Bændablaðið - 13.06.2024, Side 16
16 Fréttir Bændablaðið | Fimmtudagur 13. júní 2024
Kristín Linda og Inga Geirs
ÆVINTÝRI Á SPÁNI OKTÓBER 2024
UPPBYGGJANDI OG SKEMMTILEG KVENNAFERÐ
Kristín Linda sálfræðingur
hjá Huglind og Inga Geirs
fararstjóri hjá Skotgöngu
verða með sína vinsælu
sjálfsræktar, útivistar,
göngu og skemmtiferð
til Albír á Spáni
18. október í haust.
Bókanir hafnar,
beint flug, gott hótel
og hálft fæði.
SJÁLFSRÆKT
OG GANGA
Vikuferð fyrir konur 40 ára og eldri, uppskrift
sem hefur algjörlega sannað sig enda þétt og gefandi dagskrá.
Inga sér um fararstjórn, skoðunarferðir og gönguferðir og Kristín
Linda heldur sín vinsælu uppbyggjandi lífsgæðanámskeið,
bæði hagnýt og skemmtileg. Vikuferð sem hlotið hefur frábær
meðmæli. Stakar konur sérstaklega velkomnar en líka kjörið
fyrir vinkonur.
Meira en 300 konur hafa nú þegar nýtt sér þessa dagskrá
og margar komið aftur og aftur, það segir sína sögu!
Samkennd, gleði, upplifanir, uppbygging og ný kynni,
vilt þú koma með?
NÁNARI UPPLÝSINGAR OG BÓKANIR: www.skotganga.co.uk
inga@skotganga.co.uk - kristinlinda@huglind.is
Tabea Elisabeth Schneider hlaut
verðlaun fyrir besta árangur á
B.S. prófi þegar 72 nemendur
brautskráðust frá Landbúnaðar-
háskóla Íslands við hátíðlega
athöfn í Hjálmakletti í Borgarnesi
þann 31. maí.
Nemendur voru þar að klára
starfsmenntanám, háskólabrautir
og framhaldsnám. Tabea Elisabeth
útskrifaðist úr landslagsarkitektúr
með einkunnina 8,97 en hún hlaut
einnig verðlaun fyrir besta árangur
fyrir BS-lokaverkefni ásamt
Magnúsi Guðbergi Jónssyni Núpan.
Í lokaverkefni sínu vann Tabea
hönnunarleiðbeiningar tengdar
frjókornaofnæmi í borgarlandslagi.
Viðfangsefni Magnúsar var
býflugnarækt í borgarumhverfi.
Lára Guðnadóttir hlaut verðlaun
Bændasamtaka Íslands fyrir besta
árangur á búfræðiprófi. Hún hlaut
einnig verðlaun Búnaðarsamtaka
Vesturlands fyrir frábæran árangur
í hagfræðigreinum. Sunna Lind
Sigurjónsdóttir er handhafi
verðlauna RML fyrir frábæran
árangur í búfjárræktargreinum en
hún var einnig verðlaunuð fyrir
árangur í námsdvöl. Vésteinn
Valgarðsson hlaut verðlaun, gefin
af Líflandi, fyrir frábæran árangur
í bútæknigreinum. Í heild voru 22
nýir búfræðingar útskrifaðir ásamt
tveimur garðyrkjufræðingum, að
því er fram kemur í tilkynningu frá
LbhÍ. Skólinn brautskráði nemendur
af fimm BS-brautum. Eydís Ósk
Jóhannesdóttir og Marta Stefánsdóttir
hlutu verðlaun Bændasamtaka
Íslands fyrir góðan árangur á
búvísindabraut. Steindóra Ólöf
Haraldsdóttir fékk verðlaun fyrir
árangur í hestafræðum og Anna Björg
Sigfúsdóttir fyrir góðan árangur í
náttúru- og umhverfisfræðum. Narfi
Hjartason hlaut svo verðlaun fyrir
góðan árangur á BS-prófi í skógfræði.
Sautján nemendur útskrifuðust
með meistarapróf. Díana
Berglind Valbergsdóttir og Valdís
Vilmarsdóttir hlutu verðlaun
fyrir góðan árangur á MS-prófi í
skipulagsfræðum. Franklin Harris
fékk verðlaun fyrir frábæran árangur
í námi á umhverfisbreytingum
á norðurslóðum og Kári Freyr
Lefever fyrir frábæran árangur í
rannsóknamiðuðu meistaranámi.
Þá lauk Maria Wilke doktorsprófi í
skipulagsfræði á árinu að því er fram
kemur í tilkynningu LbhÍ. /ghp
Nýútskrifaðir nemendur Landbúnaðarháskóla Íslands en 72 nemendur brautskráðust við hátíðlega athöfn í Hjálmkletti
í Borgarnesi þann 31. maí síðastliðinn. Mynd / LbhÍ
Verðlaunuðu góðan árangur
Stjórnvöld hafa gefið grænt ljós
á hvalveiðar. Veiða má allt að 128
langreyðar. Leyfið gildir til eins árs.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir
matvælaráðherra birti sl. þriðjudag
þá ákvörðun sína að gefa út leyfi til
hvalveiða.
Hvalveiðileyfið er gefið út til
eins árs og má samkvæmt því veiða
128 langreyðar á þeim tíma. Verður
leyfilegt veiðimagn 99 dýr á svæðinu
Grænland/Vestur-Ísland og 29 dýr
á svæðinu Austur-Ísland/Færeyjar.
Ákvörðun um veiðimagn er
innan marka ráðgjafar Hafrann-
sóknastofnunar frá 2017 og „tekur
mið af varfærnum vistkerfisstuðlum
Alþjóðahvalveiðiráðsins,“ segir á
vef Stjórnarráðsins.
Stefnumótun fram haldið
Bjarkey hefur verið átalin fyrir að
tefja málið en hafnar að slík hafi verið
raunin. „Ég get ekki horfið frá því að
fara eftir lögum,“ sagði Bjarkey þegar
hún tilkynnti ákvörðun sína um að
leyfa hvalveiðar. Stefnumótun um
veiðar á hvölum verði haldið áfram.
Ákvörðunin nú samræmist þó ekki
hennar persónulegu skoðun.
Reglugerð um veiðarnar er óbreytt
frá í fyrra eftir að hafa verið þrengd af
þáverandi matvælaráðherra, Svandísi
Svavarsdóttur.
Matvælastofnun hefur bent á að
þrengja ætti skilyrði vegna hvalveiða
enn frekar og mun það vera til
skoðunar hjá matvælaráðuneytinu.
NAMMCO má fylgjast með
Svandís leyfði hvalveiðar á ný,
undir hertum skilyrðum, í ágúst á
síðasta ári eftir að hafa bannað þær í
sumarbyrjun til 1. september sama
ár. Ákvörðun hennar um tímabundna
stöðvun veiðanna byggði m.a. á
skýrslu fagráðs um velferð dýra. Að
mati ráðsins voru hvalveiðar ekki í
samræmi við lög um velferð dýra.
Skv. leyfisbréfi um veiðarnar
er nú skilyrt að eftirlitsaðilum
á vegum Norður-Atlantshafssjávar-
spendýraráðsins, NAMMCO, verði
heimilt að fara í veiðiferðir með
hvalbátum Hvals hf. til að fylgjast
með veiðum og veiðiaðferðum.
Jafnframt skuli hver hvalveiðibátur
hafa tilbúna neyðaráætlun um aflífun
dýra og áhöfn þekkja hana.
Hörð viðbrögð
Kristján Loftsson framkvæmda-
stjóri Hvals hf. hefur sagt útséð
um að hvalveiðar verði stundaðar
í sumar vegna tafa á ákvörðun um
veiðileyfi. Hvalur óskaði eftir endur-
nýjun leyfisins snemma á árinu og
að það gilti til nokkurra ára.
Eftir að matvælaráðherra hafði
heimilað veiðar sagði Vilhjálmur
Birgisson, formaður Starfsgreina-
sambands Íslands, einnig óttast að
leyfið kæmi of seint og mögulega
yrði enginn hvalur veiddur á þessu
ári. Hann vonaði að fólk sem hefði
beðið átekta væri búið að finna sér
eitthvað annað að gera.
Í tilkynningu frá Samtökum
fyrirtækja í sjávarútvegi er leyfi
matvælaráðherra sagt veitt til
málamynda og ráðherra sé með
ákvörðuninni í reynd með
ólögmætum hætti að leggja áfram-
haldandi stein í götu sjálfbærra veiða
á langreyðum.
Stjórn Dýraverndarsambands
Íslands harmar í tilkynningu þá
ákvörðun matvælaráðherra að
leyfa veiðarnar. Ítrekuð sé sú
krafa sambandsins að úrelt lög um
hvalveiðar verði afnumin eða þeim
breytt til nútímahorfs. /sá
Leyft að veiða allt
að 128 langreyðar
– Matvælaráðherra segir að fara verði að lögum
Matvælaráðherra hefur nú leyft hvalveiðar til eins árs og má veiða allt að
128 langreyðar. Mynd / PWF-UK
Ný reglugerð frá Evrópusam-
bandinu hefur verið innleidd á
Íslandi um áburðarvörur. Megin-
markmið reglugerðarinnar er að
bæta nýtingu plöntunæringar-
efna með því að viðhalda hringrás
þeirra.
Að sögn Valgeirs Bjarnasonar,
fagsviðsstjóra áburðarmála hjá
Matvælastofnun, tekur reglugerðin
til næringarefna fyrir plöntur,
sveppi og þörunga, sömuleiðis
efna sem eru umhverfis rætur og
sveppþræði, sem hjálpa til við
upptöku og nýtingu næringarefna.
Nær einnig yfir næringarefni
sveppa og þörunga
Valgeir segir að reglugerðin skil-
greini „áburðarvörur“ sem efni,
blöndu, örvera eða annað efni sem
er borið á eða ætlað til að bera á
plöntur eða rótarhvolf þeirra eða
á sveppi eða jarðveginn umhverfis
sveppina (e. mycosphere). Eða er
ætlað til að mynda rótarhvolfið eða
jarðveginn umhverfis sveppina,
annaðhvort ein og sér eða
blönduð með öðru efni, í þeim
tilgangi að veita plöntum eða
sveppum næringu eða bæta
næringarnýtni þeirra.
Með þessu er komin ný nálgun
fyrir þennan vöruflokk. Það séu
ekki bara plöntunæringarefni
sem reglugerðin nær yfir, heldur
einnig yfir næringarefni sveppa
og þörunga. Hún nái einnig yfir öll
þau efni sem auka næringarnýtni
plantna eða bæta vaxtarskilyrði
þeirra með margvíslegum hætti.
Reglugerðin nær því yfir víðtækara
svið en fyrri reglugerðir.
Áburður skilgreinist sem svo
að hann er fyrst og fremst notaður
sem næring fyrir plöntur.
Hámarksgildi óæskilegra efna
Með nýju reglugerðinni er gerð
krafa um að áburðarvörur skuli vera
CE-merktar þegar þær fara á
Evrópumarkað. Það þýðir að þær
þurfa að fara í samræmismat hjá
viðurkenndum samræmismats-
stofum, sem hafa fengið viður-
kenningu frá viðkomandi yfir-
völdum og verið settar á skrá hjá
ESB og fengið skráningarnúmer.
Áburðarvörum skal fylgja sam-
ræmismatsyfirlýsing á markaði
frá samræmismatsstofu og skal
sú yfirlýsing fylgja vörunni,
þannig að lokanotendur geti kynnt
sér hana. Þó má markaðssetja
áburðarvörur innanlands án þessara
viðurkenninga og eru þær þá
eingöngu notaðar á heimamarkaði
Slíkar vörur þurfa að öðru leyti að
standast sambærilegar kröfur og
CE-merktar vörur.
Valgeir segir að vikmörk
næringarefna séu víðari en í fyrri
reglugerð og verða bæði jákvæð
og neikvæð, en voru áður aðeins
neikvæð. Þá séu reglur settar
um hámarksgildi óæskilegra
efna, en áður hafi það aðeins
verið kadmíum sem var með
hámarksgildi en nú bætast níu
önnur við auk sjúkdómsvaldandi
baktería eins og salmonella. /smh
Áburðarvörur:
Víðtækari reglugerð
innleidd frá ESB
Valgeir Bjarnason.