Morgunblaðið - 06.11.1996, Blaðsíða 34

Morgunblaðið - 06.11.1996, Blaðsíða 34
34 MIÐVIKUDAGUR 6. NÓVEMBER 1996 MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ BRÍET HÉÐINSDÓTTIR + Bríet Héðins- dóttir, leikari og leikstjóri, fædd- ist í Reylqavík 14. október 1935. Hún lést á krabbameins- deild Landspítalans 26. október síðast- liðinn og fór útför hennar fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík 5. nóv- ember. „Ég þarf að tala við þig,“ sagði hún Bríet við mig. „Getum við ekki átt stund saman fljótlega." Við vorum stadd- ar við jarðarför sameiginlegrar vin- konu, — við vorum að kveðja hana Göggu Lund, á heitum júlídegi síðastliðið sumar. Daginn eftir hringdi ég til hennar og spurði hvort við ættum ekki að bregða okkur upp í Heiðmörk, með teppi og nesti, því veðrið væri svo gott. Þótti henni það góð hugmynd. Og þegar við vorum búnar að hreiðra um okkur í ljúfri laut, með birkiangan í vitum okkar, — hún búin að lofa því að gera ekki grín að smáborgaralega nestisboxinu mínu. — Þá sagði hún mér þessi dapurlegu tíðindi: Að hún væri dauðvona. Hún var nýbúin að fá þennan úrskurð frá læknum. Lungu hennar voru heltekin af meininu ógurlega sem við köllum krabba. „Auðvitað var mig farið að gruna að eitthvað alvarlegt væri á seyði,“ sagði hún. — „Þegar manneskja eins og ég er farin að sofa svona mikið og lengi — og vakna svo aft- ur alveg jafnþreytt, og þegar ég lagðist til svefns.“ Þegar hér var komið sögu, var undirrituð farin að skæla ofan í kaffibollann sinn. „Ekkert svona, Gunna!“ Sagði Bríet. „Mig langar að þið vinir mín- ir skemmtið mér, þessa daga sem ég á eftir, en það er allt útlit fyrir það, að ég þurfi að koma upp sál- gæslustofu, og taka að mér að hugga ykkur — Ég gæti sett aug- lýsingu í blöðin: Tek að mér að hugga vini og venslafólk, vegna yfirstandandandi veikinda minna. — Bríet Héðinsdóttir.“ Þannig hélt hún áfram. þar til vinkonan á tepp- inu var komin með delluhlátur og farin að reyna að troða í hana smurðu brauði, vitandi hve lítil matmanneskja Bríet alltaf var. Veik eða ekki veik, virtist hún ótilkvödd gleyma að borða. Súkkulaði, kók og sígarettur voru hennar aðalnær- ing, þegar hún var komin í hita og þunga vinnunnar við leikstjórn í leikhúsinu. Eftir fortölur fór hún nú áhuga- laust að borða laxasneiðina sem ýtt var að henni. „Ég er ekki hrædd við að deyja,“ sagði hún allt í einu alvarleg. „Ég hef alla tíð verið svo- .lítið hrædd við lífið, — en ég er ekki hrædd við að deyja.“ Svo fórum við að tala um Guð. — „Þessi Jesús þinn, Gunna,“ var hún alltaf vön að segja með sinni hlýlegu kímni. „Hvað segir hann við öllu þessu óréttlæti í heiminum?“ Engan vin hef ég átt, sem ég hef átt auðveldara með að tala við um trú mína. Hún sýndi skoðunum mínum virðingu, þótt ekki væri hún alltaf sammála. En á mikilvægum stundum hafði hún hringt og beðið mig að biðja fyrir einu eða öðru. Aldrei fyrir sjálfri sér, alltaf fyrir þeim sem hún elskaði, þegar þeir stóðu í ströngu. Þarna í sólvermdri Heiðmörkinni, reyndi ég enn einu sinni að útskýra fyrir henni, þá sannfæringu mína, að ef nokkur af þeim sem í kringum mig væri tilheyrði Guði og væri hans, þá væri það hún. Og trúnað okkar gömlu vinkvennanna þennan dag, mun ég ætíð geyma í hjarta mínu, því stundir sem slíkar getur Guð einn gefið. Þær eru dýr- mætari en perlur. Það var farið að kólna, sólin gældi enn við kinnar okkar en hafði nú misst ylinn notalega, enda var klukkan orðin sex. Svo við tókum að búa okkur til heimferðar, en ein- hverra hluta vegna, missti ég móðinn, sem ég var að tína saman dótið, og settist há- grátandi innanum brauðsneiðarnar. „Gunna, mundu hvað ég sagði þér, ég ætlast til að þið skemmtið mér, — hugsaðu bara um allt sem ég losna við, sem þú átt eftir að þurfa að lifa með.“ Sagði Bríet og hélt áfram uppör- vandi: „Ég losna nú við að hlusta á illgjarna gagnrýni um leikhús til dæmis. En aumingja þú, þú átt eft- ir að hlusta á margar. — Svona hættu nú að grenja og hjálpaðu mér að bijóta saman teppið.“ Og eins og svo oft áður var hún búin að koma mér til að hlæja. Við fórum síðan að ræða. í fullkomnu ábyrgðarleysi um þá gömlu yfirlýs- ingu hennar, að hún vildi að jarðar- förin sín hæfist á því að sungið yrði, „Það var einu sinni kerling" Og endaði á „Komdu og skoðaðu í kistuna mína.“ „Ætlarðu að hafa þetta svona?“ spurði ég. „Nei,“ sagði Bríet hlæj- andi. „En ég vil að presturinn segi: Hún bjó manni sínum ljótt heimili — því það er alveg satt — ég hef aldrei getað búið honum Steina það heimili sem hann átti skilið.“ Og nú fylltust augun hennar Bríetar af tárum. Og við keyrðum heim í þögn. Við vorum að hugsa um Steina manninn hennar og dæt- urnar þrjár, hér var eitthvað svo sárt að ekkert var hægt að gera, annað en að leyfa sér þann munað að gráta. Eg kveð þig, yndislega vinkona. Þín er sárt saknað. Enginn getur bætt okkur vinum þínum upp svo sáran missi sem fráfall þitt er. Þessi jörð er svo miklu fátækari án þín. Guðrún Ásmundsdóttir. „Þú verður aldrei leikkona ef þú getur ekki mætt á réttum tíma.“ Þessa áminningu fékk ég frá Bríeti þegar ég kom móð og másandi nið- ur að Tjörn snemma morguns vorið 1967. Æfíngin sem ég var orðin of sein á var sú fyrsta á leikritinu „Jakob eða uppeldið" eftir Ioenesco. Bríet var að stíga sín fýrstu skref sem leikstjóri og ég mín fyrstu sem leikkona. Það var tilraunaleikhúsið Gríma sem hafði fengið Bríeti til að leikstýra þessu skrítna og skemmtilega verki og Bríet veðjað á mig sem Róbertu, unga brúði með þrjú nef og fjórtán fingnjr. Ég hefði ekki orðið hissa þótt hún hefði rekið mig með skít og skömm, en það gerði hún ekki. Samstarf okkar varð ánægjulegt og ef ég man rétt þá fékk sýningin góða dóma. Það var ekki ónýtt fyr- ir unga leikkonu, nýskriðna úr leik- listarskóla, að fá tækifæri til að vinna með svo gáfaðri og gefandi listakonu. Við áttum oft eftir að vinna saman eftir „uppeldið“ í Grímu og alltaf urðu þau tímabil eftirminnileg. Það var aldrei logn- molla í kringum hana Bríeti. Það er með miklum trega sem Félag íslenskra leikara kveður Brí- eti Héðinsdóttur og þakkar það starf sem hún innti af hendi fyrir félag sitt. Það sér nú á bak litríkum og ötulum félagsmanni og mikilli listakonu. Hún var meðstjómandi félagsins frá 1975-78 og undanfar- ið eitt og hálft ár hefur hún verið potturinn og pannan í ritnefnd fé- lagsins vegna útgáfu tímaritsins „Leikhúsmál". Henni fannst það menningarauki fyrir félagið að gefa út tímarit, þar sem leiklistarfólk hefði vettvang til skoðanaskipta. Og þegar Bríet var annars vegar, þá var ekki setið við orðin tóm, heldur hlutunum komið í fram- kvæmd. Félag íslenskra leikara vottar Þorsteini Þorsteinssyni eiginmanni Bríetar, dætrum, móður og öðmm ástvinum djúpa samúð. Edda Þórarinsdóttir, formaður FIL. Ég fór frá íslandi 14. ágúst. Daginn áður kvaddi ég Bríeti vin- konu mína. Því æðruleysi sem hún sýndi þá mun ég ekki gleyma. Hún mætti vitneskjunni um veikindi sín með þeim heilsteypta manndómi sem var alla tíð hennar aðal. Hún þekkti sjálfa sig og henni var aldr- ei sama um aðra svo henni fannst þetta þungbærast vegna fjölskyld- unnar sinnar. Það var aldrei nein lognmolla í kringum Bríeti. Ef maður kom til hennar í sínu hversdagslega lá- deyðugeði, gat maður verið viss um að mæta ekki sömu geðdeyfðinni þar á bæ. Bríet var alltaf logandi, af áhuga fyrir einhverri nýrri hug- mynd, af heilagri réttlátri reiði yfir einhveiju misrétti, af gleði, af með- aumkvun, af tilhlökkun eða af dugnaði sem var ódrepandi þegar hún var á annað borð komin í gang. Þegar fólk sem þekkti til hennar úr fjarska ræddi um þessa miklu listakonu okkar var það gjarnan það fyrsta sem var nefnt, sem hennar aðal, hvað hún Bríet væri greind. Vissulega var það rétt, það gnei- staði af henni hvar sem hún fór, en hennar vörumerki var þó alla tíð hve hún var hrein og bein og sam- kvæm sjálfri sér og trú sinni rétt- lætiskennd. Ef maður var sammála henni átti maður fullt í fangi með að fylgja henni eftir, því hún var ein af þeim sem lét ekki bara orðin tala, ef maður var ósammála henni gat maður ekki annað en virt skoð- anir hennar. Það skipti mig alltaf máli hvað Bríeti fannst um það sem ég var að gera. Bríet sýndi sérlega óeigingjarnan áhuga á því sem ungir listamenn voru að fást við, sérstaklega ef fólk var að reyna að skrifa fyrir leikhús- ið. Ég fékk að njóta stuðnings henn- ar og Þorsteins ómælt þegar ég var að byija að setja saman texta fyrir leikhús. Það var stuðningur sem ég hef búið að alla tíð síðan. Það munu aðrir skrifa um það stóra hlutverk sem Bríet hefur leik- ið í leiklistarsögunni síðustu fjörutíu árin, bæði sem leikkona, leikstjóri og höfundur. Fyrir nokkrum árum tók hún sig til og skrifaði stórmerki- lega bók um ömmu sína Bríeti Bjarnhéðinsdóttur. Hún skilur sjálf eftir sig efnivið í aðra jafn merki- lega bók. Þorsteinn og Steinunn Ólína, Laufey og Guðrúnarnar báðar. Við Sirrý vottum ykkur okkar dýpstu samúð. Við höfum öll misst mikið. Kjartan Ragnarsson. Lilja pilja pappírskilja — hvað þessi orð hljómuðu fallega. Hvað mér hlýnaði alltaf um hjartarætur þegar ég heyrði þessa kveðju eða þetta ávarp, fullt af glettni, stund- um þreytu, alvöru, stríðni en alltaf væntumþykju. Hvað orð geta verið uppörvandi og hvað uppnefni geta verið falleg, jafnvel svo falleg að þau verða vanabindandi. Að minnsta kosti síðastliðin 16 ár hef ég hlustað eftir þessum orðum á hveijum einasta degi mínum í leik- húsinu. „Halló Lilja pilja pappírs- kilja“ og litið við og mætt brosandi andliti Bríetar. Nú er þessi rödd þögnuð og ég mun aldrei framar vera ávörpuð á jafn virðulegan og fallegan hátt. Ég kynntist Bríeti á erfiðum kafla í lífi mínu. Við vorum að vinna að leikritinu „Snjór“, eftir Kjartan Ragnarsson, þar var við- fangsefnið það sem vofir yfir okkur öllum og er ástæðan til þessara skrifa: Dauðinn. Þá var i tísku að kryfja viðfangsefni leikverksins til mergjar og ég átti að úttala mig um dauðann. En ég gat ekkert sagt, flissaði bara í vandræðum mínum eins og smástelpa. Ég var ung og óreynd að leika annað af tveim kvenhlutverkum á móti Bríeti og hún í aðalhlutverki. Ég var ófær um að úttala mig um dauðann þrátt fyrir að ég hefði misst föður minn sem ég tregaði sárt og uppi á sjúkrahúsi lá móðir mín og barðist við krabbamein. Hvað gat ég sagt? Ég var svo vitlaus að ég bara fliss- aði. Það var þá sem ég held að Bríet hafi ákveðið að taka mig und- ir sinn vemdarvæng. Hún réð mig sem aðstoðarmann sinn við upp- setningu á íslandsklukkunni í Nem- endaleikhúsinu sem var mjög rómuð sýning og vakti geysilega athygli og var það ómetanlegt fyrir mig að fá að fylgjast með Bríeti í þeirri vinnu — og áfram héldum við að vinna saman — tala saman — hlæja saman - í hinum ýmsu verkefnum — og Bríet hélt áfram að miðla mér af reynslu sinni og þekkingu. Eitt sinn hringdi hún: „Lilja, viltu leika Höllu hjá mér í vetur?“ — Þögn — „Hva viltu það eða viltu það ekki?“ — „Jú, auðvitað vil ég það“ — „Gott, þá segjum við það.“ — Búið. Samvinnan var dásamleg og alveg stórkostlega gefandi, hlýja, væntumþykja og virðing fyrir vinnunni, sköpuninni. Og þú hugs- aðir ekki bara um velferð mína. Þú lést þér líka annt um dætur mínar, sást m.a. um að sú eldri fengi góð- an píanókennara og þegar sú yngri, þá sex ára gömul, þurfti að liggja heima fótbrotin í sex vikur, tók þig sárt að vita af henni einni. Og er ég kom heim af æfingu lá sú stutta uppi í rúmi með löppina upp í loft og söng hástöfum. Hafði þá ekki Bríet komið í heimsókn, lesið og sungið fýrir hana og skilið eftir 160 sögur og ljóð til að stytta henni stundir í legunni. Svona varstu, áhugi þinn og umhyggja fyrir vel- ferð fólksins í landinu og heiminum öllum. Áhyggjur þínar af þeirri mynd sem við okkur blasir, nú í byijun nýrrar aldar, vakti ugg í bijósti þér og ótta um að engin trú- arbrögð, engar réttlætishugsjónir, megni að sigrast á því sem virðist stefna bæði sjálfum okkur og jörð- inni i glötun: „Áskapaðri grimmd okkar og græðgi.“ Um áhyggjur þessar talaðir þú m.a. um í ávarpi þínu á leikhúsdaginn og spurðir um erindi okkar í leikhús almennt. Við förum til að heyra og sjá fólk segja fóiki af fólki, um það snýst list leik- hússins. Af hvaða toga er sú skemmtun sprottin? Spurðir þú og svaraðir seinna: Hún er samúðin. Og það var einmitt samúðin, samlíð- unin, samsömunin með öðru fólki sem gerði þig að þeim stórkostlega listamanni sem þú varst. Dæmi um það er hvernig þér tókst að leiða okkur áhorfendur að nýrri sýn á “Hið ljósa man“, þar sem þú leyfð- ir okkur að fylgja sögu Snæfríðar sem gerði það að verkum að fyrir mér opnaðist nýr heimur, ný saga íslands og klukkunnar og minnti mig enn á hve skáldið skrifar snilld- arlegar kvenpersónur af svo miklu næmi, ást og virðingu. Ég vildi óska að þessi sýning væri til á bandi svo komandi kynslóðir mættu sjá og heyra. Þú sérð á þessari kveðju, elsku Bríet mín, að þrátt fyrir orð mín þegar þú af æðruleysi og yfirveg- aðri ró ræddir um dauðann og lífið seinast er við ræddum saman, og ég játti öllu, fínnst mér þú samt fara alltof snemma. Ekki bara vegna fjölskyldu þinnar og vina he'dur vegna þess að íslenskt leik- hús verður fátækara. Þú varst í essinu þínu sem leikari. Full af gleði og ákafa, tilbúin að gefa og miðla og skapa. Enn jafn ástfangin af leikhúsinu og af Þorsteini. Varðst alltaf eins og feimin smástelpa þeg- ar hann bar á góma, á bökkum Rínar, á hótelherbergi á Húsavík eða bara í vinnunni. „Það er margt sem myrkrið veit.“ Skrifaðir þú á myndina sem þú gafst mér til minnis um hlutverk Höllu. Og í visku myrkursins kvikn- ar ljósið sem lýsir dætrum þínum og barnabömum og Þorsteini og Guðrúnu, móður þinni, veg samlíð- unarinnar sem þú sýndir okkur í Hinu ljósa mani, Snæfríði íslands- sól. „Samlíðunin er uppspretta hins æðsta saungs.“ Megi ljósið sem þú lýstir okkur á ferð Snæfríðar lýsa okkur áfram veg samúðarinnar. Þannig höldum við uppi merki kon- unnar og listamannsins Bríetar Héðinsdóttur. Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir. Mín dýrmæta vinkona Bríet er dáin. Og sólskinsbarnið sem hún var, þá valdi hún til þess fyrsta dag vetrar. Snemma í vor var ég með Bríeti og Göggu Lund og Gagga sagði: „Bríet, mér þykir svo vænt um þig“ og Bríet svaraði: „Mér þykir líka svo vænt um þig, Gagga“. Nú eru þær e.t.v. saman einhvers staðar í eilífðinni og þá líkast til hvorug svartklædd lengur. Bríeti, sem hafði svo gaman af að ferðast, óska ég góðrar ferðar í þessari hinstu ferð. Kannski fer hún um regnbogana hvíta og marglita, hver veit. Minningarnar koma til mín, góð- ar og gefandi. Þannig var samstarf okkar og þannig var vinátta okkar. Hún var mér gleðigjafi, hún kunni að hlusta á vitleysuna úr mér og fannst hún engin vitleysa. Allt ræddum við: þjóð og heim í vanda, eilífðarmálin. I hennar eigin dauðastríði fann Bríet til með þeim sem leið illa eða áttu undir högg að sækja. Frá fyrstu stundu tamdi hún sér sátt við hlutskipti sitt og taldi kjark í þá sem henni þótti vænt um: „Það er ekkert sorglegt þegar fullorðið fólk deyr, það er bara sorglegt þeg- ar ungt fólk og börn deyja,“ sagði hún. Ég veit að ég mun um ókomin ár halda áfram að ræða málin við Bríeti, þó að ég muni eingöngu finna hennar sterku návist í hjart- anu. Messíana Tómasdóttlr. Á undraskömmum tíma hefur hinn slyngi sláttumaður gert óbæt- anlegan usla á akri Þalíu. Fyrir þremur mánuðum sáum við á bak einu helsta leikskáldi okkar, Guð- mundi Steinssyni, og á liðnum mán- uði hafa tveir af atkvæðamestu leik- urum landsins, Helgi Skúlason og Bríet Héðinsdóttir, lotið í gras. Við óvænt fráfall Bríetar á besta aldri er stórt skarð fyrir skildi í ís- lensku menningarlífi. Hún var ekki einasta meðal okkar albestu leik- ara, jafnt á leiksviði sem í kvik- myndum, útvarpi og sjónvarpi, heldur líka einhver snjallasti leik- stjóri landsins, jafnvíg á leikrit og óperur. Hún var um nokkurt árabil kennari við Leiklistarskóla Þjóðleik- hússins og síðar Leiklistarskóla ís- lands og átti sinn ósmáa þátt í að móta og mennta leikaraefni sem síðar gerðu garðinn frægan. Fé- lagsmál leikara lét hún einnig til sín taka og sat í stjórn Félags ís- lenskra leikara 1975-77. Ritstörf voru annað höfuðáhuga- mál Bríetar. Hún hafði víðræmt lag á að semja leikgerðir skáldsagna og eldri leikrita og gera þær þann- ig úr garði að verulega athygli vakti. Sömuleiðis þýddi hún fjöl- mörg leikrit fyrir Ríkisútvarpið, Þjóðleikhúsið og Leikfélag Reykja- víkur og vann að textaþýðingum fyrir sjónvarp. Bók hennar um nöfnu sína og ömmu, þann stór- merka og umdeilda frumheija Brí- eti Bjarnhéðinsdóttur, Strá í hreiðr- ið (1988), sem er í senn bréfabók og ævisaga, er veigamikill og óbrot- gjarn minnisvarði um hérlenda jafn- réttisbaráttu frammyfir 1930. Síð- ast en ekki síst ber að geta um snilldarþýðingu Bríetar á skáld- verkinu Mefistó — sögu af lista- mannsferli eftir Klaus Mann, ein- hverri merkilegustu og mögnuðustu heimildarskáldsögu aldarinnar. Þá bók færði hún mér í jólagjöf á liðnu ári með tileinkun sem híýjaði mér um hjartaræturnar: „Til Sigurðar A. sem oft hefur opnað munninn þegar aðrir þögðu — þökk fyrir það, og lestu nú hratt. Bríet.“ ■i I u G i c i c i i i i i i i < < < I i <

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.