Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1993, Blaðsíða 85
STÓLL ARA JÓNSSONAR
89
mjög sveiglaga hægindastóll, og loks stóll sem leggja mátti saman. Fleira
var til sæta hjá Grikkjum. I hinni úthöggnu myndasamstæðu af eystra
gafli Parþenonhofs í Aþenu situr Seifur miðsvæðis á háum þronos-stól.
Eftir því sem unnt er að gera sér í hugarlund hvernig samstæðan hefur
verið, er stóllinn með tveimur kistlum að neðan, hvorum upp af öðrum. A
fornri fórnartöflu með lágt upphleyptu verki, fundinni í Locri á Suður-
Ítalíu, er mynd sem vert er að skoða nánar. Tafla þessi, ekki ósnotur, mun
gerð milli 480 og 450 f.Kr., og er varðveitt í Museo Nazionale í Reggio. A
lrenni er mörkuð mynd Hadesar undirheimaguðs, sem rann saman við
Plútó, guð auðsins, og mynd Persefóne, konu Hadesar. Hún var dóttir De-
meter kornmóður. Guðinn og gyðjan sitja saman í hásæti. Sjá má að gyðj-
an heldur á kornknippi og hana, en hæna stendur undir hásætinu. Þetta
húsgagn á töflunni minnir nokkuð á gamla, íslenska sætagerð, og hænsnin
leiða hugann að Rafnsstól. Þannig háttar, að hönum og hænum hefur ver-
ið fórnað í tilefni uppskerunnar meðal íbúa hins þýska menningarsvæðis.
Hefur sá siður dafnað að láta hana í síðasta kornbundinið, og álíta menn
hana þennan vera kornvættinn. Komið verður að hænsnamyndunum í
stól Rafns Brandssonar síðar í þessari grein.
Fimm stórar myndkringlur liggja í röð langsum á efri þverfjöl baks í
stól Ara Jónssonar. Þær eru allar jafn stórar og höfð jöfn bil milli þeirra.
Eru þetta kringlóttir reitir með breiðri umgerð, en mannamyndir skornar í
öllum reitunum. Ekki verður annað sagt en sérstök prýði sé að þessum
myndkringlum. Slík atriði hafa verið vinsæl í íslenskum tréskurði og virð-
ast eiga ættir að rekja til listar fornaldarinnar við Miðjarðarhaf. Þaðan
virðist komið hið stutta vaxtarlag mannfólksins í kringlum þessum og
annars staðar á Grundarstólum. Merkilegt dæmi um notkun hringa með
myndum að innan er hluti af koptísku veggtjaldi frá Egyptalandi sem
varðveitt er í Metropolitan-safninu í New York, og er það frá um 400 e.Kr.
eða síðar. Gerð eru höfuð í hringunum. Standa þær myndir í sambandi við
Bakkusar-hátíðir. Myndkringlur koma fyrir enn víðar í list Kopta.
Eins og á stólnum í Þjóðminjasafni liggja í Arastól fimm útskornir riml-
ar, jafn breiðir, milli beggja þverfjalanna í stólbaki, og standast rimlarnir á
við kringlurnar. Skarð með umdrætti þriggja laufa gengur upp í neðri
brún á efri þverfjöl gegnt bilunum milli myndkringla, og eftir verður stutt
útskot, þverskorið, milli skarða. Skörð af þessu tagi þekkjast í miðaldalist,
sem sjá má á stól frá um 1250 í kirkju í Little Dunmow í Englandi. Riml-
arnir í baki Arastóls tengjast efri slánni við útskotin og neðri þverfjölinni í
bogadregnum skörðum. Auk myndkringlanna fimm efst í baki sést hálf
kringla úti við endana báðum megin, ekki eru á þeim neinar myndir en
net ráka á. Þessar hálfu kringlur sem nefna má bjúgsneiðar bera heitið