Ársrit Torfhildar - 01.04.1987, Page 79
Annað eftirlætisljóðskáld mitt er Stefán Hörður Grímsson og
eftir hann vel ég Hliðina á sléttunni, sennilega af því að ég hef
lesið hana oftast. Stefán segir það sem ekki er hægt að segja í
ljóðum sínum, sýnir þverstæðurnar í tilfinningum manna og
upplifunum, þetta sem sefur í djúpinu.
Mörg skáld gæti ég nefnt í viðbót, Jónas Hallgrímsson, Vilborgu
Dagbjartsdóttur, Þorstein frá Hamri, Ingibjörgu Haraldsdóttur,
Gyröi Elíasson... En ég nefni Hendur og orð eftir Sigfús Daðason.
Hann situr svo fast á tilfinningum sínum að maður fær verki
fyrir brjóstið af að lesa ljóöin hans, en þau eru yndisleg.
Dostojevskí situr ekki á neinu. Fyrsta bókin sem ég las eftir
hann á íslensku var Glæpur og refsing í þýðingu Ingibjargar
Haraldsdóttur og mér fannst hún hreinlega breyta lífi mínu. Það
er þó ekki söguhetjan, glæpur hennar eða hugmyndir verksins
sem höfðu mestu áhrifin heldur hið hamslausa, iðandi líf sem lifað
er á síðum bókarinnar.
Ég stæri mig af að hafa lesið „allar" íslenskar barnabækur og
erfitt er að gera upp á milli Stefáns Jónssonar, Ragnheiðar Jóns-
dóttur og Guðrúnar Helgadóttur. En ég vel Stefán. Þríleikurinn
um Ásgeir Hanssen var seinasta verkið sem hann skrifaði og það
besta að mínu mati, og áhrifamesta bókin af þeim þrem sú í miðið,
Sumar í Sóltúni. Söguhetjur Stefáns eru margbrotnar og Ásgeir
er einhver mest sjarmerandi persóna hans: fallegur, greindur
strákur en erfiður sjálfum sér og sínum nánustu meðan hann er
að átta sig á hverjum hann á að sýna trúnað.
Eins og sést á framansögðu er ég veik fyrir bókum sem hrista
upp í mér, verða lífsreynsla. Tvær síðustu bækurnar eru nýleg
dæmi. Sú fyrri er Undir kalstjörnu eftir Sigurð A. Magnússon.
Um leið og sú bók segir átakanlega sögu af fólki sem lifir á
jaðri samfélagsins sýnir hún hvað börn geta þolað og lifað þó af,
komist til manns. Kannski þola þau allt ef undirstaðan er góð
— kærleikur foreldris í frumbernsku.
Hin bókin og sú síðasta er Þel eftir Álfrúnu Gunnlaugsdóttur,
stillt og agað verk sem á hógværan hátt segir frá ægilegum
hlutum. Það er karl sent söguna segir, en hún hverfist um tvær
konur. Eins og oft vill verða eru karlmenn gerendur en konur
þolendur í verkinu, en það eru þó þær sem rísa upp úr, þær
77
L