Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1993, Blaðsíða 108
112
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
íslenska langspilið er nú næstum horfið af sjónarsviðinu sem hljóðfæri.
Vandfundinn er nokkur sá sem enn lærir eða leikur á það og varla nema
einn og einn maður sem tekur sér fyrir hendur að smíða það. Enda þótt
nokkuð sé vitað um sögulegt baksvið hljóðfærisins, er lítið tiltækt um
aðferðir við smíði þess, efniviðinn sem notaður var, algengt mynstur
tónsetningar á gripbrettinu, svo og þau smíðaefni sem notuð voru í stilli-
pinnana, snigilinn, þverböndin á gripbrettinu og bogann.
Árið 1981 rannsakaði greinarhöfundur íslensk langspil í Reykjavík, á
Selfossi, í Skógum, á Akureyri, Dalvík og Húsavík, samtals tuttugu og eitt
hljóðfæri. Til rannsóknarinnar var veittur styrkur úr sjóðnum United Stat-
es Education Foundation in Iceland á vegum Senior Fulbright Research
Fellowship. Tilgangurinn með verkefninu var að rannsaka nógu mörg af
þeim langspilum sem fyrirfinnast á landinu, til þess að kanna sérstaklega
þau atriði sem öðrum fremur einkenna smíði og gerð hljóðfærisins, einnig
stillingu þess og leikmáta. Þau gögn sem þannig fengust, voru síðan notuð
til þess að hanna nokkrar eftirlíkingar af íslenska langspilinu, svo og
smíðispakka (enska „kit", með teikningum og tilsniðnu efni) til kennslu
og notkunar fyrir skólabörn. Á það skal sérstaklega bent, að uppeldis- og
kennslufræðilegt notagildi þessarar rannsóknar felst í því að auka og
dýpka heildarþekkingu nemenda á tónlist með því að kynna þeim sögu
langspilsins, fá þá sjálfa til að smíða hljóðfærið og leika síðan á það.
Leitast var við að verkefnið yrði ekki unnið einangrað og eitt sér, heldur
sem hluti af heildarskipulagi tónlistarnáms.
Við athugun á langspilunum, sem voru tuttugu og eitt að tölu og öll á
íslandi, var farið eftir ákveðnu rannsóknarsniði. Þetta rannsóknarsnið náði
til eftirtalinna atriða:
1. Ljósmyndir, bæði svart-hvítar myndir og litmyndir, voru teknar af
hverju langspili frá ýmsum sjónarhornum. Myndirnar voru merktar og
skráðar.
2. Nákvæm teikning var gerð af hverju langspili eftir útlínum hljóðfær-
isins. Þessar teikningar voru lagðar til grundvallar við hönnun þeirra
eftirlíkinga sem síðar voru smíðaðar.
3. Tekið var nákvæmt mál af hverju hljóðfæri og einstökum hlutum
þess, þ. á. m. lengd, breidd við báða enda, hæð eða þykkt, lengd stilli-
pinna, lengd og þykkt gripbrettis, stærð hljómops og lengd strengjanna.
4. Mynstur hljómops á hverju hljóðfæri var teiknað upp.
5. Greint var úr hvaða viðartegundum einstakir hlutar hvers hljóðfæris
voru smíðaðir. Við greiningu viðartegunda var haft til samanburðar