Morgunblaðið - 15.07.1980, Blaðsíða 28

Morgunblaðið - 15.07.1980, Blaðsíða 28
MORGUNBLAÐIÐ, ÞRIÐJUDAGUR 15. JÚLÍ 1980 36 Minning: Jófríður Guðmunds- dóttir frd Helgavatni Fædd 19. ágúst 1902. Dáin 4. júlí 1980. í ritsafni sínu „Úr byggðum Borgarfjarðar“, kemst Kristleifur Þorsteinsson svo að orði: „Það eru liðin nálægt hundrað árum, síðan ung heimasæta frá Ásbjarnarstöðum, Margrét, dóttir Halldórs Pálssonar, flutti sig úr föðurgarði og reisti bú á Helga- vatni í Þverárhlíð. Þessi ráðabreytni varð þá mjög hljóðbær, því að slíkt var hér einsdæmi um ungar stúlkur. En ekki var bústjórn hennar minna höfð á orði, því fjárhagur hennar blómgaðist fljótt. Ekki leið á löngu, uns ungur maður leitaði ráðahags við hana. Hét hann Þorbjörn Sigurðsson, prests Þorbjarnarsonar frá Lund- um. Þótti hann mikill efnismaður, og vísaði hún honum ekki frá. Urðu þau nafnkennd hjón.“ Vinkona mín, Jófríður Guð- mundsdóttir frá Helgavatni, sem mig langar að minnast nokkrum orðum, er einn af afkomendum þessara hjóna, því eitt barna þeirra var afi hennar, Sigurður Þorbjarnarson, bóndi á Helga- vatni.' En faðir Jófríðar var Guð- mundur sonur Sigurðar. Móðir hennar var Anna Ásmundsdóttir frá Höfða í Þverárhlíð, af hinni þekktu Elínarhöfðaætt. Hófu þau búskap á hálfu Helgavatni, föður- leifð Guðmundar, árið 1898. Fljótlega keyptu þau Guðmund- ur og Anna hinn helming jarðar- innar fyrir 1000 krónur og bjuggu þau hjón þar rausnar- og myndar- búi nærri því hálfa öld. Húsbónd- inn, glæsimenni mikið, var höfð- ingi heim að sækja og gleðimaður í góðra vina hópi. Hann var smiður góður og byggði stórt og vandað íbúðarhús á jörðinni um 1911 og stendur það enn; mun það hafa verið eitt af fyrstu stein- steyptu íbúðarhúsum sem byggð voru í Borgarfirði. Heimilið á Helgavatni hafði því haldið sinni fornu reisn. Húsmóðirin, Anna, var hóglát greindarkona. Umgengni og hús- búnaður allur, utan húss og innan, bar vott snyrtimennsku þeirra Helgavatnshjóna og ákveðinn menningarblær hvíldi yfir heimil- inu. Góðar bækur voru ekki for- boðinn ávöxtur. Mikil fegurð er í Þverárhlíðinni; stór skógur á sléttu mólendi, tjarnir vafðar sígrænu sefi, sem í renna lækir úr sjóðandi hverum. Óvíða á landinu gefur að líta jafn fjölbreytilega náttúru. Þetta heimili var þannig um margt sérstakt og til fyrirmyndar. Foreldrar Fríðu, Anna og Guð- mundur, eignuðust sjö börn, sem upp komust: Sigurð, Þórdísi, Jófríði, Sigurlaugu, Ásmund, Guð- rúnu og Ruth og eru þrjú þessara systkina á lífi, Þórdís, Ásmundur og Ruth. Fríða var sú þriðja í röðinni, fædd 1902. Snemma fann hún til ábyrgðar fyrir yngri systkinum sínum og heimilinu. Því var það, að fljótiega, meðan hún enn var ung stúlka, þótti ekkert ráð nema hennar samþykki kæmi til. Mun það hafa haldist löngu eftir að hún fór alfarin að heiman, enda fylgdist hún löngum með heimil- 'inu og var þess hjálparhella. Átján ára gömul fór hún til Reykjavíkur og aflaði sér nokk- urrar menntunar. Lengst af vann hún við Landspítalann, eða frá því hann var opnaður, og þar til hún giftist Einari Andréssyni frá Helgustöðum við Reyðarfjörð, ár- ið 1936. Einar var sérstæður og jafn- framt eftirminnilegur persónu- leiki öllum sem honum kynntust. Hann bar með sér andblæ frjáls- lyndis og víðsýnis, hvers manns hugljúfi, átti sér engan óvin að ég ætla, en vinmargur. Það var því ekki að ástæðulausu að oft var gestkvæmt á heimili þessara elskulegu hjóna á Hjallavegi 27. Einar vann lengst af við Mál og menningu og var því fyrirtæki ómetanlegur aflgjafi, en þau hjón bæði tvö helguðu því fyrirtæki krafta sína óskipta þar til yfir lauk. Segja má að heimili þeirra hjóna hafi verið nokkurs konar útibú frá Máli og menningu. Þegar lokað var á Laugaveginum, var samtímis opnað gegnum heimili þeirra Fríðu og Einars að Hjalla- vegi. Þá fór síminn í gang. Hina og þessa vantaði bók til gjafar, aðra vantaði upplýsingar eða ráðlegg- ingu um bókaval og var þar ekki komið að tómum kofa. Flestar bækur, sem út komu hjá félaginu, las Fríða jafnóðum, en álit hennar á bókum þótti mark- tækt. Hún var mikill bókaunn- andi, fjöllesin og hafði sterka dómgreind, en ekki bar hún skoð- anir sínar á torg, hvorki í þessu efni né öðru, enda var hógværðin sterkur þáttur í fari hennar. Fríða unni náttúru landsins, fegurð þess og fjölbreytileik, enda ferðaðist hún — ásamt Einari — mikið um óbyggðir með vinum og kunningjum. Hún lagði ekki að jöfnu að búa á hótelum í sumar- leyfum eða tjalda á grænum bala við lækjarnið í fögru umhverfi. Eftir að Fríða gat ekki lengur ferðast stytti hún sér stundir við að hlúa að blómum og trjám í fallegum garði, sem þau Einar höfðu ræktað af mikilli alúð við hús sitt á Hjallavegi þar sem þau undu löngum stundum. Hér áður er á það minnst hvernig Fríða reyndist foreldrum sínum frá fyrstu tíð, enda fór svo að þegar þau hættu búskap eftir fjörutíu og sjö ár, fluttu þau alfarin frá Helgavatni til þeirra Fríðu og Einars á Hjallaveg og dvöldu hjá þeim síðustu níu árin sem þau lifðu. Fríða annaðist þau til síðustu stundar af mikilli umhyggju. Þau hjón Fríða og Einar eignuð- ust eina dóttur barna, önnu, sem starfað hefur hjá Máli og menn- ingu í mörg ár. Hún hefur reynst móður sinni góð og umhyggjusöm dóttir í erfiðum veikindum. Anna er gift Halldóri Jónssyni ökukenn- ara. Börn þeirra eru fjögur: Einar, sem nú býr á ísafirði, Jón Sigurð- ur, Gunnar Þorsteinn og Fríður María. Það eru hlýjar minningar sem ég á frá kynnum okkar Fríðu mágkonu minnar og ég mun minn- ast hennar sem einnar vænstu konu sem ég hefi kynnst á lífsleið- inni. Ég sendi öllum aðstandendum samúð mína. Halldór Þorsteinsson Það var sumar og sólskin, hey- annir hafnar, systurnar að Helga- vatni snéru flekkjum á túninu til þerris, þar ríkti gleði æskunnar, skrafað og hlegið þó ekki væri slegið af við vinnuna, sex ára snáði reyndi að fylgjast með og skilja hvers vegna hlátur og gleði ríkti í þessum hóp, honum fannst ekki að hrífur og hey gæti verið uppspretta lífshamingju þeirra, hann gat aðeins notað hey til að kaffæra hundinn sinn. Þessi lífs- gleði þeirra systra dró snáðann að þeim, svo ekki mátti hann af þeim sjá. Að loknum vinnudegi var farið í skógarferð í leit að hreiðr- um og til að njóta náttúrufegurðar við vötnin og í Múlanum. í þessari ferð varð snáðinn svo þreyttur að hann lagðist niður og neitaði að hreifa fætur, enda búinn að týna áttum og vissi ekki fyrir víst hvor endinn átti að snúa upp eða niður. Það var Fríða sem hafði fæst orð um hvað gera skyldi við snáða en skellti honum á háhest og hélt af stað heim. Héðan að ofan leit heimurinn allt öðruvísi út, nú gat ég séð langt frá, stundum út úr skóginum, allt sem áður lokaði mér sýn gat ég nú horft yfir, nú skildi ég hvers vegna gleðin ríkti með þeim systrum, þær sáu svo vítt yfir allar hindranir, og nú sá ég heim, og nú gat ég sjálfur, ég hljóp óþreyttur á undan þeim heim til fóstru minnar og móður þeirra, „ég er kominn og hinar stelpurnar líka“, fékk að launum fyrir að vera fyrstur heim væna rúgbrauðsneið með nýstrokkuðu smjöri jafn þykku brauðsneiðinni ásmurðu með þumalfingri. Þannig fékk ég launin en hún erfiðið. Því segi ég sögu þessa að hún er tákn okkar samskipta og allra annarra er ég þekkti til. Hvar sem Fríða var í vina hóp, og hann var stór, þá geislaði af henni virðuleiki, heiðarleiki og skinsemi er óhjá- kvæmilega lyfti öðrum til meiri víðsýni og umburðarlyndis. Óaf- vitað voru boðorðin 10 hennar lög. Samtíðin hlaut verðlaun verka hennar eins og snáðinn forðum daga. Það er talinn aðall lista og takmark listamanna að skila mannlífi fegurri og auðskildari veröld, þeir sem hafa kynnst Fríðu eiga án efa auðveldari leið að sinni draumsýn. En við sem vorum Fríðu sam- ferða í starfi og leik eigum svo margt að þakka, í 12 ár ólum við Rósa börn okkar upp í sambýli við hana að Hjallavegi 27, ég minnist þess ekki að í eitt einasta skipti hafi hún eða Einar amast við leikjum þeirra og ærslum á lóð- inni sem hún hafði þó svo mikið yndi af að prýða, jafnvel þótt allir krakkar úr stórum hluta götunnar væru þangað komnir. Og þegar Viðar 4ra ára og annar álíka snáði léku olíusalann og létu renna úr vatnsslöngunni í olíutankinn þar til út úr rann, og komu svo til Fríðu að rukka eins og olíusalinn gerði, sagði hún: „Já ef þið gerið þetta aldrei aftur skal ég borga ykkur krónu hvorum". Það eru ekki margir sem eiga slíkan húm- or eða slíkan skilning á athöfnum barna. Enda naut hún ástúðar og virðingar ömmubarna sinna. Hún gaf sér tíma til að ræða við aðra, og hlusta á skoðanir yngri sem eldri, og láta sínar skoðanir í ljós óhikað á öllum sviðum mannlífs, ómengaðar af fræðikenningum hugmyndafræðinga. Þó hún ætti eitt með stærri heimilisbókasöfn- um, og hún nyti þess umfram aðra að lesa góðar bókmenntir, þá átti hún ætíð heiðar og sjálfstæðar skoðanir og var ekki sýnt um að styðja þær tilvitnunum í hug- myndir þeirra meistara er fylltu bókahillur hennar, sem þó að sjálfsögðu hafa aukið víðsýni hennar á málefnum. Þegar við Rósa komum til henn- ar á spítalann síðast var hún þungt haldin, og mér virtist hún komin út fyrir þennan heim okkar, sem á þó svo marga töfra þeim sem sjá þá og hafa þrek til að horfa framhjá þverstæðunum. Okkur virtist sem hún mundi komin í þann fríða vinahóp sem á undan henni var sigldur yfir móðuna miklu, svo mikil birta og friður var yfir brosandi ásjónu hennar, hafi hún fundið nálægð sláttumannsins þá hefur hún að sjálfsögðu horft fram hjá honum. Þar komst ég næst því að trúa á líf eftir dauðann. Þetta eru leiftur úr lífi Fríðu, er runnu mér í hug er ég stóð við kistu hennar, hvíluna eilífu, og ég leit höfuð hennar á hvítu líni í síðasta sinn. Þau voru mér skír og ljúf. Við Rósa og börnin okkar eigum þá ósk besta til Önnu, dóttur Fríðu, barnanna og Halldórs, að þau hljóti sem mest af hennar verðleikum. Minningin um hana sem móður, ömmu, og tengdamóð- ur verði til að styrkja þau og leiða gegnum ókomin ár. A Minning: Hafliði Helgason fyrv. bankaútibússtjóri Hafliði Helgason, fyrrverandi útbússtjóri Útvegsbanka íslands á Siglufirði, andaðist hér í Reykja- vík hinn 8. júlí sl., og fer útför hans fram á Siglufirði í dag. Hafliði var fæddur á Siglufirði 31. ágúst 1907, sonur Helga Haf- liðasonar, Guðmundssonar hrepp- stjóra á Siglufirði, og konu hans Sigríðar Jónsdóttur. Hafliði varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1928. Hann gerðist úti- bússtjóri Útvegsbankans á Siglu- firði 1938 og gegndi því starfi til 1. október 1977. Þegar Hafliði tók við stjórn bankans á Siglufirði var mikil síldveiði fyrir öllu Norður- landi og Siglufjörður var miðstöð síldarvinnslunnar. Langflestir síldarsaltendur voru í viðskiptum við Útbegsbankann á Siglufirði, og hafði Hafliði því í mörg horn að líta á þessum árum, enda um áhættusaman atvinnurekstur að ræða. Hann var gjörkunnugur síldveiðum og síldarverkun enda alinn upp við slíka starfsemi frá barnsárum. Á miðjum sjöunda áratugnum hverfur síldin með öllu af miðunum fyrir Norðurlandi og var þar með raunverulega kippt fótunum undan atvinnulífi Sigl- firðinga. Það er til marks um þekkingu og samviskusemi Haf- liða að þrátt fyrir þetta snögga hrun varð Útvegsbankinn ekki fyrir neinu fjárhagslegu tjóni. Þótt Útvegsbankinn tæki mest- an tíma Hafliða átti hann sér önnur hugðarefni. Hann var mjög gefinn fyrir ‘ tónlist, einnig tók hann á yngri árum virkan þátt í leiklistarstarfi á Siglufirði. Hafliði var kvæntur Jónu S. Einarsdóttur frá Reykjavík og eignuðust þau fimm mannvænlega syni, sem allir er á lífi. Einn þeirra, Sigurður er nú útibússtjóri Útvegsbankans á Siglufirði. Bankastjórn og bankaráð Út- vegsbankans hafa falið mér að flytja Hafliða þakkir fyrir frábær störf í þágu bankans, og konu hans, sonum og öðrum vanda- mönnum, samúðarkveðjur. Jónas G. Rafnar. í dag fer fram á Siglufirði útför Hafliða Helgasonar fyrrverandi bankaútibússtjóra þar í bæ. Hann andaðist í Borgarspítalanum í Reykjavík 8. júlí síðastliðinn. Hann fæddist á Siglufirði 31. ágúst 1907. Foreldrar hans voru Sigríður Jónsdóttir og Helgi Haf- liðason kaupmaður þar í bæ. Hafliði Helgason lauk stúd- entsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1928. Réðist hann síðar skrifstofumaður hjá Síldar- verksmiðjum ríkisins, er hófu starfsemi á Siglufirði 1930. Áður en hann var ráðinn útibús- stjóri Útvegsbanka íslands á Siglufirði 1. janúar 1939, hafði hann um skeið starfað í Islands- banka á Akureyri og í skrifstofu bankans á Siglufirði. Hafliði lét af störfum í Útvegs- banka íslands 1. október 1977 fyrir aldurs sakir. Hann var á Siglufirði umboðs- maður fyrir Sameinaða gufu- skipafélagiö, Vátryggingastofu Sigfúsar Sighvatssonar og um skeið fyrir Tryggingamiðstöðina. Endurskoðandi var hann hjá Síld- arútvegsnefnd og Tunnuverk- smiðju ríkisins. Prófdómari var Hafliði í mörg ár við Gagnfræðaskóla Siglufjarð- ar. Hann var einn af stofnendum Stúdentafélags Siglufjarðar, og virkur þátttakandi í Rótary- hreyfingunni. Hugðarefni hans í tómstundum hneigðust einkum að tónlist og leiklist en einnig naut hann ánægju við bridgespil og golfleik. Hafliði Helgason kvæntist eftir- lifandi eiginkonu sinni Jónu Sig- urveigu Einarsdóttur, kolakaup- manns Tómassonar í Reykjavík og konu hans Ragnhildar Jónsdóttur. Heimili þeirra var öll starfsár Hafliða á Siglufirði, en síðustu æviárin að nokkru í Reykjavík. Þau eignuðust fimm syni, sem hér eru taldir í aldursröð. Helgi arkitekt, kvæntur Margrétu Er- iendsdóttur, Einar verkfræðingur kvæntur Sigrúnu Majjnúsdóttur, Sigurður útibússtjóri Utvegsbank- ans á Siglufirði, kvæntur Krist- rúnu Halldórsdóttur, Ragnar viðskiptafræðingur í Seðlabanka íslands ókvæntur og Hafliði, sem stundar nám í jarðeðlisfræði í Skotlandi. Hann er heitbundinn Eddu Ólafsdóttur, læknanema. Sem fyrr segir var Hafliði fastráðinn starfsmaður Útvegs- banka íslands í 38 ár og 9 mánuði. Hann leysti öll störf sín af hendi af árvekni, áhuga og stakri samviskusemi. Hann var að verð- leikum vel metinn af viðskipta- mönnum bankans og Siglfirðing- um öllum. Starfsfólk bankans átti alltaf vingjarnlegt og einlægt samstarf við hann. Hafliði var bankanum trúr þjónn. Ég átti um áratuga skeið náið samstarf við Hafliða Helga- son á sviði félagsmála banka- manna. Var hann á þeim vett- vangi vakandi og árvakur áhug- amaður um málefni félagsmanna, um velferð og hagsæld þeim til handa. Minnist ég hans nú og mun ævinlega fyrir vináttu og ljúfa samfylgd um langan veg. Eiginkonu, sonum, öðrum ætt- ingjum og vinum votta ég innilega samúð í nafni starfsfólks Útvegs- bankans. Adolf Björnsson.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.