Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1943, Blaðsíða 146
146
endurskoða og leiðrétta nöfn á uppdráttunum, og væri að mestu
leyti búið að lagfæra á nýjustu útgáfum uppdráttanna það, sem rangt
hefði verið á hinum fyrstu. — Að því, er snerti byggðir, sem nú væru
að fara í eyði, var formaður á sama máli og Benedikt, og kvað mjög
æskilegt, að alþingi og stjórn beinlínis hlutuðust til um það, að þar
færi fram örnefnasöfnun, ef menn fengjust til að vinna að henni,
menn, sem væru færir um að gjöra það á æskilegan hátt.
Jón Jóhannesson benti á, að þegar kunnugir menn söfnuðu örnefn-
um, hætti þeim við, þegar um hversdagsleg nöfn væri að ræða, að
gleyma að geta um og gera grein fyrir landslagi, til skýringar slíkum
nöfnum, en þó væri nauðsynlegt að gjöra það, vegna þess, að mál-
venja væri ekki alstaðar hin sama, þegar um landslagstilbrigði væri
að ræða. Það mætti telja líklegt, að ókunnugir menn kæmust fremur
fram hjá þeirri hættu, menn, sem ekki þyrftu að láta neina sérstaka
málvenju villa sér sýn. Taldi ræðumaður, að heppilegast myndi, að
fræðimenn ynnu að örnefnasöfnuninni, enda myndi enginn hörgull
vera á góðum íslenzkum fræðimönnum, sem gætu unnið það starf,
ef fé fengist til að greiða þeim fyrir það.
Þá minntist formaður nokkuð á fornleifalögin og frumvarp, er nú
liggur fyrir alþingi, um verndun sögustaða og náttúrufriðun. Taldi
hann þetta mjög þarflegt frumvarp og líklegt til góðs árangurs. Ættu
félagsmenn að hafa vakandi auga á þessu máli og benda á staði, sem
vernda þyrfti, áður en það yrði um seinan; nú þegar væri búið að
spilla mörgu fyrir hugsunarleysi og vöntun á verndarlöggjöf, bæði
sögustöðum og stöðum, sem sérkennilegir væru frá náttúrunnar hendi.
Sigurður Þórarinsson tók í sama streng og nefndi ýmsa staði, sem
þegar væri búið að skemma, eða lægi við borð, að gert yrði, ef ekki
yrði tekið í taumana.
Vigfús Guðmundsson kvaðst vilja víkja nokkuð að örnefnunum
aftur og minntist síðan á ýmis örnefni, sem getið er í fornum ritum,
en nú eru týnd, ekki notuð lengur á neinum stöðum, sem þau hefðu
fyrrum verið á. Sagði hann, að hann vildi, að allt yrði gert, sem unnt
yrði, til þess að finna aftur þá staði, sem þau ættu við. Nefndi hann
allmörg dæmi um örnefni, sem enginn vissi nú með vissu, hvar stað-
setja ætti.
Formaður tók undir þetta með Vigfúsi og nefndi nokkur fleiri
dæmi um slík örnefni, sem óvíst væri um nú, við hvaða staði átt hefðu.
Fleira var ekki tekið fyrir, og sleit formaður fundi.