Ársrit Ræktunarfélags Norðurlands - 01.01.1985, Qupperneq 101
í logni og heiðríku veðri og ákaflega fögru sólskini, og ég held
það hafi verið á einmánuði.“
Þórbergur játar, að hann hafi ekki fylgst náið með athöfn-
inni, því að útsýnið á sjóinn, með franskri skonnortu, fangaði
athygli hans. Þórbergur er fæddur 1889, og gæti þetta því
hafa verið um 1895, og mun vera með því síðasta sem vitað er
til að sorta væri tekin.
Sortan virðist einnig hafa verið nefnd at eða ata, samkvæmt
orðabókum. I Orðabók Sigfúsar Blöndals segir: „at (sorta) Gytje:
at finnst í dýjum, líkt og kúamykja, brúkað sem litarefni
(svart) og í blek, varð móleitt á litinn úr því.“ (ekki getið
hvaðan þessi tilvitnun er tekin). I Orðabók Menningarsjóðs
eru at eða ata talin samnefni við sortu. Sami skilningur kemur
fram hjá Jónsi frá Hrafnagili (ísl. þjóðhættir, bls. 26) og
Guðmundi Finnbogasyni (Iðnsaga ísl., bls. 111). Líklega er
þetta komið af því, að sortunni var makað eða ,,atað“ á
vaðmálið þegar litað var, sbr. orðtökin „að ata sig út“ og
„útataður“. (Eins getur verið að þau séu dregin af fyrrnefnd-
um verknaði).
Jón Pálsson bankaritari segir um atið: „At finnst í gulstar-
arflóðum, fenjum og mýrum. Það er móbrún leðja, allföst, og
slær á hana eirlitum blæ.“ (Iðnsaga Isl., bls. 111).
Þessi lýsing Jóns á atinu, og umsögn Blöndalsbókar, um
litinn úr því (móleitt), virðist þó fremur benda til þess, að at
hafi ekki verið nákvæmlega sama jarðefnið og sorta, heldur
meira í ætt við mýrarauða, en menn hafa ef til vill blandað
þessu saman, vegna líkrar notkunar.
NÁNAR UM SORTU OG HVAR HANA ER AÐ FINNA
Af framangreindum tilvitnunum verður ljóst, að sortan var
oftast tekin úr forarpyttum eða dýjum í mýrum og flóum, og
líklega oft með klárum (sjá mynd af kláru í ísl. þjóðháttum,
bls. 27). Það mun því vera rétt til getið hjá Nikolai Mohr, að
um sé að ræða botnleðju úr vötnum, sem ummyndast hafi og
safnað í sig járni.
103