Morgunblaðið - 21.06.2000, Qupperneq 24
24 MIÐVIKUDAGUR 21. JÚNÍ 2000
MORGUNBLAÐIÐ
ERLENT
Samþykktir leiðtoga ESB um stefnu sambandsins í öryggis- og varnarmálum
Tyrkir lýsa
andstöðu við
tillögurnar
Santa Maria da Feira. Reuters, AP, AFP.
TYRKNESK stjórnvöld lýstu því
yfir í gær, að þau væru mótfallin
hvers konar „sjálfvirkri notkun“
Evrópusambandsins (ESB) á bún-
aði Atlantshafsbandalagsins
(NATO). Voru Tyrkir með þessu
að bregðast við lokasamþykktum
leiðtogafundar ESB í Feira í
Portúgal um það hvernig ákvörð-
unum skuli háttað þegar ESB vill -
í nafni nýrrar evrópskrar varnar-
málastefnu - grípa til aðgerða á
varnarsviðinu (s.s. að stilla til frið-
ar í nærlægu landi) á eigin for-
sendum, án beinnar aðildar NATO.
Tyrkland er eins og ísland aðili
að NATO en ekki að ESB. Ellefu
af fimmtán aðildarríkjum ESB eru
aftur á móti í NATO. „Okkur þykir
óhugsandi að fallast á að búnaður
NATO skuli sjálfvirkt notaður af
hálfu Evrópusambandsins," segir í
skriflegri yfírlýsingu frá tyrkneska
utanríkisráðuneytinu. Sabahhattin
Cakmakoglu, varnarmálaráðherra
Tyrklands, hvatti ESB-leiðtogana
til að endurskoða samþykkt sína og
minnti þá á, að Tyrkland gæti beitt
neitunarvaldi sem NATO-ríki, ef í
nauðirnar ræki. Evrópsku NATO-
ríkjunum utan ESB, sem eru auk
Tyrklands og íslands Noregur,
Pólland, Tékkland og Ungverja-
land, er mikið í mun að möguleikar
þeirra til að hafa áhrif á ákvarðanir
í varnarmálum álfunnar rýrni ekki
við að ESB taki upp eigin varnar-
málastefnu. Fram að þessu hefur
Vestur-Evrópusambandið (VES)
verið sá vettvangur, sem tryggt
hefur samráð Evrópuríkjanna í
varnarmálum, en ákveðið hefur
verið að sameina VES ESB.
Á mánudaginn samþykktu leið-
togar ESB-ríkjanna að taka til um-
ræðu tillögur sem kveða á um
næstu skref í mótun sjálfstæðrar
varnarmálastefnu sambandsins. í
viðauka við samþykkt leiðtoganna
er sérstaklega kveðið á um hvernig
komið skuli til móts við óskir
NATO-ríkja utan ESB um að fá að
vera með í ráðum ef til þess kemur
að ESB vilji grípa til aðgerða þar
sem það þyrfti að fá að nýta sér
búnað NATO að einhverju leyti. Er
gert ráð fyrir því, að reglulegt
samráð verði haft við NATO-ríkin
utan ESB um framkvæmd sameig-
inlegrar öryggis- og varnarmála-
stefnu sambandsins. En Tyrkir
segja að það sem ESB heitir NA-
TO-ríkjunum utan sambandsins sé
alls ekki fullnægjandi og væri til
þess fallið að skapa klofning í röð-
um Atlantshafsbandalagsins.
Ákvarðanir teknar
um viðbragðssveitir
ESB-ríkin hyggjast, óháð því
hvernig samráðinu við NATO-ríkin
verður háttað, byggja upp sérsveit-
ir með samtals um 60.000 her-
mönnum, sem á að vera hægt að
AP
Leiðtogar Evrópusambandsins stilltu sér upp í gær svo taka mætti af þeim „Ijölskyldumynd" sem venja er að
taka á fundum sem þessum. Fimmti frá vinstri í fremri röð ser forsætisráðherra Portúgals, Antonio Guterres.
Hann er sá eini leiðtoganna sem er með trefil landsliðs þjóðar sinnar í knattspyrnu vafínn um hálsinn. Tilefnið
er vafalaust Evrópukeppnin í knattspyrnu sem nú stendur yfír.
senda með skömmum fyrirvara á
vettvang, svo sem til að stilla til
friðar eða sinna friðargæzluverk-
efnum á nærsvæði ESB. Auk þess
var, að tillögu Javier Solana, æðsta
talsmanns ESB í utanríkis- og ör-
yggismálum, ákveðið í Feira að
ESB-ríkin byggi upp um 5000
manna viðbragðssveitir lögreglu,
sem hægt sé að senda á vettvang
til lögreglustarfa með skömmum
fyrirvara. 1000 lögreglumenn eiga
samkvæmt tillögunum að vera til-
búnir til slíkra verkefna með
minna en 30 daga fyrirvara.
Reynslan frá Júgóslavíu þykir hafa
sýnt fram á þörfina á þessu.
Annars var eitt helzta úrlausn-
arefni leiðtogafundarins að ákveða
aðgerðaáætlun um róttæka upp-
stokkun á stofnanakerfí sambands-
ins, með það fyrir augum að búa
það í stakk fyrir fjölgun aðildar-
ríkja um allt að tólf ríki í Mið- og
Austur-Evrópu á næstu tíu árum.
Leiðtogarnir urðu ásáttir um að
bæta við dagskrá ríkjaráðstefn-
unnar - sem í gangi hefur verið frá
því í febrúar og hefur það hlutverk
að fjalla um kerfisumbæturnar sér-
staklega - ákvæðum um sveigjan-
legan samruna, sem gera eiga að-
ildarríkjum auðveldara um vik að
ganga lengra í samrunaátt á af-
mörkuðum sviðum en önnur aðild-
arríki eru tilbúin til að gera, fyrst
um sinn a.m.k.
En leiðtogarnir hafa ekki enn
komið sér saman um hvort einstök
aðildarríki skuli hafa vald til að
hindra slíka „eflda samvinnu" með
því að beita neitunarvaldi, en bæði
Bretum og Svíum er í mun að ekki
verði hróflað við þessu valdi aðild-
arríkjanna.
Mikill áhugi á við-
skiptum við N-Kóreu
Heldur farið að rofa til í efnahagsmálunum
Seoul, Genf, Washinglon. AP, AFP, Reuters
PURRKAR í Norður-Kóreu hafa
ekki mælst meiri í 50 ár og ósk-
aði Choi Su Hon, aðstoðarutan-
ríkisráðherra landsins, í gær eft-
ir 250 milljóna dollara aðstoð,
eða um 18,8 milljörðum króna, til
að gæða mætti landbúnað ríkis-
ins nýju lífí. Jákvæð þróun
mældist þó í n-kóreskum efna-
hagsmálum á síðasta ári og telja
sérfræðingar í Suður-Kóreu
áframhald verða á því eftir að
Bandaríkin tilkynntu á mánudag
að viðskiptaþvingunum gegn
landinu hefði verið aflétt.
„Það er raunhæft að búast við
því að það versta sé afstaðið,“
sagði Park Suk-sam, einn sér-
fræðinga Seðlabanka Kóreu, í
Seoul í gær og kvaðst telja líkur
á áframhaldandi hagvexti í
norðri.
Hagvöxtur síðasta árs í Norð-
ur-Kóreu mældist 6,2% og er það
í fyrsta skipti frá því á níunda
áratugnum sem jákvæð þróun á
sér stað. Norður-Kórea hefur
undanfarin ár talist með fátæk-
ustu ríkjum heims. Ríkisstjórnin
hefur þurft að reiða sig á erlenda
aðstoð til að fæða þegnana en
hungursneyð og sjúkdómar hafa
fellt hundruð þúsunda Norður-
Kóreumanna.
Að mati talsmanna Seðlabanka
Kóreu mun sú ákvörðun banda-
rísku ríkisstjórnarinnar að draga
úr viðskiptaþvingunum hafa já-
kvæð áhrif á efnahag grannríkis-
ins í norðri. Það var á mánudag
að Bandaríkin tilkynntu að hálfr-
ar aldar viðskiptabanni gagnvart
Norður-Kóreu væri aflétt.
Sú tilkynning kom einungis
viku eftir að sögulegum leiðtoga-
fundi Norður- og Suður-Kóreu
lauk, en Bandaríkin höfðu í fyrra
heitið því að létta viðskiptaþving-
unum léti Norður-Kórea af til-
raunum með langdræg flug-
skeyti.
Bandarískir hagfræðingar spá
því þó að það taki langan tíma
fyrir viðskiptatengsl þjóðanna að
þróast vegna áratuga langrar
einangrunar Norður-Kóreu.
„Bandarísk fyrirtæki munu sýna
þessu áhuga en þetta mun ekki
breytast á einni nóttu. Efna-
hagsástandið í Norður-Kóreu er
með því versta sem gerist og
landið hefur lengi verið lokað
gagnvart umheiminum," sagði
Franklin Vargo, yfírmaður al-
þjóða efnahagsmála hjá samtök-
um bandarískra framleiðenda
(NAM).
Segja afnám viðskipta-
þvingana skref í rétta átt
Með afnámi viðskiptaþvinga-
nanna leyfist Norður-Kóreu-
mönnum að flytja hráefni og vör-
ur til Bandaríkjanna og
bandarískum fyrirtækjum er að
sama skapi heimilað að selja sína
vöru til Norður-Kóreu, sé ekki
um vopn að ræða. Þá er heimilt
að hefja áætlunarflug og skipa-
ferðir milli landanna sem og
bankaviðskipti.
Suður-Kóreumenn fögnuðu því
í gær að Bandaríkjamenn hefðu
dregið úr viðskiptaþvingunum
sínum og sagði talsmaður utan-
ríkisráðuneytis Suður-Kóreu af-
námið skref í rétta átt. Þetta
mundi hvetja enn frekar til
bættra samskipta Kóreuríkj-
anna. Suður-kóresk dagblöð voru
þá ekki síður jákvæð í umfjöllun
sinni. Afnám viðskiptaþvinga-
nanna var sagt stuðla að því að
friður héldist á Kóreuskaganum
og hvöttu blöðin Norður-Kóreu-
menn til að bregðast vel við til-
kynningu Bandaríkjamanna.
Sendinefnd bandarískra
kaupsýslumanna hefur hug á að
heimsækja Norður Kóreu á
næstunni til að kynna sér mögu-
leg viðskiptatengsl ríkjanna og
er nú beðið þess að leyfi berist
fyrir heimsókninni frá Norður-
Kóreu. Vitað er, að a.m.k. sex
bandarísk stórfyrirtæki hafa
áhuga á að taka þátt í þeirri
heimsókn, en auk þess hefur
Verslunarráð Evrópu einnig uppi
áætlanir um að heimsækja Norð-
ur-Kóreu.
Þá segja talsmenn fyrirtækja í
Suður-Kóreu fyrirtæki á Bret-
landi, Ástraliu, Austuríki og
Taívan þegar hafa lýst yfir
áhuga á að taka þátt í viðskipta-
verkefnum í Norður-Kóreu.
Alþjóðleg rannsókn hafín á dauða
ólöglegra innflytjenda í Dover
Flutningafyrir-
tækið óþekkt
Dover, Amsterdam, Madrfd. Reuters.
HOLLENZKIR rannsóknarlög-
reglumenn komu í gær til liðs við
brezka starfsbræður sína í leitinni
að þeim sem sendu 58 ólöglega inn-
flytjendur út í opinn dauðann í kæf-
andi heitum flutningavagni sl.
sunnudag. Talið er að fórnarlömbin
hafi öll verið kínversk.
Lögreglumenn vildu ekkert segja
um orðróm þess efnis að kínversk
glæpasamtök hafi staðið að flutn-
ingnum á fólkinu. Lík þess fundust
í vagni flutningabfls sem kom til
hafnarborgarinnar Dover á suðurs-
trönd Englands frá Zeebrugge í
Belgíu. Tveir fundust lifandi í vagn-
inum og vonazt lögreglumenn til
þess að geta fengið vísbendingar
frá þeim, sem og frá bflstjóra flutn-
ingabílsins, sem var handtekinn.
Slökkt var á kælikerfi flutninga-
vagnsins með þeim afleiðingum að
hann varð sem bakarofn í steikjandi
hitanum sem var í Norður-Evrópu
og Suður-Englandi um helgina.
Brezka blaðið Daily Mail sagði að
mennirnir tveir, sem lifðu af, hefðu
sagt túlki að fólkið í vagninum hefði
hrópað í örvæntingu á hjálp og
reynt að brjóta niður málmveggi
vagnsins.
Nýtt fyrirtæki
Helztu samtök flutningabifreiða-
stjóra í Hollandi greindu frá því í
gær, að þau hefðu aldrei heyrt
minnst á fyrirtækið sem skráð væri
sem eigandi flutningabílsins sem
líkin fundust í á sunnudagskvöldið.
Sagði fulltrúi samtakanna að fyrir-
tækið hefði verið stofnað „fyrir ör-
fáum dögurn".
Lögregla á Spáni fann á mánu-
daginn 36 ólöglega innflytjendur í
flutningabíl í Malaga-héraði. Fólkið
var frá Marokkó og Alsír og hafði
ekki fengið neitt að borða í fjóra
daga og haft lítið til drykkjar. Sumt
var í votum fötum, sem þykir benda
til að það hafi komið yfir Gíbraltar-
sund. Talið er að á fyrstu fjórum
mánuðum ársins hafi um 120 manns
drukknað við að reyna að komast
yfir sundið frá Afríku til Evrópu.
Boða hert viðurlög
Brezkir og evrópskir stjórnmála-
leiðtogar eru þrumu lostnir vegna
málsins sem upp kom í Dover, og
heita því að skorin verði upp herör í
baráttunni gegn smygli á fólki og
aðhörð viðurlög verði sett við slíkri
starfsemi. Kínversk stjórnvöld
lýstu skelfingu sinni og hvöttu til
alþjóðlegs átaks gegn ólöglegum
innflytjendum.
Um 400 Kínverjar sækja um hæli
í Bretlandi í hverjum mánuði, en
þar eru nú um 200 þúsund Kínverj-
ar búsettir. Lögmaðurinn Wahplow
Tan, sem býr í Bretlandi, sagði í
viðtali við brezka ríkissjónvarpið,
BBC, að fólk hefði haft samband við
sig og sagst hafa átt ættingja í
flutningavagninum sem kom til
Dover á sunnudagskvöld. Vakti
þetta grun um að kínversk glæpa-
samtök hefðu átt hlut að máli.