Árbók Landsbókasafns Íslands - 01.01.1950, Blaðsíða 158
158
STEINGRIMUR J. ÞORSTEINSSON
Hólmfríðar. Solveig hafði kynnzt honum, er hann var kaupamaður hjá foreldrum
hennar á skólaárum sínum, og einhvern tíma höfðu þau þá rakið ættir sínar saman.
Hún hafði aldrei gleymt honum upp frá þessu. En hann hafði aðeins skrifað henni
þetta eina bréf, þar sem hann lét hana vita, að hann væri trúlofaður annarri stúlku.
Síðan hafði hún ávallt fylgzt með ferli hans og högum. Og nú í ellinni hafði ástin frá
ungu dögunum endurvaknað í annarri mynd og beinzt að dóttur eina mannsins, sem
hún hafði unnað um ævina.
Þessi harmasaga og endurminningin um föðurinn leysti nú eigin sorg Hólmfríðar
úr fjötrum og varð henni til líknar, þegar hún var komin að vitfirringu. Og hugarvíl
hennar snerist nú brátt upp í sterka þrá eftir því að lesa og heyra guðsorð. Hún las
sálma og sótti kirkju. Einn vordag bar hana þar að, sem hjálpræðishersmenn héldu
útisamkomu. Söngurinn var hjáróma, hljóðfæraleikurinn falskur, tilburðir liðsins
hlægilegir. En henni var ekki háð í huga um þessa einkennilegu guðsþjónustu, heldur
varð hún strax gripin sterkri löngun til að taka þátt í henni sjálf, ásamt með hern-
um.----------
Lengra nær ekki sögubrotið. Það er vonleysisverk að ætla sér að reyna að botna
söguna. En allt bendir til þess, að Hólmfríður hafi átt að ganga í hjálpræðisherinn —
og líklega úr honum aftur, sbr. söguheitið: Undan krossinum.
III
Þegar horft er frá þessu sögubroti yfir skáldferil Einars, má finna þaðan ýmis
efnistengsl, bæði aftur og fram í tímann. Hér skal aðeins drepið lauslega á fátt eitt.
Þar sem hjálpræðishersins í Reykjavík er getið þarna í lokin og hann virðist hafa
átt að verða einn aðalsöguvettvangurinn um skeið, má á það minna, að herinn hafði
þá nýlega hafið starfsemi sína hér á landi, eða 1895. Og ári áður en Einar tók að
semja Undan krossinum, birti hann í Dagskrá (14. nóv. 1896) eina af greinum þeim,
sem hann samdi undir dulnefninu Hörður, og hét Niðri í her. Það er skýr og
skenuntileg svipmynd af hjálpræðisherssamkomu í Reykjavík, hin fyrsta í bókmennt-
um okkar.
Við söguna kemur drykkfelldur hneykslisklerkur, eins og fyrr segir. En löngu
seinna, árið 1921, birtist í ljóðabók Einars Vogum afbrigði sömu manntegundar,
í kvæðinu Messunni á Mosfelli. Sýnir það, hve þessi manngerð var Einari hugleikin,
að hann skuli bregða upp af henni tveimur myndum á nær því aldarfjórðungs fresti.
Og lokamynd sögubrotsins, af formlausri samkomu hjálpræðishersmannanna úti í
gróanda vorsins, þar sem „himinninn“ varð „ein einasta voldug kirkjuhvelfing“, er
eins og örlítill vísir að hinzta boðskap Einars, minnir á síðustu vísuna í síðustu ljóða-
bók hans:
Hafknörrinn glæsti og fjörunnar flak
fljóta bæði. Trú þú og vak.
Marmarans höll er sem moldarhrúga.
Musteri guðs eru hjörtun, sem trúa,
'■ þó hafi þau ei yfir höfði þak.