Rökkur : nýr flokkur - 01.06.1980, Qupperneq 31
29
holtum og haga, yfir tjörninni og stekknum og bænum, og svo
vítt sem sæi til fjalla og jökla í austri og vestri. Um kvöldið yrð-
irðu enn í tjóðri undir miðnæturbilið og skafa döggvott grasið
af hverjum þúfnakollinum af öðrum, óþjáður af öllu og allra síst
af lystarleysi, enda sílspikaður jafnan.
Mjólkurbíllinn var aðeins ókominn, er vestur yfir ána kom.
Ég átti þarna nokkra kolapoka, sem mjólkurbílstjórinn hafði kom-
ið með kvöldinu áður. Ég spretti frá svo að þú gætir kroppað
þarna smástund og fór að koma pokunum fyrir á kerrunni. Þegar
bíllinn var kominn stigu tveir eða þrír farþegar út, en í stýrishús-
inu var rúm fyrir 4—5 farþega, en brúsar og annar flutningur á
palli aftan þess. Var þetta í upphafi „jeppa-aldar“ og engir komnir
á þessar slóðir.
Farþegunum varð starsýnt á þig, og einn þeirra, aldraður síð-
skeggur, púaði í rauða skeggið sitt og tautaði:
„Hver á þennan hest?“
„O, það er nú ég,“ svaraði ég og færði mig nær. Hann hafði
víst ekki komið auga á mig.
„Ha? Þú? Og hvar fékkstu klárinn?“
„Ég keypti hann fyrir sunnan“.
„Já, aldeilis. Stríðalinn, sterklegur, duglegur að draga?“
„Það geturðu bókað,“ sagði ég upp á reykvísku, drjúgur yfir
hesteigninni.
„Já, ekki að tvíla, ekki að tvíla, — og líklega skap í fantinum“.
Hann hálf hreytti þessu úr sér, eins og honum þætti til heyra,
að láta fantsorðið fylgja lofinu, og var mér skemmt.
Bílstjórinn, sem hafði fengið mætur á þér, Gráni minn, er við
fluttum þig úr Nesinu vestur að vaðinu, hjálpaði mér, að setja
þig fyrir kerruna.
Einhver farþeganna hafði á orði, að kerran væri nær fullhlaðin,
og hesturinn drægi þetta ekki nema á sléttum vegi, við horfðum
kankvíslega hvor á annan, ég og bílstjórinn, en höfðum engin
orð um.
Þeir þekktu þig ekki hinir, Gráni minn. Ég vissi, að ég mundi
ekki ofbjóða kröftum þínum, en var við búinn að kippa af pokum,
er að haftinu kom, ef þyrfti. Og sterkleg voru átök þín, bæði í
ánni og upp dálítinn bratta hinum megin, og furðu léttstígur varstu