Ársrit Torfhildar - 01.04.1987, Blaðsíða 39
skilning sem tekur mið af heildarsamhengi verka, það er hugmynda-
heimi og veruleika þeirra sjálfra. Hver sem fjallar um bókmenntir
frá sjónarhóli siðferðis hlýtur að hafa þetta tvennt að leiðarljósi;
leggja verkin sjálf til grundvallar og láta ekki eigin hugmyndir
blinda sig.
Þegar meta á Hómerskviður er þessi hætta vissulega fyrir hendi
þar sem ýmsar athafnir söguhetjanna eru í hróplegri andstöðu
við þær siðgæðishugmyndir sem eru hvað fyrirferðarmestar í okkar
menningu: Kristnina með kærleiksboðskap sínum og miskunnsemi,
almennar mannúðar- og jafnréttishugmyndir sem iðulega eru raktar
til upplýsingastefnu 18. aldar svo og þann friðarboðskap sem á
rót sína í hvoru tveggja og eðlilegan hljómgrunn áatómöld. Þessar
andstæður koma skýrt fram hjá Hómer við þær aðstæður þar sem
menn biðja sér griða en er synjað.
í sjötta þætti Ilíonskviðu reynir Adrestus að múta Menelási
til að þyrma lífi sínu og hrærir hann þannig til meðaumkvunar.
Adrestus er hins vegar svo ólánsamur að Agamemnon ber að í
þeim svifum og hastar á Menelás bróður sinn:
Nei, engi þeirra skal undan komast bráðum bana eða sleppa úr
vorum höndum. Ekki einu sinni ungbarnið í móðurkviði skal
undan komast, heldur skulu allir jafnt drepnir verða, þeir er
í Ilíonsborg eru, liggja ógrafnir, og engi vita, hvað af þeim
er orðið. (II.: 1 1 6)
Menelási snýst hugur við þessi orð, hrindir Adrestusi frá sér en
Agamemnon konungur leggur hann spjóti í nárann.
í tíunda þætti fara höfðingjarnir Odysseifur og Díómedes í
frækna njósnaför og handtaka Dólon nokkurn Evmedesson. Þeir
lofa honum óbeint lífgjöf ef hann veiti þeim upplýsingar um félaga
sína og í trausti þess greinir Dólon satt og rétt frá öllu. Hann
hefur ekki fyrr sleppt síðasta orðinu en Díómedes heggur af honum
höfuðið að launum. Þeir Odysseifur kóróna síðan för sína með því
að drepa þrettán sofandi Trójumenn og ræna hestum þeirra.
Akkilles verður uppvís að álíka framkomu í tuttugusta sem og
tuttugusta og fyrsta þætti þar sem hann synjar þeim Trós
Alastorssyni og Lýkáoni Príamssyni um lífgjöf.
37