Bændablaðið - 04.04.2023, Blaðsíða 38
38 Bændablaðið | Þriðjudagur 4. apríl 2023
Árið 1947 var fyrsti vinningur í
happdrætti SÍBS fjögurra manna
flugbátur af gerðinni Republic
Sea-Bee, sem gat lent á landi og
vatni. Ung systkini úr Reykjavík
áttu vinningsmiðann og gerðust
eigendur flugvélar, tveggja
mánaða og fjögurra ára gömul.
Upphaf þessa máls má rekja
til þess er Samband íslenskra
berklasjúklinga (SÍBS) efndi til
mikils happdrættis til að standa
undir kostnaði við byggingu
Vinnuheimilisins að Reykjalundi í
lok árs 1945. Í fyrstu verðlaun var
áðurnefnd flugvél ásamt flugnámi,
en einnig var hægt að vinna
skemmtibát, jeppa, málverk eftir
Kjarval, ferðalög, golfáhöld o.fl.
Í Morgunblaðinu 15. janúar 1946
birtist grein þar sem blaðamaður
lýsir hinum „fljúgandi fiskibáti“
og studdist við umsagnir í
bandarískum flugvélatímaritum,
enda var flugvélin ekki komin til
landsins:
„Vjelin lætur betur að stjórn
en flestar eða allar sem nú eru
fáanlegar. Skrokkurinn gerður
með það fyrir augum að fara sem
best í sjó. Getur því að fullu gagni
gegnt hlutverki skemmtihraðbáts á
vötnum og kyrrum sjó. Lyfta má þaki
af stefninu fyrir framan klefann, þá
vjelin er sest á veiðivatnið, þar er
rúm fyrir veiðimenn.
– Þeir munu þá varpa drekanum
fyrir borð og taka til við stangarveiði
með áhuga miklum og gleðskap, en
frúin framreiðir inni í prúðbúnum
klefanum. – Þetta líka indæla nesti.
(Ó, hvílík sæla að lifa á 20. öldinni
miðri og eiga flugbát S.Í.B.S.)“
Kom á óseldan miða
Útdrátturinn átti upphaflega að fara
fram 1. febrúar 1946, en frestaðist
til 15. þess mánaðar. Níu ára gömul
stúlka, Guðný Sigurjónsdóttir, dró
númerin hjá borgarfógeta með bundið
fyrir augun. Flugvélin kom upp á
númer 121.477, en í lok mánaðarins
kom í ljós að það númer var óselt.
Stjórn SÍBS sendi frá sér tilkynningu
þess efnis að leitað yrði heimildar
um að mega tölusetja merki sín á
næsta Berklavarnardegi og nota þau
sem happdrættismiða svo
hægt væri að draga um
flugvélina að nýju, enda
var hún „aðalkeppikeflið“.
6. október 1946 hófst sala
merkjanna og var sölunni
haldið áfram alveg að
útdrættinum.
Í auglýsingu í Þjóð-
viljanum 6. október
segir: „S.Í.B.S.-flugvélin
er fjögra manna láðs- og
lagðarvél. Fullkomnasta
einkaflugvél , sem
smíðuð er í Ameríku.
Fyrir milligöngu Thors
Thors sendiherra hefur
loks tekizt að fá vélina
afgreidda og mun hún fara
í skip í N.Y. um miðjan
nóv [...]. Á Þorláksmessu
næstkomandi verður
dregið um vélina og
eingöngu dregið úr
seldum merkjum. Sam-
tímis verður hún til sýnis
á velli og í lofti.“
Erfitt að fá til landsins
Heimildir benda til
þess að brösuglega hafi gengið
að fá flugvélina til landsins. Í
Þjóðviljanum 29. desember 1946
segir að:
„Vegna misskilnings og lítt
skiljanlegra mistaka, varð flugvél
SÍBS eftir í New York er leiguskip
Eimskipafélagsins fór þaðan,
áleiðis til Reykjavíkur, í byrjun
þessa mánaðar [...]. Ákveðið
hafði verið að draga um vélina
á Þorláksmessu, en nú verður
S.Í.B.S., til að fullnægja lögum,
að fresta drættinum, þar til vélin
er hingað komin [...]. Vonandi eru
nú allir erfiðleikar S.Í.B.S. vegna
þessarar flugvélar úr sögunni og
að þessi ágæti gripur eigi eftir
að ryðja brautina til flugferða
almennings í eigin vélum, hér
á landi.“
Hún kom svo loksins til landsins
í byrjun árs 1947. Í Þjóðviljanum 29.
janúar 1947 segir: „Flugvél þessi, sem
aðeins er nýkomin hingað til lands,
er hin vandaðasta og fallegasta.
Fór íslenzkur flugmaður út til að
kynna sér byggingu slíkra flugvéla
sem þessarar og hefur hann séð um
samansetningu hennar hér. Flugvél
þessa fékk sambandið fyrir milligöngu
h.f. Flugvirkinn, en það félag hefur
umboð fyrir þessar flugvélar. Gekk
mjög illa að fá hana, vegna þess að
fjöldaframleiðsla á þessari tegund
véla er ekki hafin vestra, en fyrir ötula
framgöngu forstjóra h.f. Flugvirkinn,
Björns Jónssonar, og góða aðstoð
sendiráðsins í Washington, gekk það
samt vonum fremur.
- Framhald á næstu opnu
LÍF&STARF
Rúlluplastið
sem bændur treysta
Sláturfélag Suðurlands
Fosshálsi 1, Reykjavík - 575 6070
buvorur@ss.is - www.buvorur.is
Rúlluplast 2023
Saga vélar:
Ung börn eignuðust flugvél
– Happdrættisvinningur sem átti stuttan en viðburðaríkan feril
Ástvaldur Lárusson
astvaldur@bondi.is
Björn Björgvinsson, fjögurra ára eigandi flugvélar, árið 1947. Vélin var seld til Flugfélagsins Vængja þar sem hún var notuð í leiguflug og áætlunarflug á
Akranes og fleiri minni kauptún. Hún sökk í Þingvallavatni og var bjargað, en lenti síðar í bruna og endaði sem vinnuskúr. Mynd / Úr einkasafni
Björn og Guðbjörg systir hans unnu flugvélina
í happdrætti SÍBS. Mynd / Úr einkasafni
Lítill flugmaður klár í flugferð yfir Reykjavík í
febrúar 1947. Mynd / Úr einkasafni