Ársrit Ræktunarfélags Norðurlands - 01.01.1978, Blaðsíða 87
um nátthaga að ræða, eða þeir hafa verið hlaðnir til að verja
seltúnið, hafi verið föst búseta á selinu, en um það eru engar
heimildir. Fremrasel er í hvammi fast við Torfufellsá, rétt á
móti því er Svartá kemur í hana. Það var í notkun á ofan-
verðri siðustu öld og sennilega hefur þar verið síðast haft í seli
árið 1881. Búsmalann, sem þar var síðast gætt, átti Tryggvi
Sigurðsson, þá bóndi í Torfufelli, en siðar bóndi á Jórunnar-
stöðum. Hann var bróðir Magnúsar bónda og kaupmanns á
Grund. Veggir Fremrasels standa enn og nú er það notað sem
rétt.
A Leyningsdal, í tungunni þar sem Svartá fellur í Torfu-
fellsá, er rétt, sem fram til þessa hefur verið notuð í vorsam-
anrekstrum. Litlu framar eru seltóftir með miklum garð-
hleðslum í grennd, sennilega nátthaga. Enn framar eru eldri
tóftir með garðhleðslum. Þar gæti einnig verið um fornt sel að
ræða.
Kvíaám var beitt á þessa dali fram á þessa öld. Síðasti
smalinn á Torfufellsdal var Hermann Kristjánsson, síðar
bóndi í Leyningi. Minntist hann jafnan smalastarfsins með
ánægju, þótt oft væri það kalsamt og nokkuð strembið með
köflum. En smalarnir voru léttstígir og í góðri þjálfun. Síðast
voru kvíaær vaktaðar i Villingadal 1927 og einnig var þar
fært frá nokkrum ám 1932. Aðalsmalinn var Jón Hjálmarsson
nú bóndi í Villingadal, og Angantýr Hjörvar, bróðir hans,
gengdi eitt sumar smalastörfum mjög ungur að árum (8 ára),
munu það hafa verið nokkrar mannraunir í vitund svo ungs
manns.
Þessir dalir, sem hér hefur verið fjallað um, spanna ekki
víðfeðm afréttarlönd. Þeir tilheyra þremur jörðum, sem nýta
þá að meira eða minna leyti. Rúmlega 1000 fjár mun ganga á
þessum dölum að sumrinu og síðsumars er sleppt þangað
nokkrum hrossum, sem ganga þar oft nokkuð fram á vetur.
89