Skírnir - 01.12.1914, Síða 45
Bertha v. Suttner.
381
hún tilbeðin eins og drotning í dansleikum og kærastinn
sendi henni hverskonar skraut og dýrgripi. Svona leið
ein vika. Þá vildi svo til eitt augnablik, að hún var ein
í stofu hjá brúðgumanum tilvonandi, og varð honum þá
á að kyssa hana í fyrsta sinn — og það beint á munninn.
Hún rak upp hátt hljóð af viðbjóð og flýði — og daginn
eftir sendi hún honum aftur allar gjafirnar og rifti heiti
sinu við hann, þrátt fyrir mótmæli móður sinnar og ætt-
ingja.
Og nú byrjar Bertha v. Kinsky fyrir alvöru að búa
sig undir að geta sjálf séð sér farborða. Hún lærir ensku,
frönsku og ítölsku til hlítar. Hún les allar helztu bók-
mentir Evrópuþjóðanna. Hún les sögu, efnafræði, mann-
fræði, stjörnufræði -—• alt sem hún getur höndunum undir
komist — en þó einkum og sér í lagi heimspeki, meira
að segja jafn-strembna heimspekinga og Kant. Og þrátt
fyrir allan þennan lestur er þó aðalstarf hennar að stunda
söng og hljóðfæraslátt. Hún hefir óvenju fallega söngrödd,
en þjáist af óskiljanlegum ótta í hvert skifti sem hún á
að syngja opinberlega. Svona líður hvert árið á fætur
öðru, unz hún er 28 ára að aldri. Þá kynnist hún prins
Wittgenstein; hann var mjög mikill söngsnillingur, þau
trúlofast, en hann deyr skömmu síðar, á ferð til Ameríku,
þar sem hann ætlaði að syngja í ýmsum borgum. Bertha
syrgði hann ákaft um tíma, en segir þó sjálf, að ástin hafi
ekki verið búin að festa djúpar rætur i hjarta sínu.
En nú var Bertha v. Kinsky orðin 30 ára, og nú var
henni nauðugur einn kostur að fara að vinna fyrir sér.
Eignir móður hennar voru að þrotum komnar, og ekkju-
styrkur hennar var of lítill fyrir þær báðar að lifa af.
Enn þá vantaði talsvert á að hún gæti komist að góðum
leikhúsum sem söngkona, og hún sá þvi ráðlegast að sleppa
öllum vonum í þá átt, og réðist sem kenslukona til bar-
óns í Vín að nafni Suttner. Átti hún að kenna 4 gjaf-
vaxta dætrum hans. Þetta varð henni til hins mesta láns.
Systurnar fjórar og hún bundu með sér órjúfandi vin-