Rökkur : nýr flokkur - 01.06.1980, Page 33
31
einhver loftalda hrærði við skyndilega, svo að hún hljómaði af
fjarlægum, annarlegum boðskap. Og ég steinsofnaði, eins fast og
lúinn maður getur sofið, og er ég vaknaði var heiður himinn,
sólin var hratt hækkandi yfir jökulbungunni í norðaustri, og hin
græna skikkja var sem alsett skínandi demöntum.
Vegagerð. Frumstæð tæki
Frumstæð voru tækin, er hafist var handa um að gera kerru-
fært að melnum. Ég hafði fært það í tal við forráðamenn í hreppn-
um, að tekið væri til þar sem frá var horfið fyrr á árum, og
þeir tóku því vel blessaðir karlarnir, að leggja fram nokkur hundr-
uð krónur, ef ég legði sem svaraði einum þriðja á móti, og mundi
þetta þá mjakast áfram og markinu náð innan langs tíma. Og svo
komu þeir, bóndinn á Bakka, og tveir þrír aðrir, með kerrur
sínar og vagnhesta, haka og skóflur. Geta var lítil, en vilji og
þörf knúðu á. Hálfnað er verk þá hafið er, hugsaði ég, og dagar
stærra átaks vonandi framundan, og í löngum einangraðri sveit
voru að byrja að heyrast úr fjarska drunur, sem boðuðu komu
vélaaldar og ræktunar. Innan tíðar myndu þær heyrast á bæj-
unum úr nálægð, er skurðgröfur, ýtur og önnur stórvirk tæki
yrðu tekin í notkun, æ víðar. Og ég átti von í jeppa en það gat
tekið tveggja til þriggja ára áróður og baráttu, að verða þeirrar
náðar aðnjótandi, að fá leyfi til slíkra kaupa.
Árla morguns fyrsta daginn „í veginum11 sá ég, að Ingi bóndi
var á leiðinni, ríðandi og fór greitt og var það ekki löng stund,
sem leið áður en ég heyrði, að gengið var um dyrnar að norðan-
verðu og niður, en ég hafði brugðið mér í eldhús, og vissi ég að
Ingi myndi þangað leggja leið sína, sæi hann mig ekki úti við.
„Tylltu þér niður, Ingi“, sagði kona mín við Inga, er hann hafði
kastað á okkur kveðju, hress og kátur að vanda. „Ég er að hella
upp á könnuna“.
„Það bólar ekki á hinum?“, sagði Ingi í spumartón.
„Ætli þeir þarna vestan árinnar komi ekki beint í veginn“,
sagði Munda, „ætli þeir hafi ekki drukkið morgunsopann heima
hjá sér, og komi beint í veginn. Drekkið þið nú sopann, ekki látið
þið standa á ykkur“.