Rökkur : nýr flokkur - 01.06.1980, Page 29
27
Krókur á móti bragði
Þeir sögðu mér það fyrir sunnan, er ég keypti þig, að þú kynnir
að reynast mér erfiður, því að „þér héldu engar girðingar", og
að vísu satt, þvi að ef sá gáilinn var á þér varð sú reyndin á. Þú
gazt átt það til, að ganga rólegur á girðingu með slútandi höfuð
og stinga höfði og hálsi milli strengja, fundvís á veilur, slaka
víra, losaralega girðingarstólpa, kippa þannig upp heilum kafla,
unz allt hrisstist af þér, og varð þá stundum eftir slitur úr tagli
eða faxi. Þetta var í gróandanum fyrsta vorið, og eitthvað varð
til bragðs að taka, og mér flaug í hug, að freista hvort ekki væri
ráð, sem dygði að hafa þig í tjóðri í kafloðnum þúfnakraganum
í túnjaðrinum, og til nokkurrar furðu reyndist það vel, þvi að
er ég sleppti þér undir kvöld, undir þú vel í holtunum tíðast, þá
hefir verið tilbreyting í döggvotu holtagrasinu og holtakyrrðin
um lágnættið heillaði meira en túnkraginn. Og svo var dyttað að
gömlu girðingunni. En þú lést koma krók á móti bragði, er frá
leið, rétt fyrir sláttinn. Það var ekki að sökum að spyrja, að þú
varst kominn inn á mitt tún á hverjum morgni. Og ekki voru
sjáanleg nein spjöll á girðingunni. Og minn ályktunarhæfileiki
var ekki meiri en það, að ég taldi þig hafa tekið undir þig stökk
og hent þér yfir hana, en það hafði ég eitt sinn séð þig gera leik-
andi létt, er stóðhópur kom æðandi heim melinn, og þú á svip-
stundu friðlaus að komast í atið. En ég gat ekki heldur fundið
þess merki, að þannig lægi í þessu, og tók ég nú í mig að hafa and-
vara á mér, og morgun einn snemma, er vottaði fyrir rauðum
bjarma rísandi sólar yfir Eiríksjökli, vaknaði ég og reis á fætur.
íig stóð um stund á tröppunum austan megin á húsinu og horfði á
morgundýrðina, — og þig liggjandi og blundandi undir stekkjar-
veggsbrotinu. Og allt í einu kom hreyfing á þig. Þú reistir háls
og höfuð, reistir þig upp á framfæturna, letilega, og svo eldsnöggt
á alla fjóra fætur. Og svo lagðirðu af stað, letilega, hægara en ég
hafði fyrr séð þig ganga. Ekki er nú asinn á honum, hugsaði ég,
né líklegur til þess að taka undir sig stökk. Þess þurftirðu heldur
ekki. Þú hafðir haft þína áætlun tilbúna, er þú tókst upp á þessu.