Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1984, Blaðsíða 179
ÞÓR MAGNÚSSON
RANNSÓKN FORNRÚSTAR VIÐ
AUÐNUGIL I HRUNAMANNAHREPPI
Sumarið 1964, er rannsóknirnar í Hvítárholti voru að komast á skrið,
var rannsökuð sem eins*konar hjáverk forn húsrúst í landi jarðarinnar
Kópsvatns í Hrunamannahreppi í Árnessýslu. Er þar allmikið rústa-
svæði um miðja vegu milli Kópsvatns og Kotlauga sem var þó ekki
rannsakað nema að litlum hluta. Þar sem ekki eru líkur til að um frekari
rannsóknir verði um að ræða á þessum stað í bráð, þótt hann sé um
margt forvitnilegur, þykir ástæða til að koma á framfæri því senr þar
kom í ljós. Verði rannsókn fram haldið síðar er auðvelt að fella þessa
frásögn á einhvern hátt inn í fullnaðarskýrslu.
Áþ essum slóðum eru mýra- og flóaflákar, en uppi undir Kópsvatns-
ási eru vallendismóar á nokkuð breiðu belti. í ásinn er skarð, sem kallast
Kirkjuskarð, og liggur vegurinn að Reykjadal um það. Hefur þar vænt-
anlega verið kirkjuvegur fyrrum, en kirkja var í Reykjadal fram um
1819 er hún var aftekin. Niður undan Kirkjuskarði rennur lækur, sem
nefnist Auðnugil og dregur svæðið umhverfis lækinn nafn af honum
og kallast Auðnugilsmóar.
Árið 1947 var lagður bílvegur um þetta svæði og var þá ýtt all-
miklum jarðvegi til uppfyllingar í veginn. Flögin, sem þá mynduðust
hafa gróið seint og skömmu eftir að vegagerðinni lauk fóru að koma í ljós
reglulegar steinaraðir á einum stað í flagi, sem virtust benda til að þar
væru einhver mannvirki. Menn höfðu að vísu áður tekið eftir rústum á
þessu svæði, en sá sem fyrstur tók eftir þessum steinaröðum var Guð-
mundur Jónsson á Kópsvatni, sá sem fann rústir fornbæjarins í Hvítár-
holti, og skýrði hann frá rústum þessum á Þjóðminjasafninu. Þegar svo
fornleifarannsóknirnar í Hvítárholti hófust sumarið 1963 fórum við
Gísli Gestsson dag einn ásamt Guðmundi að Auðnugili og gerðum þar
prófrannsóknir. Leizt okkur rétt að rannsaka rústirnar nokkru nánar, en
af því varð þó ekki fyrr en 1964, er nokkurt hlé varð á rannsóknunum