Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1993, Blaðsíða 111
ÍSLENSKA LANGSPILIÐ
115
A
Beint Bogadregið
Meðallengd þeirra langspila, sem rannsökuð voru, reyndist vera 85,5
cm. Styst var langspil númer 04 í Þjóðminjasafni Islands, það var 73 cm að
lengd. Lengst var langspil númer 08 í eigu Níelsar Kristinssonar á Dalvík,
það var 104 cm að lengd. Fjórtán hljóðfæranna voru 80 cm eða lengri, sjö
voru styttri en 80 cm. Meðallengd strengjanna var 67,5 cm. Langspilið
númer 08 í eigu Níelsar Kristinssonar var eina hljóðfærið sem var með stól
undir strengjum í staðinn fyrir einfalt endastykki við breiðari enda hljóm-
kassans. Þetta hljóðfæri var því hljómríkara en nokkurt hinna.
Tíu langspilanna höfðu 3 strengi, fimm höfðu 4 strengi, fjögur höfðu 2
strengi, eitt hafði 5 strengi og eitt langspilið hafði aðeins 1 streng. Þetta
síðastnefnda hljóðfæri, núrner 15, virtist hafa verið smíðað líkt og psal-
modikon eða monochord án aukastrengja til samhljóms.
Erfitt reyndist að ákvarða aldur sumra þeirra langspila sem rannsökuð
voru, vegna þess að í sumum tilvikum var lítið vitað um sögu þeirra. Þrjú
af þeim hljóðfærum sem voru í einkaeign, voru talin smíðuð fyrir 1855.
Þessi hljóðfæri voru í eigu Guðrúnar Jónsdóttur (númer 01), Sigurðar
Péturs Björnssonar (númer 12) og Guðrúnar Sveinsdóttur (númer 20). Af
tuttugu og einu hljóðfæri voru níu smíðuð fyrir 1900, fimm voru srníðuð
eftir 1900 og sjö voru talin smíðuð fyrir 1900 enda þótt ekki væri vitað um
aldur þeirra með vissu.
Langspil númer 08 í eigu Níelsar Kristinssonar á Dalvík. Ljósm. D. G. Woods.