Árbók Landsbókasafns Íslands - 01.01.1972, Page 154
154
CLARENDON PRESS OG KENNETH SISAM
að greindur almúgamaður enskur les nú þessar heillandi sögur hartnær jafn-fyrir-
hafnarlítið sem skáldsögur ritaðar á tuttugustu öld. En hann mátti ekki láta það
sjást, að hann stæði í nokkurri þakkarskuld við Kenneth Sisam. Mennirnir eru ýmis-
lega gerðir, og flestum þykir lofið gott. En nú var Vinaver frjáls að segja sann-
leikann. Og það er nú svona: þó að sannleikurinn sé dulinn um stund, kemur hann
að lokum í ljós.
Við höfum nú um hríð virt fyrir okkur æviferil manns, sem um þriggja áratuga
skeið - blómaskeið lífsins - gat ekki sinnt ritstörfum nema í knöppum tómstundum
og lét því eftir sig færri bækur en gert mundi hafa, ef hann hefði helgað sig ein-
göngu ritstörfunum og fræðilegum rannsóknum. En það er hlutskipti, sem fáum
veitist. Þessari frásögn af Kenneth Sisam verður ekki með öðru betur lokið en
sannorðri lýsingu mannsins sjálfs. Vinur hans og samverkamaður, Peter Spicer,
hefir í stuttu máli lýst honum þannig:
„Hann var maður stórvaxinn og bar sig vel. Þegar hann sat, og þó að hann væri
ekki að vinna, vildi hann helzt sitja á stól með háu baki, og í slíku sæti naut sín
bezt hans mikli persónuleiki. Hann var þeldökkur og húðin gljáandi. Nefið var
klumbunef. Aldrei minnist ég að ég sæi hann snýta sér, enda virtist hann aldrei
kvefast. En stöku sinnum greip hann vasaklút sinn og dró hann snöggt þvert yfir
nefið, en höndin minnti á selshreifa. Heima hjá sér, á Scilly-eyjum, minnti hann
óumflýjanlega á gráa selinn.
Andlitssvipur hans var ávallt vökull. Sá svipur gat orðið harður og strangur,
en venjulegast var hann glaðlegur. Hann hafði gaman af að heyra smásögur af
því, sem skringilegt var eða ankannalegt í fari manna, og hló þá að slíku með svip-
uðum gáska og skóladrengur mundi gera.
Klæðnaður hans var snyrtilegur, en viðhafnarlaus: svartir skór, gráar buxur úr
meira eða minna grófum dúk, brúnn jakki úr smáteinóttum grófum ullardúk, hvít
skyrta og flibbi, en hvorki vesti né peysa. Hann lagði mikla áherzlu á stundvísi,
átti heima í Boars Hill og fór af stað þaðan nógu snemma til þess að vera kominn
á skrifstofuna stundarfjórðungi fyrir klukkan níu. Kæmi einhver of seint, spurði
hann þann sama, hvort vagninum hefði seinkað, og þurfti enginn að vera í vafa
um, hvað á bak við spurninguna lá. Hann vann af mikilli einbeitingu, en vildi láta
hætta tímanlega, enda bar það sjaldan við, að hann væri á skrifstofunni lengur en
til klukkan fjögur.
Kennari var hann með miklum yfirburðum. Hann var gæddur hæfileika dóm-
arans til þess að sjá afstöðu hlutanna til grundvallarlögmálsins, og með því að
hann hafði fágætlega gott minni, sem hélzt óbilað til þess er hann tók sjúkleika
þann, er dró hann til dauða, var ávallt bæði skemmtilegt og fróðlegt að ræða við
hann. Fljótur var hann að taka ákvarðanir, og skoðanir sínar lét hann í ljósi með
þeirri sannfæringarvissu, er minnti á kreddufestu. Eins og títt er um flest mikil-
menni, viðurkenndi hann aldrei, að sér skeikaði, og baðst aldrei afsökunar,