Morgunblaðið - 03.02.1983, Side 18
18
MORGUNBLAÐIÐ, FIMMTUDAGUR 3. FEBRÚAR 1983
Yfirlit Seðlabanka íslands um stöðu efnahagsmála í upphafi árs:
Rjúfa verður þann vítahring verð
bólgu, sem þjóðin er fjötruð í
Morgunblaðinu hefur borizt eftirfarandi yfirlit Seðlabanka íslands um stöðu
efnahagsmála í upphafi árs. Auk þess hefur Mbl. borizt „Bráðabirgðayfirlit um
þróun peningamála 1982“ og „Bráðabyrgðayfirlit um þróun greiðslujafnaðar og
gjaldeyrisstöðu á árinu 1982“, sem verða birt síðar.
Seðlabankinn hefur í dag sent frá
sér tvö yfirlit, annað um greiðslu-
jöfnuð og gjaldeyrismá), en hitt um
þróun peningamála á árinu 1982.
Þótt hér sé að nokkru um bráða-
birgðaupplýsingar að ræða, sem
auk þess taka aðeins til hluta af
þjóðarbúskapnum, sýna þau ljós-
lega hinar ískyggilegu breytingar,
sem áttu sér stað í efnahagsþróun
og stöðu þjóðarbúsins á árinu 1982.
Við þann verðbólguvanda, sem áður
var við að glíma í efnahagsmálum,
bættist nú stóraukinn viðskipta-
halli og samdráttur þjóðarfram-
leiðslu, sem stefnir stöðu þjóðar-
búsins út á við í mikinn háska.
Rætur þessarar þróunar má að
verulegu leyti rekja til mjög versn-
andi ytri aðstæðna á síðastliðnu
ári, einkum minnkandi sjávarafla
og söluerfiðleika á erlendum mörk-
uðum. Jafnframt kom nú enn í ljós
bæði hve fljótt hið lögboðna vísi-
tölukerfi magnar áhrif utanaðkom-
andi örðugleika og hversu varhuga-
verð öll frestun nauðsynlegra gagn-
ráðstafana er fyrir efnahagslegt
jafnvægi.
Þær ráðstafanir, sem gerðar voru
á síðasta ári til að ráða bót á vax-
andi þjóðhagslegum halla, komu
ekki nógu tímanlega til að hafa
veruleg áhrif á þjóðarútgjöld á ár-
inu, en auk þess ríkti á köflum
óvissuástand, á meðan beðið var
eftir ákvörðunum í efnahagsmál-
um. Niðurstaðan virðist í aðalatrið-
um hafa orðið sú, að þjóðarútgjöld
og innflutningur vöru og þjónustu
hafi hvort tveggja haldizt svo til
óbreytt frá árinu á undan, þrátt
fyrir mikla lækkun þjóðartekna og
útflutnings. Minnkandi tekjur þjóð-
arbúsins og birgðasöfnun komu því
með fullum þunga fram í auknum
viðskiptahalla við útlönd, sem virð-
ist skv. bráðabirgðatölum hafa far-
ið upp í um 11% af þjóðarfram-
leiðslu á árinu. Leiddi þessi mikli
viðskiptahalli til þess, að hlutfall
erlendra skulda til langs tíma af
þjóðarframleiðslu jókst úr rúmum
37% í nálægt 47,5% á árinu, en
jafnframt lækkaði nettó-gjaldeyris-
eign bankanna um helming. Er hér
um afar viðsjárverða þróun að ræða
fyrir efnahagslegt öryggi þjóðar-
innar, ekki sízt þegar litið er til
óvissu og erfiðleika á erlendum
lánamörkuðum.
Mikil breyting varð í þróun geng-
ismála á árinu 1982. Vegna versn-
andi stöðu útflutningsatvinnuveg-
anna var framkvæmd veruleg geng-
islækkun í upphafi ársins og um
leið horfið frá þeirri aðhaldsstefnu
í gengismálum, sem fylgt hafði ver-
ið árið áður. Önnur meiri háttar
gengisbreyting reyndist nauðsynleg
í ágústmánuði, einkum vegna
áhrifa aflabrests á afkomu þjóðar-
búsins. Þriðja breytingin átti sér
svo stað nú í byrjun þessa árs, en
milli þessara þriggja gengisbreyt-
inga var gengi krónunnar látið síga
með hiiðsjón af þróun hér og er-
lendis. Alls lækkaði vegið meðal-
gengi krónunnar um rúm 47% frá
upphafi árs til ársloka, sem sam-
svarar tæplega 90% meðalhækkun
á verði erlends gjaldeyris. Þessi
mikla breyting gengisins umfram
innlendar verðlagshækkanir, en
þær námu rúmlega 60% á árinu,
virtust á hverjum tíma nauðsynleg-
ar til þess að tryggja viðunandi
samkeppnisaðstöðu atvinnuveg-
anna við versnandi ytri aðstæður.
Hitt var jafnframt óumflýjanlegt,
að hraðari gengisbreytingar hefðu
að öðru óbreyttu í för með sér vax-
andi verðbólgu, nema gerðar væru
ráðstafanir til þess að taka áhrif
þeirra út úr vísitölukerfi verðlags
og launa. Þetta var að hluta gert
með 8% skerðingu verðlagsbóta 1.
desember sl. En þrátt fyrir áhrif
þeirrar ráðstöfunar átti gengis-
þróunin mikinn þátt í því að auka
verðbólguna úr rúmum 40% í byrj-
un ársins í yfir 60% í árslok. Engar
ráðstafanir hafa enn verið gerðar
til þess að eyða verðbólguáhrifum
þeirrar gengisbreytingar, sem
ákveðin var í byrjun þessa mánað-
ar, enda stefnir verðbólgan að öllu
óbreyttu yfir 70% þegar á allra
næstu mánuðum.
Þróun peningamála var mjög
óhagstæð á árinu 1982, verulega dró
úr aukningu innlána, en útlán inn-
lánsstofnana urðu langt umfram
ráðstöfunarfé, svo að lausafjár-
staða þeirra þrengdist mjög. Mörg
öfl voru hér að verki. Sökum vax-
andi verðbólgu urðu ávöxtunarkjör
fjármagns óhagstæðari, eftir því
sem á árið leið, en jafnframt kynti
efnahagsleg óvissa undir lánaeft-
irspurn og dró úr sparnaði. Nauð-
synleg vaxtaaðlögun dróst fram á
síðasta ársfjórðung, en síðan hefur
verðbólgan enn vaxið. Fjárhags-
staða sjávarútvegsins, sem átti við
mikinn hallarekstur að stríða, eink-
um á fyrra helmingi ársins, auk
mikillar birgðasöfnunar, versnaði
mjög á árinu, og jók hann stórlega
skuldir sínar við bankakerfið og
viðskiptaaðila. Hafði þetta í för
með sér mikla útlánaaukningu af
hálfu Seðlabankans og viðskipta-
banka, bæði vegna reglubundinna
afurðalána og sérstakrar fyrir-
greiðslu vegna fjárhagserfiðleika
fyrirtækja. Hefur þessi þróun þegar
gengið mjög nærri fjárhagsstöðu
bankakerfisins. Hefur það komið
fram í vaxandi skuldasöfnunum
bankanna gagnvart Seðlabankan-
um, sem svo aftur hefur haft í för
með sér minnkandi gjaldeyriseign
hans erlendis.
Þegar litið er yfir þróunina að
undanförnu og stöðu þjóðarbúskap-
arins í dag, er ljóst, að þrátt fyrir
aðgerðir stjórnvalda til þessa vant-
ar mikið á, að efnahagsvandinn,
sem magnaðist svo mjög á síðast-
liðnu ári, hafi enn verið leystur.
Fari fram sem horfir, verður mjög
mikill halli á viðskiptajöfnuði einn-
ig á þessu ári, og skuldastaðan við
útlönd mun komast á enn hættu-
legra stig. Jafnframt heldur verð-
bólga áfram að magnast og grafa
undan fjárhagslegu trausti og
sparifjármyndun, en háu atvinnu-
stigi haldið uppi með erlendri
skuldasöfnun og verðbólgumynd-
andi útlánum innanlands. Við þess-
um vanda verður að bregðast hið
allra fyrsta, því hver mánuður er
dýr í vaxandi erlendum skuldum,
sem langan tíma tekur að greiða
niður. Meginmarkmiðið í efna-
hagsmálum hlýtur því, eins og nú er
komið, að vera að draga úr og eyða
sem fyrst viðskiptahallanum við út-
lönd, sem ógnar efnahagslegu ör-
yggi landsmanna.
Gengisskráningin er eitt mikil-
vægasta tækið, sem hægt er að
beita til þess að örva útflutnings-
framleiðslu og draga úr innflutn-
ingi. Vandinn liggur þó ekki í því,
að gengið hafi ekki verið lækkað
nægilega að undanförnu, heldur í
hinu, að ekki hafa samtímis verið
gerðar ráðstafanir, er tryggðu, að
breytingar gengisins hefðu varan-
leg áhrif, en eyddust ekki á skömm-
um tíma af völdum víxlhækkana og
leiddu þannig fyrst og fremst til
aukinnar verðbólgu. Ef breytingar
gengisins að undanförnu eiga að
hafa tilætluð áhrif verður því að
koma í veg fyrir, að þær renni
óheftar út í framleiðslukostnað og
verðlag. Er reyndar ljóst, að lengra
þarf að ganga og stefna verður sem
fyrst að gagngerri endurskoðun
hins lögboðna vísitölukerfis verð-
lags og launa, ef komast á út úr
þeim ógöngum, sem íslenzk efna-
hagsmál eru nú komin í.
Erlendar lántökur hafa á undan-
förnum árum ekki aðeins verið af-
leiðing umframeyðslu þjóðarbúsins,
heldur hefur óhófleg notkun er-
lends lánsfjár haft í för með sér
eftirspurnar- og peningaþenslu,
sem ýtt hefur undir verðbólgu og
viðskiptahalla. Mikilvægt er, að
sem fyrst sé gengið frá lánsfjár-
áætlun fyrir árið 1983, þar sem
stefnt sé að um þriðjupgs lækkun á
erlendum lántökum frá því, sem var
á síðastliðnu ári, sem samsvarar að
erlendar lántökur verði um 3.500
millj. kr. á núgildandi gengi. Síðan
verður að takmarka lánsfjármagn-
aðar opinberar framkvæmdir og út-
lán fjárfestingarlánasjóða við það
svigrúm, sem þá er fyrir hendi.
í peningamálum verður að setja
það markmið, að útlánaaukning
verði innan við það ráðstöfunarfé,
sem bankakerfið fær af auknum
innlánum, svo að lausafjárstaða
innlánsstofnana geti batnað að
nýju. Á sama hátt verður að tak-
marka lánafyrirgreiðslu Seðla-
bankans við aukningu ráðstöfunar-
fjár hans, svo að ekki verði frekar
gengið á gjaldeyrissjóði þjóðarinn-
ar, sem nú eru að komast niður
fyrir öryggismörk. Mikilvægasta
forsenda jafnvægis á lánamarkaði
er sú, að ávöxtunarkjör fjármagns
séu í samræmi við verðlagsþróun.
Er því afar brýnt að draga úr verð-
bólgu á næstunni, svo að auðið verði
að komast hjá hækkun fjármagns-
kostnaðar.
Að lokum er rétt að benda á
nokkur atriði, er varða samhengi
þeirra þátta efnahagsmála, sem hér
hafa verið gerðir að umtalsefni, og
þess markmiðs að halda uppi nægi-
legri atvinnu við þjóðnýt störf.
Enginn vafi er á því, að háu at-
vinnustigi hefur verið haldið uppi
nú um nokkurt skeið fyrst og
fremst með miklum erlendum lán-
tökum til framkvæmda og rekstrar,
en hins vegar með peningaþenslu,
en hvort tveggja hefur stuðlað að
verðbólgu og viðskiptahalla.
Skuldasöfnun Islendinga gagnvart
umheiminum er nú hins vegar orðin
svo mikil, að háskalegt væri að
halda lengra áfram á þeirri braut.
Háu atvinnustigi verður því ekki
enn haldið uppi með þessum ráðum
nema um skamman tíma. Eigi að
tryggja sæmilegt öryggi í atvinnu-
málum framvegis, verður það að
hvíla á traustari stoðum, svo sem
sterkri samkeppnisaðstöðu og góð-
um rekstrarskilyrðum atvinnuveg-
anna og auknum innlendum sparn-
aði, en forsenda fyrir þessu hvoru
tveggja er, að rofinn verði sá víta-
hringur verðbólgu, sem þjóðin er
fjötruð við.
Naustið stækkar
MorKunblaðið/KÖE.
Veitingahúsiö Naust í Reykjavík hefur verið stækkað um helming með húsnæði Geirsbúðar, sem hefur vcrið
innréttað á sama hátt og sá veitingasalur, sem fyrir var. Með þessum breytingum hefur dansgólf hússins
stækkað. Einnig segir í frétt frá veitingahúsinu, að aðrar endurbætur hafi verið gerðar, m.a. hefur norðurgafl
hússins verið einangraður og loftið og á þá að vera úr sögunni, að fullkalt sé í veitingahúsinu í norðanveðrum. Á
myndinni eru Ómar Hallsson og Rut Ragnarsdóttir, veitingamenn Naustsins, og á bak við þau sér inn í
Geirsbúðarviðbótina.
HRINGIÐ OG VIÐ KOMUM OG HÖNNUM.
OPIÐ LAUGARDAGA kl. 9—4.
Armúla 20,
sími
84630 og 84635.
• FÖST VERÐTILBOÐ
MEÐ UPPSETNINGUM
• Margra ára reynsla, og
afgreiðslufrestur 4—5 viktír.
• Lituð eik eða Ijós fura.
• Greiðslufrestur allt
að 7 mánuðir.