Bændablaðið - 19.10.2023, Síða 46
46 Bændablaðið | Fimmtudagur 19. október 2023
SKÓGRÆKT
Heitið sitkabastarður þykir ekki
öllum hljóma vel enda hefur
orðið bastarður fengið heldur
neikvæða merkingu í málinu.
Stundum hefur þessi blendingur
sitkagrenis og hvítgrenis verið
kallaður hvítsitkagreni en það
hefur ekki fest í máli fólks. Við
tökum því jákvæða pólinn í hæðina
og einblínum á merkinguna
blendingur eða kynblendingur sem
er auðvitað sú upphaflega.
Grenitegundir blandast gjarnan
á mörkum útbreiðslusvæða sinna.
Á norðanverðri vesturströnd
Norður-Ameríku liggja saman
útbreiðslusvæði sitkagrenis og
hvítgrenis og skarast raunar líka
við heimkynni blágrenis. Þetta
eru svæði við strendur Bresku-
Kólumbíu og Alaska. Þarna er
uppruni sitkabastarðsins sem
komið hefur í ljós að hefur ákveðna
kosti umfram hreint sitkagreni á
frostlendum svæðum hérlendis og
sýnir jafnframt betri vöxt en hreint
hvítgreni. Sitkagreni er aðlagað
hafrænu loftslagi en hvítgreni er
innlandstegund í heimkynnum
sínum vestra.
Munurinn á þessum tveimur
tegundum er í stórum dráttum sá
að sitkagreni er stórvaxnari tegund,
almennt grænleitari og með lengri
og grófari nálar en hvítgreni.
Sitkagreni getur hæst orðið yfir
hundrað metra hátt. Hvítgreni
verður yfirleitt ekki hærra en um
40 metrar og hefur mjóslegnari
krónu, styttri nálar og ljósara eða
bláleitara yfirbragð. Blendingurinn
getur verið mjög mismunandi að
útliti. Skógur með sitkabastarði
er því nokkuð óreglulegri yfir
að líta en sitkagreniskógur eða
hvítgreniskógur, bæði vegna
vaxtarlagsins og fjölbreytni
einstaklinganna. Blendingarnir
geta verið allt frá því að vera
nánast hreint hvítgreni yfir í nánast
hreint sitkagreni. Sitkabastarður er
á milli tegundanna í vaxtarhraða
og endanlegri stærð og sýnir ekki
blendingsþrótt.
Fyrir utan örfá kvæmi sem bárust
snemma til landsins er nánast
allt það sem kallað er sitkagreni
og hér hefur verið ræktað í
raun meira eða minna blandað
hvítgreni, m.ö.o. sitkabastarður.
Að því leyti líkist sitkabastarður
birkinu, sem er allt meira eða
minna blandað fjalldrapa.
Sitkabastarður er stórt tré og
hefur náð 30 metra hæð hérlendis.
Engin ástæða er til að ætla að hann
nái ekki 50 m hæð eða meira í
fyllingu tímans. Eins og grenitrjáa
er háttur vill hann vera einstofna
og beinvaxinn. Eins og sitkagreni
vex sitkabastarður hægt til að byrja
með en það fer áreiðanlega mikið
eftir aðstæðum og næringarástandi
jarðvegs, áburðargjöf og því
hversu snemma svepprótarsmit
berst ungviðinu.
Með tímanum herðir á
vextinum og trén fara að vaxa hratt
og halda því áfram lengi.
Tegundin hentar vel til
ræktunar um allt land en velja
verður henni rétt svæði og skilyrði.
Sitkabastarður hefur meira
frostþol að hausti en sitkagreni
og er því betra val þar sem hætta
er á frostum áður en trén hafa búið
sig undir veturinn. Því ætti að
forðast að gróðursetja sitkagreni
í frostpolla.
Sömuleiðis eru rýrir lyngmóar
óheppilegir tegundinni. Hins
vegar hefur sitkabastarður gott
vind- og saltþol. Á sæmilega
frjósömum svæðum í öllum
landshlutum kemur hann því
til greina í skógrækt, ekki síst
neðarlega í hlíðum þar sem er
góður jarðvegsraki.
Til skamms tíma var gengið út
frá því að á Norðurlandi skyldi
einkum ræktaður sitkabastarður
en hreint sitkagreni á Suðurlandi.
Komið hefur í ljós að slík
þumalputtaregla á ekki endilega
vel við. Mikil hætta getur verið
á frostum síðsumars eða snemma
hausts á Suðurlandi þegar vindur
stendur af norðri, himinn verður
heiður og útgeislun mikil á
nóttunni. Á slíkum svæðum væri
sitkabastarður vænlegri til
árangurs en sitkagreni. Eins getur
verið skynsamlegra að velja hreint
sitkagreni á bestu stöðunum
norðanlands þar sem vænta
má mikils vaxtar og góðrar
timburuppskeru. Valið ætti því
að fara meira eftir aðstæðum á
hverjum stað í öllum landshlutum.
Sitkabastarður gefur hágæða-
timbur ekki síður en hreint sitka-
greni, léttan og góðan smíðavið
sem jafnframt hefur mikinn styrk.
Helsti skaðvaldurinn sem á hann
herjar hérlendis er sitkalús en svo
virðist sem minna beri á faröldrum
þeirrar tegundar síðustu árin, ef
til vill vegna þess að óvinum
lúsarinnar hefur fjölgað, til dæmis
með útbreiðslu glókolls á landinu,
minnsta fugls Evrópu.
Alllengi hafa Íslendingar verið
sjálfum sér nógir um grenifræ til
plöntuframleiðslu. Lengi vel kom
mest af fræinu af nokkuð hreinum
sitkagrenitrjám á Tumastöðum.
Árið 2022 var mjög gott
fræár og þá var áherslan lögð á
að ná miklu fræi af sitkabastarði
af ýmsum kvæmum. Það tókst
vel og nú eru umtalsverðar fræ-
birgðir til af vel spírandi fræi.
Framtíð sitkabastarðs er því björt.
Pétur Halldórsson.
Sitkabastarður
(Picea x lutzii)
Fjölbreytileiki sitkabastarðs sést vel á þessari mynd af trjábelti sem
gróðursett var 1963. Myndir / Pétur Halldórsson.
Ungsprotar á sitkabastarði á vori.
Brumhlífarnar hanga enn á hliðar-
brumunum.
Nautgripir þurfa
gott legusvæði
Nautgripir hafa náttúrulega þörf
til að liggja og þumalfingursreglan
er að nautgripir eigi að liggja að
minnsta kosti hálfan daginn.
Með lengri legutíma fylgja meðal
annars betri möguleikar á því að
nautgripirnir jórtri í ró og næði,
séu með hreinni klaufir og betra
heilbrigði á klaufum. Kýr með eigið
legusvæði eru einnig með meira
blóðflæði í júgri og því með aukna
mjólkurframleiðslu.
Eftirfarandi grein er þýdd og
endursögð eftir norska dýralækninn
Åse Margrethe Sogstad, en greinin
birtist fyrst í Buskap 5/2022.
Geta allir gripir legið
þægilega samtímis?
Í Noregi er sérstakt kerfi sem kallast
DVP (DyreVelferdsProgram) en það
er eins konar dýravelferðaráætlun
sem nautgripabú gangast undir.
Þá kemur dýralæknir í heimsókn
á viðkomandi bú og fer yfir ýmiss
konar þætti er lúta að velferð
dýranna og gefur búinu einkunn.
Matið fer fram sem blanda af viðtali
við bónda og athugun á gripum og
aðstöðu. Ein af spurningunum sem
farið er yfir er hvort gripirnir geti
legið þægilega og allir á sama tíma.
Þá er jafnframt litið til hreinleika
gripa, hvort þeir eru með einhver
lítil sár, hárlausa bletti o.s.frv.
Við þetta mat er m.a. litið til
aðgengilegs legusvæðis gripanna og
þar fá hefðbundin básafjós jákvæða
einkunn, þar sem kýrnar hafa í
rauninni sinn eigin aðgengilega
hvíldarstað, svo framarlega sem
básaskiljur séu til staðar. Á móti
kemur skortur á hreyfingu svo
dæmi sé tekið. Í lausagöngu er
þessu aftur á móti öðruvísi háttað.
Þar geta komið upp tilfelli þar sem
legusvæðið er mögulega ekki alltaf
ákjósanlegt.
Á móti kemur að gripir í
legubásafjósum geta þá valið sér
svæði og mögulega komið sér fyrir
á haganlegum stað, sé tækifærið
til staðar. Básar geta þó verið afar
misgóðir og oft sjást gripir sem
standa í básum lengur en góðu hófi
gegnir og er það vísbending um að
legusvæðið sé ekki nógu gott enda
eru nautgripir í raun latir að eðlisfari
og kjósa gjarnan að leggjast sé þess
nokkur kostur.
Gripir sem standa hálfir upp
í básana gefa einnig til kynna að
legusvæðið sé með einhverjum hætti
óheppilegt. Að jafnaði ættu að vera
fáir gripir sem eru ekki að „gera
neitt“ þ.e. hvorki að éta, drekka né
liggja, nú eða í mjöltum. Frávik frá
þessu geta verið merki um of knappt
aðgengi að góðum svæðum s.s. skert
aðgengi að fóðurgangi, of lítið fóður,
skortur á aðgengi að vatni, of þétt á
gripunum eða óheppileg legusvæði.
Kýr eiga að hafa aðgengi að
mjúku legusvæði
Í norskri reglugerð um aðbúnað
nautgripa segir, svipað og í þeirri
íslensku, að kýr skuli að lágmarki
hafa aðgengi að þægilegu, þurru,
hreinu og trekklausu legusvæði.
Þetta á einnig við um fengnar kvígur
sem eiga minna en tvo mánuði eftir
af meðgöngutímanum. Legurýmið
þarf að hanna þannig að gripurinn
geti staðið, legið og lagst niður og
staðið upp á eðlilegan hátt. Þá þarf
legusvæðið að vera nægilega langt
og breitt þannig að gripirnir geti
legið þar eðlilega.
Hnjáprófið
Það er mikilvægt að allir gripir
geti legið samtímis og á legusvæði
sem uppfyllir reglugerðir. Mjúkt
undirlag getur verið mottur, dýnur
eða að lágmarki 5–6 cm þykkt
lag af undirburði segir í norskum
leiðbeiningum. Steinsteypa er ekki
þægileg til að liggja eða ganga á
og því er mælt með því að eitthvað
mýkra sé til að hvíla sig á, jafnvel
þótt reglugerð kunni mögulega ekki
að krefjast þess. Til þess að meta
hvíldarsvæðið er mælt með því að
falla niður á hnén á legusvæðinu,
þetta kallast hnjáprófið. Ef það er
óþægilegt, fyrir þann sem prófar
hnjáprófið, er það vísbending um
það að yfirborðið sé óþægilegt að
liggja á. Einnig er mikilvægt að vera
meðvitaður um að ef göngusvæðið
virðist meira aðlaðandi fyrir gripina
að liggja á en þar til gert legusvæði
þá er klárlega eitthvað að. Það ætti
því alltaf fyrst að tryggja mýkt
legusvæðis áður en eitthvað er gert
til þess að gera gangsvæðin mýkri.
Lengri legutími – meiri mjólk
Legutíminn í mismunandi fjósum
getur verið breytilegur og oftast
frá 9 til 14 klukkustunda, allt
eftir þægindum legusvæðisins. Í
norskum fjósum getur þetta haft
áhrif á mjólkurframleiðslu hverrar
kýr sem nemur +/- 5 lítrum mjólkur
á dag. Almennt séð gildir það að
því mýkra sem legusvæðið er, því
betra. Í Noregi er reynslan sú að
minnstu þægindin felast í því að
liggja á steypu, þar á eftir koma
gamlar, þunnar og samanþjappaðar
gúmmímottur, þá kurlmottur, svo
marglaga mottur, dýnur, vatnsdýnur
og að síðustu ýmsar útgáfur af
þykkum undirburði s.s. hálmdýnu
svo dæmi sé tekið. Hálmdýna er
klárlega mjúk að liggja á en eigi hún
að vera góð sem legusvæði þarf að
viðhalda henni reglulega. Ríkulegt
magn af undirburði á hverjum degi er
alltaf gagnlegt, óháð þeirri gerð sem
legusvæðið er. Skemmt undirlag,
blautt eða óhreint gerir legusvæðið
óaðlaðandi og getur meðal annars
aukið hættu á særindum gripanna,
júgurbólgu, lakari mjólkurgæðum
og óhreinindum gripa.
Lágmarkskröfur um rými í stíum
Allir gripir eiga að geta legið
samtímis í hópstíum og segir
nánar um lágmarksstærð á stíum í
reglugerð. Athygli skal vakin á því
að í reglugerðum er kveðið á um
lágmarksmál en ekki nauðsynlega
ráðlögð mál og því er mælt með því
að ganga lengra, þegar rýmisþörf er
reiknuð, en reglugerð kveður á um.
Þá er mælt með því í dag að skilja
að legusvæði annars vegar og annað
svæði innan stíu og gildir þetta
einnig um geldneytastíur. Þannig
ætti að vera með gúmmí eða þar til
gert plast ofan á steyptum rimlum
þar sem ætlast er til að gripirnir
hvílist.
Hitaeinangrandi gólf fyrir kálfa
Samkvæmt hinni norsku reglugerð
eiga smákálfar að fá aðgengi að
aðstöðu sem gefur þeim tækifæri
til að leggjast niður, liggja, standa
upp og sinna náttúrulegri þörf sinni
fyrir umhirðu. Legusvæðið á að
vera þurrt og laust við dragsúg,
mjúkt en þétt og með gólfi sem
einangrar mögulegan kulda neðan
frá. Þá er óheimilt að hafa kálfa á
rimlum. Þarlendir bændur, sem eru
með rimla eða ristar í eldri stíum
smákálfa, mega leysa málið með því
að setja gegndræpar mottur í stíurnar
eða þekja með þykkum undirburði.
Þá ráðleggja Norðmenn, sé
þess nokkur kostur, að hýsa saman
smákálfa frá eins til tveggja vikna
aldri og gjarnan strax frá fyrsta degi,
nema sjúkdómaástand valdi því að
Ungnautin liggja gjarnan þétt frekar en að þurfa að liggja á steinsteypu. Mynd / Erik Raddum.
Á FAGLEGUM NÓTUM
Snorri Sigurðsson
snorri.sigurdsson@outlook.com