Morgunblaðið - 01.05.2005, Blaðsíða 10

Morgunblaðið - 01.05.2005, Blaðsíða 10
10 SUNNUDAGUR 1. MAÍ 2005 MORGUNBLAÐIÐ Á kvörðun Ásdísar Höllu um að hætta sem bæjarstjóri í Garðabæ og taka við starfi forstjóra Byko hf. kom mjög á óvart. Þessi 36 ára eiginkona og móðir tveggja drengja segir viðbrögð flestra við ákvörðuninni hafa verið á þá lund, „en ég held samt að ég hafi komið sjálfri mér mest á óvart,“ segir hún. Þú sagðir eftir að ráðningin var tilkynnt að það væri einstakt tækifæri að verða forstjóri BYKO. Hvað er svona spennandi við það? „Mér finnst eðli fyrirtækisins þannig, þessi trausti grunnur, fólkið sem er í fyrirtækinu, fjölbreytnin, umfangið og sóknarfærin, bæði hér á landi og erlendis. Ég hef ofboðslega gam- an af því að vinna að framförum og breytingum. Hef gaman af því að prófa nýja hluti og sækja fram með einhverjum hætti. Í því felst mesta ögrunin sem mér finnst mjög heillandi.“ Varstu orðin leið á núverandi starfi? „Nei, alls ekki. Ég var heldur ekki orðin leið á Morgunblaðinu þegar ég hætti þar og hafði alls ekki hugleitt að hætta. Þá fór ég í mjög spenn- andi starf sem framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðisflokksins og var heldur ekki orðin leið á því þegar ég ákvað að taka því að verða aðstoðarmaður menntamálaráðherra. Ég hef alltaf hætt í mjög skemmtilegum störfum sem ég hef þó aldrei áður hugleitt að hætta í.“ Hugleiðirðu ef til vill núna loksins að þú sért að fara í „ævistarfið“ eða hvað? „Þegar maður tekur að sér svona krefjandi starf hvarflar ekki annað að manni að helga sig verkefninu til lengri tíma. Hugsun um ævistarf held ég hins vegar að sé eitthvað sem er að breytast í samfélaginu og hún höfðar ekki til mín þótt auðvitað geti hlutirnar þróast með þeim hætti. Ég hef stundum orðið pínulítið leið fyrir hönd fólks sem ég hef unnið með, t.d. í póli- tík, vegna þess að það hafði ekki treyst sér til að fara í nám eða grípa skemmtileg tækifæri sem því buðust vegna ótta við að detta úr gogg- unarröðinni. Ég hef oft velt því fyrir mér að ef þetta fólk hefði gripið einhver tækifæri sem því buðust þá hefði það jafnvel getað þroskast enn frekar og tekist á við pólitík eða eitthvað annað á öðrum forsendum. Ég held að allir stjórnmálaflokkarnir verði að breyta starfi sínu til þess að hin skýra gogg- unarröð, sem er fyrir hendi, verði ekki lengur til. Hún festir fólk á klafa flokkanna; leiðir til þess að fólk þorir ekki að takast á við aðra hluti og leiðir líka til þess að fólk er bundið of lengi innan stjórnmálaflokkanna. Ég held að fólk eigi miklu frekar að fara inn í stjórnmálastarf í ein- hvern ákveðinn tíma, til þess að sinna tilteknum verkefnum, en vera reiðubúið að fara út aftur og sinna einhverjum öðrum verkefnum á öðrum vettvangi. Það yrði gott, bæði fyrir stjórnmálin og atvinnulífið, að fólk færi á milli og nýtti sér reynslu úr ólíkum málaflokkum. Ég hef því ein- hvern veginn aldrei viljað skrifa undir það að ég sé að fara inn í pólitík eða út úr pólitík; ég lít bara svo á að ég sé að vinna ákveðin verkefni.“ Stundum er haft á orði að fleira gott fólk vanti í pólitískt starf. Er þessi goggunaröð, sem þú talar um, ef til vill ástæða þess? „Hún er alveg örugglega partur af vand- anum. En því má ekki gleyma að það er margt frábært fólk í pólitík, flestir vegna þess að þá langar til þess að hafa góð áhrif á samfélagið. En það þarf svo sannarlega að losa um þetta, til þess að fólk sem er að gera spennandi hluti í at- vinnulífinu, og jafnvel búið að gera um langt árabil, fái tækifæri til þess að koma að pólitísku starfi, í eitt kjörtímabil eða tvö. Það má ekki gefa fólki þau skilaboð að ef það ætlar að fara úr einhverju skemmtilegu fyrirtæki og í pólitík í dálítinn tíma þá sé það að kveðja atvinnulífið og helga sig pólitík það sem eftir er ævinnar.“ Heldurðu að það sé erfitt að breyta þessu? „Ég veit það ekki,“ segir hún og hugsar sig um góða stund. Segir svo: „Það sem skiptir lík- lega mestu máli er hugsunin við uppröðun á lista. Að aðaláherslan sé lögð á fjölbreytileik- ann; að fá til liðs við flokkana marga ólíka ein- staklinga. Að það sé metið meira að hópur af ólíkum einstaklingum getur áorkað meiru en hópur fólks með sambærilega reynslu.“ Stendur það ef til vill stjórnmálastarfi fyrir þrifum hve hópurinn er oft einsleitur? „Það getur verið, en auðvitað eru til und- antekningar. Það má ekki mála myndina alveg svarta eða alveg hvíta. Mér finnst til dæmis mjög gaman að sjá Bjarna Benediktsson koma inn á þing án þess að hafa farið í gegnum hefð- bundna goggunarröð; hann hafði verið að gera spennandi hluti í atvinnulífinu og það sést; reynsla hans og þekking nýtist honum með þeim hætti að hann er orðinn afgerandi forystu- maður þótt hann sé bara á öðru ári í þinginu. Þótt hann hafi komið nýr inn í síðustu kosn- ingum er hann strax orðinn mjög sterkur. Sama má segja um Þorgerði Katrínu; hún varð ráð- herra ung; var ekki farin að þreytast eftir lang- an tíma á þingi og það undirstrikar ákveðinn ferskleika hjá henni sem hefur verið þörf á. En ég held líka að fólk eins og Bjarni og Þorgerður stuðli að því að þetta breytist; að fleiri fari inn í pólitík á þessum forsendum.“ Þú hefur stundum verið kölluð vonarstjarna Sjálfstæðisflokksins; dreymdi þig ekki um að verða ráðherra eða jafnvel formaður flokksins? „Mig hefur aldrei dreymt um nein embætti. Ekki frekar en mig hefur dreymt um að verða forstjóri BYKO. Eftir að ég eltist og fór að mennta mig hef ég bara átt einn draum. Það var að verða blaðamaður á Mogganum – og ég gekk með hann í nokkur ár áður en hann rættist. Um önnur störf hefur mig ekki dreymt, mál hafa bara þróast með einhverjum hætti.“ Talandi um nám, hvað ertu lærð? „Ég tók fyrst stjórnmálafræði í Háskóla Ís- lands og masterspróf í opinberri stjórnsýslu frá Harvard-háskóla í Bandaríkjunum. Fór í það nám nokkuð seint, árið 1999, eftir að ég var að- stoðarmaður ráðherra. En það var alveg frá- bært nám og ótrúlega skemmtilegt. Það var gaman að fara frá um tíma og horfa á pólitíkina frá öðrum stað. Ég var með frábæra kennara í Bandaríkjunum sem hjálpuðu mér að sjá hlutina í öðru ljósi en áður. Af hverju maður er að þessu öllu saman. Það var mikil upplifun. Ég var til dæmis mjög hugsi lengi yfir sögu sem einn kennarinn sagði mér. Hann heitir David Gergen og hefur verið hægri hönd fjög- urra Bandaríkjaforseta. Segist alltaf hafa verið repúblikani, byrjaði sem aðstoðarmaður Nixons og vann síðar með Ford og Reagan. En svo hringdi Bill Clinton í hann einn daginn og sagð- ist vera í vandræðum; vantaði fleira gott fólk í kringum sig, sagðist hafa mikla trú á Gergen og spurði hvort hann vildi vinna með sér. Gergen sagði að það hefði fengið mikið á sig að demókrataforseti skyldi hringja og biðja sig að leggja sér lið. Hann sagðist hafa verið í ákveðnum vandræðum með þetta mál en svo hefði hann hugsað með sér: Bíddu við, ef mitt markmið í lífinu er að bæta samfélagið þá hlýt ég að geta bætt það með því að aðstoða forset- ann við að gera Bandaríkin betri. Hann sagði þess vegna já, og mér fannst þetta skemmtilegt dæmi sem undirstrikar að ef meginmarkmið manns í tilverunni, sem stjórnmálamaður eða í öðru hlutverki, er að bæta samfélagið þá á mað- ur ekki alltaf að búa til litlar kaldastríðslínur og sú hugsun leiddi til þess að ég fór að hugsa um stjórnmál með svolítið öðrum hætti en áður.“ Heldurðu að þú eigir kannski einhvern tíma eftir að verða ráðherra Samfylkingarinnar!? „Nei, ég held ég nái ekki að breyta lífssýn minni þannig. Í grunninn er hún svo tengd grundvallaráherslum Sjálfstæðisflokksins á einstaklingsframtakið og á sjálfstæði ein- staklinganna, og um leið gott og sterkt velferð- arkerfi, að ég held ég muni seint treysta mér til að skipta um.“ Hefurðu orðið vör við það sjálf að reiknað hafi verið með þér í forystu flokksins; jafnvel að þú yrðir einhvern tíma formaður? „Já, veistu að ég hef orðið vör við alls konar væntingar, alls konar hlutir hafa verið sagðir og ég fengið spurningar og jafnvel kröfur. Það hef- ur ekkert farið framhjá mér.“ Þú hefur sem sagt orðið fyrir þrýstingi um að búa þig undir að verða í forystunni? „Einhverjir hafa nefnt það við mig, en ekki tiltekið neitt sérstakt embætti; frekar að ég haldi áfram að leggja Sjálfstæðisflokknum lið með einhverjum hætti en ég hef ekki tekið und- ir það því ég hef hugsað mér að hvenær sem ég hætti í Garðabæ þá væri best fyrir mig sjálfa að reyna mig í einhverju allt öðru.“ Hefurðu verið ákveðin í því lengi? „Já, ég var búin að ákveða það fyrir dálitlu síðan að vera í Garðabæ í einhvern tíma en svo væri væntanlega hollast að horfa á tilveruna frá einhverju allt öðru sjónarhorni.“ Hefur þig þá aldrei langað á þing? „Nei. Ég var framkvæmdastjóri þingflokks- ins í tvö ár og kynntist vel störfum þingsins, mér fannst það skemmtilegt en í eðli mínu er ég meira fyrir að vera úti í skurði að grafa en að halda miklar ræður og þrasa um einhver mál sem höfða mismikið til mín.“ Þingmennskan heillar þá alls ekki? „Nei, og það hefur hún aldrei gert. Það að vera bæjarstjóri finnst mér vera meira spenn- andi vegna þess að þá er ég í aksjón, í grasrót- inni; get látið einhverja hluti verða að veruleika frá degi til dags. Þegar ég var í mennta- málaráðuneytinu unnum við að lögum og reglu- gerðarbreytingum, t.d. breytingum á aðal- námskrá sem mér fannst gaman en samt fannst mér mig vanta tækifæri til þess að láta breyt- ingarnar verða að veruleika. Að búa ekki bara til stefnuna heldur að framkvæma hana líka.“ En síðustu fimm árin hefurðu getað látið hlutina gerast. „Nákvæmlega. Og það er ofboðslega gefandi, bæði í stóru og smáu; það gleður mig þegar ég sé nýtt net í körfuboltahringjum á einhverjum leikvellinum, það gleður mig þegar ég sé annars konar róluvöll koma upp, það gleður mig að sjá þegar búið er að malbika einhverja götu eða byggja nýjan skóla. Mér finnst það miklu meira gaman en að setja orð á blað.“ Hefur þér fundist erfitt að vera í stjórn- málum vegna þess hve persónuleg þau geta orð- ið? „Nei og ég held það sé sama hvað maður fæst við, alls staðar eru einhvers konar átök og valdabarátta. Það getur verið mjög persónulegt að vera í viðskiptalífinu, þar getur maður verið mjög áberandi og það getur verið óþægilegt og erfitt fyrir fjölskylduna. Harkalegustu átökin sem ég hef horft upp á eru innan háskólasamfélagsins; þar er hart bar- ist um embætti og stöðuveitingar. Svo er mikil barátta inni á fjölmiðlum og víða annars staðar þannig að ég held að stjórnmálin séu ekkert verri en hvað annað að þessu leyti. Það hefur að minnsta kosti ekki truflað mig eða fjölskyld- una.“ Talandi um fjölskylduna, þú ert gift og tveggja barna móðir. „Já, ég er gift Aðalsteini Jónassyni hrl. og við eigum tvo stráka, Jónas Aðalstein sem er 15 ára og Braga sem er 6 ára.“ Þú hefur lengi verið í krefjandi störfum. Hef- ur þér fundist þú hafa nógu mikinn tíma fyrir börnin og fjölskylduna? „Maður hefur aldrei nógu mikinn tíma. Aldr- ei. Vill alltaf gera betur, en ég hef lagt mig mjög fram um að sinna fjölskyldunni og finnst það hafa tekist ágætlega. Ég hef verið með alls kon- ar reglur í því sambandi, hvað ég má og hvað ég má ekki, til þess að ganga ekki fram af fjöl- skyldunni. Ég passa mig t.d. á því að vera aldrei svo mikið í burtu að strákarnir fari með ein- hverjum hætti að líða fyrir það. Við hjónin erum mjög samstiga í uppeldi strákanna og því að halda utan um heimilið. Aðalsteinn sinnir því jafnmikið og ég, þannig að ég hef fengið mikinn stuðning og hvatningu heima. Svo eigum við líka góða að og það er í raun og veru algjört lyk- ilatriði. Pabbi minn er nánast eins og þriðji full- orðni einstaklingurinn á heimilinu. Hann passar upp á strákana og upp á flest sem gera þarf heima fyrir þannig að hans aðstoð og minnar fjölskyldu í mörg ár hefur leitt til þess að þetta er ekkert erfitt.“ Þú nefndir reglur. Eru þær heimasmíðaðar? „Já, og hafa þótt brjálæðislega órómantískar! Ég var bara 19 ára þegar við Aðalsteinn kynntumst og ári síðar áttum við von á okkar fyrsta barni. Þá var ég tvítug og nýbyrjuð í há- skóla, en langaði ofboðslega til að eignast mína eigin fjölskyldu. Mér fannst það tilhlökkunarefni að eignast barn; og það magnaðasta sem maður upplifir í allri tilverunni er þegar barnið kemur í heiminn. Allt annað verður voðalega smátt í því sam- hengi. Og um leið breytist mjög margt; að vera rétt rúmlega tvítugur og orðinn foreldri og ekk- ert búinn að prófa að hanga á öllum kaffihús- unum sem háskólastúdentar gera vanalega! En við Aðalsteinn ákváðum strax hvernig við ætl- uðum að hafa hlutina og bjuggum til reglur um verkaskiptingu. Og vorum meira að segja svo órómantísk að við skrifuðum reglurnar niður á blað! Samnemendum mínum úr stjórnmála- fræðinni fannst þetta blað það órómantískasta sem þeir höfðu nokkurn tíma séð. Reglurnar eru auðvitað löngu týndar en eftir lifir gagn- kvæmur skilningur á því að við öxlum bæði ábyrgð á heimilinu og strákunum og því hafa reglurnar reynst algjört lykilatriði. Við þurfum aldrei að þrasa um neitt. Ég sé um heimilið og börnin aðra vikuna og hann hina. Aðra hverja viku ber ég ábyrgð á því að það sé matur í ís- skápnum, að strákarnir fari í skólann, að festa sé á hlutunum og svo framvegis. Þetta gerir það að verkum að allt gengur vel fyrir sig.“ Þið eruð sem sagt búin að finna uppskriftina að hinu fullkomna fjölskyldulífi! „Nei, þetta verður til þess að maður vinnur mjög mikið aðra vikuna og við myndum vissu- lega vilja hittast meira – en týndu reglurnar koma að minnsta kosti í veg fyrir allt þras.“ Og þær eru góðar fyrir strákana? „Já, þeir eru mjög sáttir. Þeir vita alltaf hvort okkar er heima og hvenær.“ Heldurðu að þessi ákvörðun þín núna verði talin hliðarspor eða jafnvel skref aftur á bak; og þá meina ég vegna þess að einhverjir sáu þig fyrir sér sem framtíðarleiðtoga í stjórnmálum? „Ef maður lítur ekki á lífið sem ferðalag á ein- hvern endapunkt í járnbrautarlest þá getur maður hvorki skilgreint svona skref sem fram á við, til hliðar eða aftur á bak. Ef maður er ekki með neina fyrirfram skilgreinda braut er ekki hægt að búa til þessar samlíkingar. Það eina sem ég hugsa um, núna þegar ég ákvað að taka að mér þetta nýja starf, er að ég vil gera það mjög vel. Mér finnst Jón Helgi [Guðmundsson] og fyrirtækið hafa sýnt mér ofboðslega mikið traust þannig að mig langar að sinna starfinu af miklum heilindum án þess að velta því fyrir mér hvort fólk túlkar ákvörðun mína í einhverju pólitísku samhengi. Mig langar bara að gera þetta vel og endurgjalda það traust sem mér var sýnt.“ Það er kannski gamaldags að setja fram svona skilgreiningu, en ég geri það nú samt; má ekki segja að þú hafir um árabil verið í svoköll- uðum karlastörfum? Og nú ertu orðin forstjóri byggingavöruverslunar! „Veistu það, að ég var ekki búin að setja mál- ið í þetta samhengi. En ef ég hugsa til baka þá Mikil ögrun að fást Ásdís Halla Bragadóttir þekktist í vikunni boð um að taka að sér enn eitt „karlastarfið“ – verður forstjóri BYKO og hættir því sem bæjarstjóri í Garðabæ. Skapti Hallgrímsson hitti Ásdísi Höllu að máli og komst m.a. að því að hún hefur smíðað kofa. Að vísu ljótasta kofa í heimi, en kofa samt …
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60
Blaðsíða 61
Blaðsíða 62
Blaðsíða 63
Blaðsíða 64
Blaðsíða 65
Blaðsíða 66
Blaðsíða 67
Blaðsíða 68
Blaðsíða 69
Blaðsíða 70
Blaðsíða 71
Blaðsíða 72

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.