Árbók Landsbókasafns Íslands - 01.01.1966, Síða 140
140
U M HANDRIT ÞORSTEINS ERLINGSSONAR
Næst verða fyrir óprentuð kvæði Þorsteins í eiginhandarriti hans. Hefir þeira verið
raðað í stafrófsröð eftir upphöfum. Sum þessara kvæða mun Þorsteinn sjálfur hafa
dæmt ónýt, en þó ekki tímt eða fengið sig til að fleygja. Um þetta segir Sigurður Nor-
dal í formála sínum fyrir útgáfu Þyrna 1943, bls. VI-VII: „Áður en gengið var frá
þessari útgáfu, var enn á ný farið vandlega yfir öll kvæði, vísur og kvæðabrot Þor-
steins, sem til náðist og höfðu ekki verið tekin í 3. útg. Niðurstaðan af þeirri athugun
varð viðbót þeirra sex vísna og kvæðabrota, sem þegar er getið. Fleira þótti ekki
ástæða til þess að taka. Um sumt var vitað, að höfundurinn vildi ekki láta prenta
það í Þyrnum. Hitt var nær undantekningarlaust tækifæriskvæði, en af þeim þótti þegar
nægilega mikið í 3.útg. Oftast má finna það gjörla,hvort þau eru einungis ort afgreiða-
semi eða yrkisefnin hafa á einhvern hátt snortið Þorstein. Hann varsjálfurþeirrarskoð-
unar, að látnum skáldum væri enginn greiði gerður með því að tína allt, sem hönd á
festi, til í ljóðabækur þeirra. Síðari tíma menn ráða vitanlega, hvað þeir gera. En
óskandi væri, að þeir færu varlega í að ganga um þetta algjörlega gegn vilja skáldsins.“
Varnaðarorð Sigurðar eru vissulega réttmæt. Gæta ber varúðar í þessum efnum
sem öðrum. Hitt er jafnvíst, að mjög fróðlegt er að kynnast þeim tilraunum, sem skáld-
in gera, fá að sjá, hvað þau velja, hverju þau hafna; og ekki þarf það að rýra gildi
hinna betri og kunnari ljóða. Við nálgumst ljóðasmiðinn þeim mun betur og þykir
vænt um það öðrum þræði að sjá hann klæðast öðru en skjaldhafnarflíkum. Á þetta
ekki sízt við um slíkt snyrtiskáld, sem Þorsteinn var.
Með handritum þeim að kvæðum Þorsteins, sem hér hefir verið fjallað um, hafa
einnig verið látin fljóta smáprent og úrklippur með kvæðum eftir hann, og gerir það
safnið fyllra (Lbs. 4172, 4to).
Þorsteinn hefir vandað mjög til sögulegra kvæða sinna. Hefir hann lagt á sig niikla
vinnu við að afla sér sem gleggstrar vitneskju um sögupersónur þær, sem hann hugð-
ist yrkja um hverju sinni. Einkum er vert að geta aðdrátta að kvæðabálkunum um
Fjalla-Eyvind og að Eiðnum (Lbs. 4173, 4to). Átti Þorsteinn drjúgar setur á söfnunum
í þessu skyni og skrifaði mönnum í leit að upplýsingum, einkum um Fjalla-Eyvind. Tók
hann sér einnig ferð á hendur til þess að kanna að minnsta kosti einhverjar þær slóðir,
sem Eyvindur hefir ef til vill farið um. Guðrún kona hans fór með honum þessa för,
sem stóð hálfan mánuð, frá 26. júlí til 12. ágúst 1910, en þann tíma hefir Þorsteinn
haldið dagbók.
Eins og að líkum lætur, hafa margir orðið til að senda Þorsteini ljóð sín, sumir
í vináttuskyni, aðrir til birtingar í þeim blöðum, sem hann stýrði. Auk þess hafa að
honum dregizt ljóð og Ijóðahandrit eins og öðrum þeim, er slíku unna. Kvæði af þessu
tagi (Lbs. 4174, 4to) eru sum hver í eiginhandarriti höfunda, t. d. eftir Benedikt
Sveinbj. Gröndal, Jón Olafsson ritstjóra, Ólöfu frá Hlöðum (sumt í sendibréfum) og
Stephan G. Stephansson (Ramislagur, eldri gerð). Með liggur eilítið af smáprenti.
Þjóðsögur þær og sagnir (Lbs. 4175-4476, 4to), sem Landsbókasafni hafa nú á-
skotnazt úr fórum Þorsteins, hefir hann ýmist sjálfur fært í letur eða aðrir. Margar
þessara sagna hafa verið gefnar út á prent. Þorsteinn gaf sjálfur út þjóðsagnakver í