Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1993, Blaðsíða 76
80
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
má þó telja líklegt að húsið hafi verið byggt af dönskum timburmeistara
og jafnvel sniðið til erlendis.
Hrefna segir: „Af vettvangskönnun að dæma, er einnig hægt að full-
yrða að grind hússins er í það minnsta mjög gömul ..." Jafnframt getur
hún þess að Leifur Blumenstein liafi sagt viðinn minna mjög á pommerska
furu sem var algengt byggingarefni á 18. öld. Með þessu er gefið í skyn að
líklega sé húsið frá 18. öld.
Ég fullyrði hins vegar að ekkert sé það í grind hússins sem bendi sér-
staklega til þess að húsgrindin sé frá 18. öld. Rétt er það að pommersk fura
var notuð til húsasmíða hér á landi á 18. öld. Hún var hins vegar helst not-
uð þar sem mikið lá við að vel tækist um smíði því hún var betri smíða-
viður en t.d. skandinavísk fura. Pommersk fura var því einkum notuð í
þakklæðningu en síður í húsgrind. Óhætt er einnig að fullyrða að enginn
sjónarmunur er á 2-300 ára gömlum húsavið sem skipað var upp í
Pommern og timbri frá útskipunarhöfnum í Skandinavíu.
Annað athyglisvert atriði í grindarsmíð Hillebrandtshússins, sem Leifur
nefndi einnig, er að skástoðir hússins eru allar úr öðruvísi efni en stoðir og
bitar. Þær eru ekki ferstrendar og eru allar úr bognu efni. Ekki þekki ég
annað dæmi um slíka efnisnotkun. Skyldleika mætti líklega helst rekja til
pakkhússins í Borgarnesi, sem reist var á 8. tug seinustu aldar, en í því
húsi eru nokkrar stuttar skástoðir frá útveggjum og inn á loftbita og eru
þær úr bognum viði, unnum úr rótarhnyðjum. Skástoðirnar í Hille-
brandtshúsi eru a.m.k. flestar gerðar úr neðsta hluta trjábols, að efsta hluta
rótar. Efnisnotkun af þessu tagi, þ.e. að notfæra sér náttúrulega sveigju
trjábols er líklega þekktust í skipasmíði fyrri tíma, en oft voru slík hné eða
stuttar skástoðir frá böndum skrokksins og undir bita þilfars. Svipuð
notkun var einnig algeng í dönskum og suðurskandinavískum klukku-
turnum, sem víða tíðkuðust sem sjálfstæðar byggingar við kirkjur á öld-
um áður. í slíkri smíð var oftast gripið til þessa ráðs þar sem skástoðirnar
hefðu ella skert lofthæð í viðkomandi mannvirki meira en góðu hófi gegndi.
í Hillebrandtshúsi er þó ekki um slíkt að ræða. Allar skástoðirnar eru þar
inni í veggjum og ekki verður séð að sveigja þeirra hafi neinn hagnýtan
tilgang.
Mjög mikilvæg er sú staðreynd, að engin ummerki eru sjáanleg í grind
Hillebrandtshúss sem benda til þess að það hafi verið flutt úr stað. Sam-
kvæmt lýsingunni frá 1803 var Kokkhúsið á Skagaströnd illa farið og fúið.
Það kemur svo sem ekki á óvart, því timburhús af þeirri gerð sem tíðk-
aðist á 18. öldinni entust yfirleitt ekki lengur en 50-100 ár. Það er segin
saga að eftir svo langan tíma voru þau orðin illa skemmd af fúa. Yfirleitt
var aurstokkur orðinn gegnumfúinn og oft var fúi í stoðaendum.