull af ærmjólk beið
mín, og hugur minn varð gagntekinn sömu tilfinningum og þá,
gagntekinn gleði yfir góðum kynnum við menn og málleysingja,
yfir að vera þar sem ég var, í heimi sem var lítill en fagur, gagn-
tekinn trausti, og gleði yfir lífinu, með tilhlökkun í brjósti til
næstu stundar, til næsta dags. Og enn kom það fram í hugann,
á valdi minninganna, að þetta hugarfar mitt. þá kunni að hafa