Rökkur : nýr flokkur - 01.06.1980, Blaðsíða 40
38
„Dóri fór niður í hrepp í gær til þess að heimsækja kunningja,
trúi ég, og hlýtur að fara að koma þá og þegar. Þú gætir riðið
á móti honum, hafirðu tíma til“.
Og svo kvaddi ég heiðurshjónin gömlu og þannig atvikaðist,
að ég mætti piltinum skammt frá vaðinu, og var hann með þann
stjörnótta í taumi. Ég kom á bak honum og leizt vel á hann og
gekk þetta fljótlega fyrir sig, og ekkert til fyrirstöðu, að ég fengi
folann.
„Pabbi þinn talaði um 700 krónur —
„Jú, þú getur fengið folann fyrir það“.
„Það er fyrirtak", sagði ég ánægður.
„Taktu þá við taumunum", sagði Dóri, „og farðu sæll“.
„Vertu sæll“, svaraði ég harðánægður og tók við taumnum og
skildu svo leiðir, og ég reið sem leið liggur yfir Álftá og heim að
bæjardyrum á Álftárbakka, og stóð þar Ingi bóndi fyrir dyrum
úti glaðklakkalegur að vanda:
„Nú, hvaða voði, ég sá til þín flengríðandi með hest í taumi!“
„Já“, sagði ég í líkum dúr, enda allglaður, „ég mætti manni
þarna vestur á vegi og keypti af honum þennan fola. Mig vantar
snatthest“.
„Jú, aldeilis, og svo gæðing —'“.
„Hver veit, en hvað bíður síns tíma. — Nú fær Gráni minn
félaga“.
„Þú kemur inn og drekkur kaffi, ekkert bakkelsi, en kannske
tár til að bæta bragðið að kaffinu — og smá vindilstúf".
Og svo gengum við í bæinn og röbbuðum saman góða stund.
Og svo þegar ég fór að sýna á mér fararsnið, sagði Ingi eitthvað
á þá leið, að það væri svo sem velkomið, að ég sæti á þeim gráa
heim, þrátt fyrir nýja reiðskjótann, nema ég væri í því skapi að
ríða á þeim stjörnótta í hlað í Þverholtum.
„Þú hefir það eins og þú vilt, þú sleppir bara þeim gráa ef þú
riður honum, hann skilar sér, og geri hann það ekki veit ég hvar
ég get gengið að honum“.
Það varð nú úr, að ég reið folanum heim, og fór vel á með
okkur, en eilítið var hann hvumpinn, er farið var yfir ræsin á
veginum.
Það var farið að kvölda og enginn úti við á mannfáum bænum,