Bændablaðið - 13.06.2024, Side 12

Bændablaðið - 13.06.2024, Side 12
12 Fréttir Bændablaðið | Fimmtudagur 13. júní 2024 Garðyrkja: Halla færir út kvíarnar Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjuframleiðandi og eigandi garðyrkjustöðvanna á Hverabakka og Melum hjá Flúðum, sagði nýlega skilið við Sölufélag garðyrkjumanna. Vörum hennar er nú dreift og þær seldar undir merkjum nýs vörumerkis, Sólskins grænmetis. Þrjú ár eru síðan Halla Sif tók við rekstri Gróðurs á Hverabakka, þar sem undirstaða reksturs er framleiðsla sólskinstómata og útiræktun grænmetis. Fyrir tæpu ári síðan festi Halla Sif, ásamt viðskiptafélaga sínum Torfa G. Yngvasyni, kaup á garðyrkjustöðinni Melum, þar steinsnar frá, en henni fylgdi m.a. Litla bændabúðin á Flúðum. Á stöðvunum tveimur er framleitt mikið magn af grænmeti; tómatar, gúrkur, paprikur, blómkál, spergilkál, sellerí og kúrbítur svo eitthvað sé nefnt en Halla giskar á að hlutfall smátómataframleiðslu fyrirtækisins sé rúmlega þrjátíu prósent af íslenska markaðnum. Sá ekki framtíð í Sölufélaginu Eins og margir garðyrkjubændur nýtti Halla sér þjónustu Sölufélags garðyrkjumanna sem tekur að sér pökkun, dreifingu og kynningarstarf á íslensku grænmeti. Eigendur garðyrkjustöðvanna tveggja, sem Halla keypti, eiga enn hver sinn tíu prósenta eignarhlut í Sölufélaginu sem fylgdu ekki kaupunum. Halla átti því aðeins lágmarkshlut en var tiltölulega stór innleggjandi. Eftir að hafa legið yfir rekstrargreiningum varð hún sannfærð um að breytt dreifingarkerfi væri rétt leið til að byggja fyrirtæki sitt upp á réttan hátt á næstu árum. „Þegar þú ert með mjög skuldsettan rekstur þarftu að rýna í hverja einustu krónu. Við vorum að greiða Sölufélaginu fyrir flutning, alla þjónustu auk söluþóknunar. Eftir yfirlegu sáum við að það yrði hagkvæmara fyrir okkur að gera þetta sjálf, að reyna frekar að mynda sem mest eigið fé inni í rekstrinum með þessum hætti. Ég sá því miður ekki fram á að ég myndi á næstu árum geta lagt út peninga til að kaupa hlut í sölufélaginu sem væri í réttu hlutfalli við það sem ég er að leggja inn.“ Skrefið var tekið nú í vor þegar vörumerkið Sólskins fór að birtast í grænmetishillum matvöruverslana. Kostnaðarsamt í upphafi Þessari breytingu fylgdi þó mikill kostnaður. Fjárfesta þurfti í flutningabíl, tækjabúnaði og fjölnota kössum ásamt þeirri vinnu sem felst í þróun, hönnun og markaðssetningu á nýju vörumerki. En þrátt fyrir þungan róður til að byrja með er skrefið tekið með langtímamarkmið í huga. „Við erum að hugsa þetta til næstu tíu ára og við sjáum fram á að reksturinn verði í mjög góðum málum og hagkvæmari að hluta út af þessari breytingu.“ Halla segir einnig gott að geta borið ábyrgð á sinni eigin vöru frá upphafi til enda. „Sumir hafa engan áhuga á þessum hluta ferilsins en við höfum reynslu af markaðs- og sölumálum og því var þetta verkefni sem við veigruðum okkur ekki við að taka til okkar sjálf þó allt ferlið síðustu mánuði sé búið að taka rækilega á.“ Hagkvæmni og sjálfbærni Einnig fylgja breytingunni ákveðin samlegðaráhrif, bæði í framleiðslu beggja garðyrkjustöðva og í mann- auði. Ráðnir voru bæði dreifingar- og rekstrarstjóri sem einnig sinna störfum sem áður var aðkeypt. „Við bárum náttúrlega sjálf litla ábyrgð á því hvað gerðist þegar vörurnar fóru út úr pökkunarhúsinu. En nú hefur opnast nýr heimur með alls konar nýjum áskorunum,“ segir Halla. Vörumerki fyrirtækisins hefur fengið nafnið Sólskins grænmeti og vísar það í hina rótgrónu sólskinstómata sem Hverabakki er þekktur fyrir. „Upprunalega yrki þeirra smátómata er ´sunstream´og þaðan kemur íslenska nafnið til að byrja með. Okkur hefur alltaf þótt vænt um þetta nafn og það kom eiginlega ekkert annað til greina en að fylgja því eftir.“ Því má finna í búðum Sólskins gúrkur og í sumar munu svo bætast við Sólskins sellerí, blómkál, spergilkál og ýmislegt fleira. „Við erum að prófa okkur áfram með tegundir í tómötum og smágúrkum ásamt eggaldinum og paprikum.“ Halla segir það skipta sig máli að hafa sem fæsta milliliði milli frumframleiðslunnar og neytandans. „Framleiðslan er dýr og því er mikilvægt að reyna að gera þetta á eins hagkvæmasta hátt og mögulegt er. Það er einnig ákveðin sjálfbærni fólgin í því að fylgja vörunni eftir allt frá framleiðslu til neytanda.“ Langtímamarkmið Höllu er að koma upp stærri vinnsluaðstöðu þar sem hægt væri að vinna uppskeruna og geyma lengur til að lengja sölutímabil afurðanna og bjóða upp á breiðara vöruúrval. /ghp Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir á og rekur tvær garðyrkjustöðvar hjá Flúðum, Hverabakka og Mela. Þar er framleitt mikið magn af grænmeti; tómatar, gúrkur, paprikur, blómkál, spergilkál, sellerí og kúrbítur svo eitthvað sé nefnt. Mynd / Aðsend Lítil og meðalstór fyrirtæki á Íslandi fá aðgengi að 3,2 milljarða króna fjármögnun í gegnum InvestEU- áætlun Evrópusambandsins. Evrópski fjárfestingasjóðurinn (e. European Investment Fund/EIF), sem er í eigu Evrópusambandsins, hefur undirritað samning við Byggðastofnun um bakábyrgðir að upphæð allt að 3,2 milljörðum króna, vegna nýrra útlána til yfir 50 lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Ábyrgðin er studd af InvestEU-áætlun Evrópusambandsins. Nýjar lánveitingar Byggða- stofnunar verða með sveigjanlegri skilmálum, til að styðja meðal annars við unga bændur, viðkvæm byggðarlög og konur í frumkvöðla- starfsemi. Fengu lán vegna kynslóðaskipta Verkefnið nú er annað ábyrgða- samkomulag Byggðastofnunar og EIF. Fyrra samkomulagið (COSME Loan Guarantee Facility) bætti aðgengi íslenskra fyrirtækja á landsbyggðinni að fjármagni á árunum 2021–2023. Samkvæmt upplýsingum frá Byggðastofnun var þá 31 búi veitt lán, alls að andvirði um þriggja milljarða króna, vegna kynslóðaskipta í landbúnaði. Kom COSME-ábyrgðarkerfið að lánveitingum til 70 aðila sem námu alls 4,3 milljörðum króna. Hið nýja samkomulag við Byggða- stofnun er hins vegar fyrsta ábyrgða- samkomulagið á Íslandi sem er stutt af InvestEU-áætlun Evrópu- sambandsins. Aðild Íslands að henni var staðfest í fyrra. Um er að ræða 26 milljarða evra ábyrgðarsjóð sem ætlað er að virkja fjárfestingar upp á um 370 milljarða evra, þar af um 30% til loftslagsverkefna. Leið til að jafna lífskjör Við undirritun samkomulagsins 6. júní sagði Arnar Már Elíasson, forstjóri Byggðastofnunar, að Ísland væri eitt af dreifbýlustu löndum heims, með aðeins fjóra íbúa á hvern ferkílómetra. „Því til viðbótar býr um 80% þjóðarinnar á höfuðborgarsvæðinu sem leiðir af sér víðfeðm svæði þar sem fáir eða engir búa. Innviðauppbygging í dreifðum byggðum er krefjandi og kostnaðarsöm. Ábyrgðakerfi InvestEU veitir Byggðastofnun nauðsynleg úrræði til að veita mikilvæga og hagkvæma lána- möguleika í landsbyggðunum til að jafna lífskjör allra landsmanna,“ sagði Arnar Már. /sá Byggðastofnun: Opnað fyrir milljarða króna fjármögnun Frá undirritun samnings um 3,2 milljarða króna fjármögnun: F.v. Arnar Már Elíasson, forstjóri Byggðastofnunar, Thomas Östros, varaforseti Evrópska fjárfestingarbankans, Lucie Samcová-Hall Allen, sendiherra ESB á Íslandi og Hrund Pétursdóttir, forstöðumaður fyrirtækjasviðs Byggðastofnunar. Mynd / Byggðastofnun Gusi á Skógasafn Fjölskylda Guðmundar Jónassonar hefur afhent snjóbílinn Gusa til varðveislu á Skógasafni. Bíllinn var smíðaður í Bombardier-verksmiðjunum í Kanada og keypti Guðmundur hann árið 1952. Gusi var útbúinn með einangruðu farþegarými, öflugri miðstöð og góðu plássi fyrir tólf farþega. Til þess að fylgjast með staðsetningu ökutækisins í jöklaferðum bætti Guðmundur við búnaði eins og áttavita, hæðarmæli og vegmæli sem dreginn var aftan við bílinn. Jafnframt var sett talstöð í farartækið, en á þeim tíma var notkun þeirra afmörkuð við siglingar. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu frá GJ Travel. Bifreiðin er í mjög góðu standi og getur enn náð 60 kílómetra hraða eins og þegar hún var ný. Að jafnaði var ekið á 25–30 kílómetra hraða í jöklaferðum og var farartækið vinsælt í krefjandi hálendis- og jöklaverkefni. Gusi var til að mynda mikið notaður í leiðöngrum Jöklarannsóknarfélags Íslands. /ál Signý Guðmundsdóttir afhendir snjóbílinn Gusa fyrir hönd föður síns og Andri Guðmundsson, forstöðumaður Skógasafns, veitir farartækinu viðtöku. Mynd / Aðsend

x

Bændablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.