Ársrit Ræktunarfélags Norðurlands - 01.01.1985, Síða 3
miðbiki 19. aldar voru sendir hingað dýralæknar til þess að
leggja á ráð til varnar þeirri plágu. I kjölfar þeirra heimsókna
komu fram tillögur til stjórnarinnar hvað eftir annað um
stofnun fjögurra dýralæknisembætta m.a. frá Jóni Sigurðs-
syni forseta og prófessor Tscherning, en þeir ferðuðust um hér
á landi til að leggja á ráð gegn fjárkláðanum, og fengu í
hendur víðtæk völd í því mikla deilumáli.
Á Alþingi komu einnig fram tillögur um að ráða bót á
skorti dýralækna t.d. frá Jóni Sigurðssyni á Gautlöndum 1865
og Benedikt Sveinssyni 1875, en árangur varð enginn.
Árið 1877 flytur stjórnin sjálf frumvarp til laga um skipan
dýralækna á íslandi, þar sem gert var ráð fyrir að hér á landi
störfuðu 4 dýralæknar. Frumvarpið var fellt og það sem
furðulegast er, við atkvæðagreiðslu lögðust bændur á Alþingi
gegn því.
Árið 1891 flytur stjórnin á ný frumvarp um skipan dýra-
læknamála á fslandi. Var þar gert ráð fyrir tveim dýralækn-
um, öðrum í Suður- og Vestur-amtinu, hinum í Norður- og
Austur-amtinu. Var frumvarp þetta samþykkt sem lög nr. 22,
2. október 1891. Hélst sú skipan til ársins 1915 en þá voru
samþykkt ný lög um dýralækna, og dýralæknum fjölgað úr
tveimur í fjóra, einn fyrir hvern fjórðung.
Það er eftirtektarvert að ástæðan til þess að Alþingi setur
löggjöf um dýralækna virðist fyrst og fremst hafa verið sú, að
útflutningur á lifandi búfé (hrossum og sauðfé) og síðar slát-
urafurðum var í hættu nema því aðeins að stjórnvöld hefðu í
þjónustu sinni lærða dýralækna. Sjúkdómar í búfé lands-
manna virðast hinsvegar ekki hafa verið næg ástæða fyrir
Alþingi til að koma á skipan dýralækna hér á landi, samanber
andstaða bænda sem fram kom við frumvarpið árið 1877.
Þannig var staða þessara mála, þegar ungur dýralæknir,
Sigurður Einarsson var skipaður til starfa sem dýralæknir
fyrir Norður- og Austur-amtinu með aðsetri á Akureyri árið
1910. Sigurður var fæddur í Hafnarfirði 4. apríl 1885, sonur
hjónanna Sigríðar Jónsdóttur frá Hörgsholti og fyrri manns
hennar Einars Einarssonar trésmiðs og organista frá Laxárdal
í Gnúpverjahreppi.
5