Skírnir - 01.12.1914, Page 26
:362
Hræðan.
hann. »Þú yirðir mér til vorkunnar, það er svo óvana-
legt að svona vel fari um mann«.
Eg stóð upp og fór að ganga um gólf. Mér var al-
veg nóg boðið hvað maðurinn var orðinn aumur. Eg sá
háfgert eftir því að hafa verið að reyna að koma lífi i
þetta skrifli, og vorkenna honum.
Hann hallaði sér aftur á bak í stólnum og horfði á
mig.
»Eg segi þér það satt«, sagði hann loks, »að mér er
alveg sama hvernig það veltur alt saman«.
»Eg þykist sjá það«, sagði eg.
»Það er satt sem eg sagði þér, að eg kenni, en ekki
;lifi eg á því. Eg fæ aldrei neitt fyrir það — eða sjald-
nast. Til mín koma engir nema þeir, sem ekki geta borg-
að. Og hvernig ætti eg að taka hart á því, eða að vera
að krefja, eg«, — hann brosti ofurlítið. Það var fyrsti
svipur af fyrra Þorláki, sem eg sá eftir að hann kom inn.
»Nei, mér er alveg sama hvernig það veltur alt saman«.
Eg settist niður aftur. Meðaumkunin var nú aftur
'Vöknuð hjá mér, meiri en áður.
»Þorlákur«, sagði eg, svo blíðlega sem eg gat. »Það
er hörmung að sjá þig svona gereyðilagðan. Heldurðu að
það sé nú alveg óhugsandi að þú getir hert þig upp og
rétt við úr þessari dæmalausu eymd. Eg trúi því varla
að það sé ekki sá maður eftir i þér af öllu þvi, sem þú
hafðir áður. Heldurðu að það sé ómögulegt, ef þú aðeins
tækir á öllu þvi sem þú átt eftir? Viltu ekki reyna það?«
»G-óði Doddi, vertu nú ekki að þessu«, sagði Þorlák-
ur, »það er alveg þýðingarlaust, núna«. Hann hallaði sér
áfram, og kom við handlegginn á mér. »En gerðu nú
eitt fyrir mig. Gefðu mér einn dropa, ef þú átt hann!
Þú hefir altaf verið svo góður, Doddi minn, og aldrei neit-
að mér alveg um hjálp, þegar eg hef flúið til þín. Eg
þarf að fá dropa, og ef þú gefur mér hann ekki, þá hætti
•eg ekki fyr en eg fæ einhversstaðar 25 aura — eða dropa«.
Hann horfði á mig, sljóum, auðmjúkum bænaraugum;
•eg gat ekki orðið reiður. Eg átti hálfa flösku af Whisky,