Árbók Landsbókasafns Íslands - 01.01.1955, Side 14
14
BENEDIKT SVEINSSON
liðsinnis hans við ritstörí og útgáfur og var honum jafnan ljúft að veita aðstoð í þeim
efnum. Margar greinar liggja eftir hann í blöðum og tímaritum, en þó minna en skyldi,
því að hann var manna ritfærastur, skrifaði fagurt mál og þróttmikið.
Benedikt var kvæntur Guðrúnu Pétursdóttur frá Engey, mikilhæfri konu, sem lifir
mann sinn. Synir þeirra eru þjóðkunnir: Bjarni ráðherra, Sveinn framkvæmdastjóri og
Pétur sendiherra.
Benedikt Sveinsson var fyrirmannlegur í framgöngu og hverjum manni háttvísari.
Hann var ljúfur í umgengni, hver sem í hlut átti, hjálpfús og góðgjarn, drengilegur í
sjón og raun. f forsetastóli sómdi hann sér manna hezt. Naut hann trausts og virðingar
á Alþingi jafnt andstæðinga í stjórnmálum sem flokksmanna. Hann var ágætlega máli
farinn og vandaði jafnan málfar sitt, hvort sem hann flutti ræður á mannfundum eða
talaði við kunningja á förnum vegi. Hann unni mjög íslenzkri tungu og hvers konar
þjóðlegum fræðum, ekki sízt ættvísi.
Störf Benedikts við Landsbókasafnið urðu því miður með öðrum hætti en æskilegt
hefði verið. í stað þess að gefa honum kost á að neyta þar hæfileika sinna og þekkingar
við fræðileg viðfangsefni, voru honum fengin þreytandi afgreiðslustörf í lestrarsal, sem
betur hæfa ungum mönnum og sporléttum. Er það gamall og nýr misskilningur margra
þeirra, sem skammta Landsbókasafni fé og starfskrafta, að þá sé þörfum þess fullnægt,
ef slík afgreiðsla sé í sæmilega lagi. Benedikt rækti að vísu vel og dyggilega það starf,
sem honum var fengið. En þegar litið er á þann fjölda fræðilegra verkefna í Landsbóka-
safninu, sem enn eru óleyst eða hálfleyst, hljóta allir kunnugir að minnast þess með
eftirsjá, að manni með hugarfar og hæfileika Benedikts Sveinssonar skyldi eigi gefast
betri kostur en raun varð á til þess að leggja þar hönd á plóginn.
F. S.