Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1984, Blaðsíða 45
ELSA E. GUÐJÓNSSON
ÍSLENSKUR BRÚÐARBÚNINGUR í
ENSKU SAFNI
i
Sumarið 1809 kom til íslands ungur enskur grasafræðingur, William
Jackson Hooker að nafni. Var ætlun hans að skoða landið og gera hér
náttúrufræðilegar athuganir. Forlögin höguðu því svo, að hann varð
samskipa bæði út hingað og utan aftur Jörgen Jiirgensen, sem nefndur
hefur verið Jörundur hundadagakonungur og vart mun þurfa að kynna
nánar.
William Hooker dvaldist um tveggja mánaða skeið á íslandi. Er heim
kom skrifaði hann alllanga bók um íslandsferðina.1 Kemur þar fram að
hann var kunnugur Sir Joseph Banks, þeim er ferðaðist til íslands 1772
og ætíð síðan hafði mikinn áhuga á íslandi og íslenskum málefnum.
Höfðu orðið nokkur kynni með Sir Joseph og Ólafi Stephensen, síðar
stiftamtmanni, og naut Hooker góðs af því meðan á íslandsdvöl hans
stóð.2
Tæpri viku eftir að Hooker kom til Reykjavíkur fór hann, ásamt
Jörundi og enskum kaupmanni, Samuel Phelps að nafni, í heimsókn til
Ólafs stiftamtmanns í Viðey. Tók Ólafur á móti þeim af mikilli rausn
og lét bera þeim góðan — og ríflegan — veislukost. Tvær konur gengu
um beina, búnar íslenskum viðhafnarklæðum, enda voru þetta ekki
venjulegar þjónustustúlkur, að því er Hooker segir, heldur prestsekkja
og dóttir hennar, sem dvöldust með stiftamtmanni.3 Enginn vafi leikur
á að hér er átt við Kristínu Eiríksdóttur, ekkju séra Jóns Grímssonnar
í Görðum á Álftanesi, og dóttur hennar Ingibjörgu,4 er síðar giftist Por-
grími Tómassyni gullsmið og varð húsfreyja á Bessastöðum.5
Hooker segir í ferðasögunni að þær mæðgur hafi verið einstaklega vel
klæddar,6 og er ekki ólíklegt að hann hafi þá þegar fengið hug á að
eignast íslenskan búning. Víst er að einmitt á þessum stað í frásögn
sinni lætur hann fylgja neðanmáls ítarlega lýsingu á, að því er hann