Morgunblaðið - 16.01.2001, Blaðsíða 49
MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 16. JANÚAR 2001 49
lyndi að leyfa okkur að hafa Æsu
sína í nánd við okkur einmitt þegar
okkar eigin krakkar voru flognir úr
hreiðri og við í mestri þörf fyrir upp-
lífgandi ungling til að halda jarðsam-
bandi.
Þarf ekki að geta þess að hún
sannaði áþreifanlega hið fornkveðna
að ekki fellur eplið langt frá eikinni.
Sumarið 1984 vorum við saman í
París allan júnímánuð af hreinni til-
viljun ef nokkuð er þá tilviljun undir-
orpið í þessum skrýtna heimi. Þá var
Æsa orðin þar hagvanari en heima-
maður og leiðsögn hennar á við há-
skólanám í undrum heimsborgarinn-
ar.
Ógleymanleg er ferð okkar til
Bretagne með gistingu í Paimpol og
heimsókn til Yves frænda sem hafði
á Vigdísi forseta þvílíka helgi að
hann hafði ekki lokið upp aðaldyrum
húss síns frá því er hún gekk út um
þær.
Síðsumars 1986 kom séra Sigur-
jón sem oftar í heimsókn til okkar í
Suðurgötu, og þegar við vorum að
kveðjast á útidyratröppunum barst í
tal að tilfinnanlega vantaði íslensku-
kennara að Klaustri. „Er ekki rétt-
ast að ég taki þetta að mér?“ sagði
ég. „Jú, gerðu það,“ svaraði prestur.
Af svip hans mátti ráða grun um
ég væri að spauga eða kannski hélt
hann ég væri að bjóða fram vinar-
greiða við sig. Ef til vill í aðra rönd-
ina en ekki eingöngu.
Sannleikurinn var sá að mig hafði
lengi langað til að kynnast þessum
slóðum forföður míns og formóður,
Jóns Steingrímssonar og Þórunnar
Hannesdóttur, sem ég er kominn af í
beinan kvenlegg svo að tryggari get-
ur ættfærslan ekki verið! Er ekki að
orðlengja það að þetta var fastmæl-
um bundið, og í þeirri ætt eru orð
jafngildi skriflegs samnings. Þetta
varð mér ánægjulegur vetur. Oft
hugleiddi ég þá sem einnig fyrr og
síðar, hvílíkt heimslán það væri lítilli
byggð á borð við Klaustur að fá til
sín tvær hámenntaðar mikilhæfar
manneskjur á besta aldri með menn-
ingarleg viðhorf af hæstu gráðu og
þar á ofan valmenni slík sem Jónu
Þorsteinsdóttur og Sigurjón Einars-
son – þangað komin með þeim ásetn-
ingi að helga þessu héraði ævistarf
sitt.
Þau höfðu ekki fyrr komið sér fyr-
ir í prestakallinu en þau hófu ung-
lingakennslu á Klaustri.
Um framfarir fræðslumála í sveit-
unum milli Sanda á þeirra tíð og for-
göngu þeirra í þeim efnum getur
hver fræðst sem vill, því verkin sýna
merkin. Undirstaða andlegrar
menningar er gott bókasafn. Ætli
safnið á Klaustri sé ekki eina sér-
hannaða byggingin af því tagi á Ís-
landi að undanskildu Landsbóka-
safninu í Reykjavík? Bókakostur
þess er mikill og vandaður. Og ekki
var kylfa látin ráða kasti um innra
skipulag. Jóna aflaði sér háskóla-
menntunar í bókasafnsfræðum, kom
öllu fyrir eftir kúnstarinnar reglum
og sá sjálf um safnið fram að eðlileg-
um starfslokum vegna aldurs. Minn-
ingarkapella Jóns Steingrímssonar
er önnur bygging sem vert er að
staðnæmast við á Klaustri. Hún
bætti ekki aðeins úr þörf þorpsins
fyrir húsnæði til kirkjulegs og margs
annars félagsstarfs, heldur er húsið
sjálft kjörgripur sem setur fagran
svip á byggðarlagið, hressir upp á
andlegheit íbúanna í hvert sinn sem
þeir leiða það augum og dregur að
sér athygli ferðalanga. Ónefnt er það
fordæmisgildi sem myndarlegt
menningarheimili í sveit hefur fyrir
umhverfi sitt. Á heimili þeirra
Klausturhjóna var enginn kotungs-
bragur. Og vel gættu þau þess að
forpokast ekki í fásinninu. Þau voru
sannir heimsborgarar. Þegar ég lít á
kortin frá þeim sé ég að þau eru dag-
sett í London, París, Lissabon, Sofíu,
Køben, Prag, Lübeck, Vínarborg og
víðar og víðar.
Fagrar minningar hrannast upp
þegar hugsað er til hennar Jónu á
Klaustri. Sælt er að hafa lifað lífinu
þannig. Við hefðum viljað njóta
miklu lengri samvista við hana. En
enginn má sköpum renna. Við erum
öll í fjölskyldu minni hnípin þessa
daga eins og við hefðum misst náinn
ættingja.
Einlægar þakkir fylgja henni úr
húsi okkar, og hugheilar samúðar-
kveðjur sendum við ástvinum henn-
ar öllum.
Einar Bragi.
Í dag verður til moldar borin mikil
vinkona mín Jóna Þorsteinsdóttir
frá Sauðlauksdal, um árabil
prestsfrú á Kirkjubæjarklaustri, V-
Skaft. Á Nýja-Garði bjuggum við
Sigurjón Einarsson úr Arnarfirði
um nokkur ár. Var samgangur í mill-
um herbergja okkar, sem von bar,
báðir í guðfræðideild og enda aðeins
yfir ganginn þveran að fara.
Laust fyrir miðjan 6. áratuginn,
að ég hygg – man ekki lengur að ár-
setja einstaka atburði þessarar ljúfu
tíðar – lögðust þau á hugi Sigurjón
og sú glæsilega kona, er nú hefur
kvatt.
Komum mínum í inni Sigurjóns
fækkaði eitthvað, en á móti kom að
oftlega var te á katli hjá hinni ungu
bústýru og brauð á borði, er kom sér
vel er eigi var í fullu fæði verið í
mötuneyti Garðanna, sökum fjár-
eklu, enda etið til að lifa en ekki öf-
ugt.
Minnist ég þessara stunda með
ánægju og þökk.
Myndarskapur hennar kom vel í
ljós er hún stýrði heimili á Klaustri
árum saman. Voru allar móttökur
hjá henni hinar veglegustu. Kom
brosandi og hress til dyra er þeirra
var kvatt. Glaðvær og skemmtileg í
hvívetna. Var jafnan ánægjulegt við
hana að ræða, kunni hún enda vel
skil á mönnum og málefnum. Hún
lagði sig eftir menntun bæði í Dan-
mörku og hér heima, bókasafnsfræði
o.fl. Mun henni hafa þótt þau fræði
fýsileg enda víðlesin og bókamann-
eskja mikil.
Í þessum fáu orðum rek ég ekki
lífshlaup hennar. Verður það efalítið
gjört af öðrum þeim er henni kynnt-
ust og þykir nokkurt skarð fyrir-
skildi orðið hafa við hennar fráfall.
Síðustu misseri kenndi hún þess
sjúkdóms, er batt að lokum enda á
hennar hérvist. Enga æðru var á
henni að merkja í samtölum okkar
þá ég hringdi í þau hjón. Var þvert á
móti glaðværð og léttleika að merkja
í ræðu hennar, enda var hún að eðl-
isfari léttrar lundar. Má hiklaust
segja, að hún hafi borið með hug-
prýði ok veikinda sinna.
Eins gætti í orðum eiginmanns
hennar, að tvísýnt mundi um bata og
tjáði hann mér á stundum hvað færi
hennar sjúkdómi. Vissum við báðir
að hverju dró. Kom mér í hug hið
gamla stef úr kveðskap þjóðar vorr-
ar:
En Heljar grind/heyrði ek á ann-
an veg/þjóta þunglega.
Við hjónin vottum bekkjarbróður
mínum, vini og kollega og herberg-
isfélaga sr. Sigurjóni Einarssyni
dýpstu samúð okkar, svo og börnum
þeirra tveimur Æsu og Katli og öðr-
um aðstandendum.
Baldur Vilhelmsson,
Vatnsfirði.
Það var í Kaupmannahöfn síðla
sumars árið 1968, nánar tiltekið í
Nörre Sögade 25c, að ég sá Jónu í
fyrsta skipti. Hún og Sigurjón höfðu
leigt íbúð okkar hjóna um sumarið
og voru á förum. Við að koma, há-
skólinn var að byrja.
Þessi fyrstu kynni eru mér mjög
minnisstæð því að konan hafði strax
mikil áhrif á mig. Ekki aðeins vegna
þess hve vel var tekið á móti okkur,
hve vel og samviskusamlega var
gengið frá íbúðinni og að ýmislegt
var skilið eftir sem ekki var til áður
hjá fátækum námsmönnum, heldur
var einnig þessi leiftrandi greind og
áhugi á lífinu og tilverunni sem end-
urspeglaðist strax í umræðunum.
Áhuginn á okkur námsmönnunum
var ósvikinn og ekta. Enda leið ekki
á löngu uns þau hjón létu heyra frá
sér og buðu í heilmikla veislu í nýju
íbúðinni sem þau leigðu um veturinn
í Köben. Smám saman varð til vin-
átta sem hélst ætíð síðan.
Það eru margar ástæður til þess
hve vel ég kunni við Jónu, ástæður
sem flestir geta samþykkt sem
þekktu þessa bráðágætu konu. Mig
langar því til að þakka Jónu sam-
fylgdina og viðkynninguna með því
að hrósa henni aðeins. Það mat
komst aldrei beint til hennar en ég
veit að hún vissi samt að ég mat hana
mikils. Jóna meðhöndlaði fólk af ein-
stakri virðingu og alltaf sem jafn-
ingja. Í návist hennar fann fólk að
það mátti sín einhvers. Alla tíð með-
höndlaði hún mig sem algjöran jafn-
ingja, hlustaði vel, spurði um álit og
leitaði ráða. Hún vildi gjarnan ræða
um menn og málefni út frá sálfræð-
inni.
Jóna vildi skilja hlutina. Henni
dugðu ekki einfaldar skýringar.
Skörp greind hennar og það hve vel
hún fylgdist með öllu í þjóðlífinu hér
heima og erlendis varð til þess að
hún lagði alltaf eitthvað nýtt til í allri
umræðu.
Vegna þessa m.a. var aldrei hægt
að finna nokkurn aldursmun og hún
var ein af þessum manneskjum sem
eru fastar fyrir og hún gat tekið ein-
arða afstöðu í málefnum sem voru
henni mikilvæg. Hún flíkaði ekki eig-
in tilfinningum en var þeim mun
næmari á tilfinningar annarra. Hún
var ábyrg, fylgin sér og starfaði sam-
kvæmt kenningum sínum. Jóna átti
mjög auðvelt með að setja sig í spor
annarra og alltaf stóð hún með þeim
sem minna máttu sín. Hún þoldi alls
ekki yfirlæti, hroka né valdbeitingu.
Því gat hún ekki liðið þegar menn
höfðu fengið vald en misbeittu því
vegna heimsku eða vankunnáttu.
Þessi kona elskaði menntun og vissi
að þekking er undirstaða framfara
og hamingju fólks. Sjálf bætti hún
alltaf við sig og á fullorðinsárum með
meiri háskólamenntun.
Jóna var mikil fjölskyldumann-
eskja, hún vissi hve mikilvæg fjöl-
skyldan er fyrir andlega heilsu.
Hennar verður sárt saknað, ekki
bara af fjölskyldunni heldur einnig
öllum vinum hennar. Innilegustu
samúðarkveðjur fylgja frá minni
fjölskyldu til allra þinna nánustu og
kæra þökk, Jóna, fyrir að vera góð
fyrirmynd og einstaklega góð kona.
Guðfinna Eydal.
Í dag, 12. janúar, kveðjum við
kæra vinkonu, Jónu Þorsteinsdótt-
ur.
Margs er að minnast frá góðum
samverustundum, í Norræna hús-
inu, á Kirkjubæjarklaustri og annars
staðar þar sem tilefni gafst til. Hún
var skemmtileg, greind og afar fjöl-
hæf og vel að sér. Hafði af miklu að
miðla og var óspör á að gefa af sjálfri
sér. Jóna kom til starfa í bókasafni
Norræna hússins 1985 og starfaði
þar með nokkrum hléum til 1989. Af
og til síðar sinnti hún kvabbi okkar
að koma í afleysingar. Henni leið vel
hér hjá okkur og hefði gjarnan viljað
vera hér lengur, en það var svo
margt annað sem kallaði á starfs-
krafta hennar og nærveru, að af því
gat ekki orðið.
Það var alveg einstakt að vinna
með Jónu. Hún var dugleg, ósérhlíf-
in og ráðagóð. Ekkert fyrir það að
slá á frest leiðinlegum eða flóknum
viðfangsefnum, heldur leysa málin
og ljúka þeim. Og með sterka rétt-
lætiskennd; ekkert fyrir það að láta
ganga á rétt sinn eða annarra.
Norræna húsið er vinnustaður
sem átti vel við Jónu. Hér er boðið
upp á svo margt á menningarsviðinu.
Listsýningar, fyrirlestra um ýmis
efni og margt fleira. Að ógleymdu
bókasafninu með öllu því sem þar er
í boði fróðleiksþyrstum og list-
elskandi manneskjum. Þetta kunni
Jóna að notfæra sér öðrum fremur.
Starfsemi Norræna hússins er
fjölbreytt og krefst þess að allir geti
unnið saman. Starfsfólkið kynnist
vel og er nánast eins og stórfjöl-
skylda. Oft gefast tækifæri til sam-
verustunda utan vinnutíma og þá eru
eiginmenn og konur með. Þannig
fengum við líka að kynnast Sigurjóni
og njóta nærveru hans á gleðistund-
um. Og við fengum líka að fylgjast
nokkuð með Æsu og Katli og fjöl-
skyldum þeirra. Þau voru stolt henn-
ar og gleði.
Fyrir alla samveru með Jónu
þökkum við af heilum hug. Við minn-
umst með söknuði þessarar glæsi-
legu konu, sem gaf okkur svo mikið.
Guð blessi minningu hennar og veiti
vini okkar, Sigurjóni, börnum þeirra
og fjölskyldum blessun og styrk á
sorgarstund.
Starfsfólk
Norræna hússins.
✝ Sigríður Júlíus-dóttir fæddist að
Hokinsdal í Arnar-
firði 4. september
1917. Hún lést á Víf-
ilsstöðum 8. janúar.
Foreldrar hennar
voru Jóhanna Jó-
hannsdóttir og Júlíus
Guðlaugsson. Syst-
urnar voru: Guðlaug,
elst, og Guðríður
sem var yngst. Sig-
ríður ólst upp á
Bíldudal en fór 16
ára suður til Hafnar-
fjarðar í vist. Eftir
að suður kom stundaði hún ýmis
störf.
Árið 1945 giftist Sigríður Jósef
Finnbjarnarsyni, málarameist-
ara, f. í Aðalvík 28. nóvember
1903, hann lést 15.
maí 1971. Þau eign-
uðust tvær dætur,
Ragnhildi, f. 27. apr-
íl 1945, gift Páli
Karlssyni, f. 22. júlí
1944 og eiga þau
þrjú börn; Sigríði,
Jósef og Karl Berg-
mann og Huldu, f.
10. maí 1952, gift
Antonio Fernandez
Ortega, f. 7. febrúar
1949. Dóttir þeirra
er Yolanda, fyrir
átti Hulda dótturina
Karen og synina Pál
og Vilhelm. Alls eru langömmu-
börnin orðin átta.
Útför Sigríðar fer fram frá
Fossvogskirkju í dag og hefst at-
höfnin klukkan 13.30.
Kæra tengdamamma. Á kveðju-
stund koma margar minningar upp í
hugann. Ég minnist þess að fyrir 40
árum rúmum lágu leiðir okkar fyrst
saman er ég fór að vera með dóttur
þinni, Ragnhildi. Ég hef alla tíð ver-
ið stoltur af að vera mömmustrákur
og á þessum tímamótum varð ég svo
ríkur að eignast aðra mömmu. Síðan
hef ég átt í huga mér tvær og þótt
jafn vænt um báðar.
Öll þau ár sem við höfum átt sam-
leið hefur engan skugga borið á okk-
ar samskipti. Allt þitt líf snerist um
þitt fólk. Dæturnar, við tengdasyn-
irnir þínir, öll barnabörnin og barna-
barnabörnin áttum skjól hjá þér.
Þitt heimili var okkar. Aldrei heyrði
ég þig hallmæla nokkrum manni. Þú
hafðir einstaklega góða návist. Und-
ir það geta allir tekið sem áttu með
þér samleið á langri lífsleið.
Síðustu ár hafa verið þér erfið.
Það var ekki þinn stíll að vera heft
vegna sjúkdóma, en aldrei vissi ég
til að þú létir það bitna á neinum og
hélst til hinstu stundar þinni léttu
lund.
Síðustu vikur hafa verið okkur öll-
um þungbærar ekki síst þér, sem
hélst í lífsneistann af öllum þeim
kröftum sem eftir voru, umvafin ást-
úð þíns fólks.
Ekki get ég látið hjá líða að þakka
fyrir hönd okkar allra þá ástúð og
hlýju sem þú naust frá hjúkrunar-
fólki, læknum og öðru starfsfólki
Vífilsstaðaspítala. Þessi tími hefur
sýnt okkur og sannað að þar fer fólk
sem leggur sig allt í einstakt starf.
Ég hef kosið í þessu greinarkorni
að beina hugsunum mínum og orð-
um beint til þín, þannig finnst mér
ég koma þeim best til skila, þannig
hafa öll okkar samskipti verið í
gegnum árin, hrein og bein.
Ég veit að nú líður þér vel, laus
við alla þjáningu. Hittumst þó síðar
verði.
Þinn tengdasonur
Páll Karlsson.
Elsku amma. Mig langar að minn-
ast þín í fáeinum orðum. Þín er hægt
að minnast á margan hátt, en ég vil
minnast þín fyrst og fremst sem vin-
konu ekki síður en ömmu.
Ég minnist allra góðu stundanna
sem við áttum saman er þú bjóst í
Stigahlíðinni. þá gátum við oft
spjallað klukkustundum saman.
Ekki má heldur gleyma öllum há-
degis heimsóknunum til þín, eftir
leikfimi á leið í vinnuna. Betri kjöt-
bollur og hrísgrjónagraut var ekki
hægt að fá.
Í biblíunni er ritningastaður sem
segir: „Sælla er að gefa en að
þiggja“. Þú hafðir svo sannarlega
yndi af því að gefa og oft og mörgum
sinnum gegnum árin gafst þú mér
pening sem .mér þótti oft erfitt að
þiggja, en ég sá hversu mjög það
gladdi þig að gefa, svo að ég lærði að
þiggja.
Frá Stigahlíðinni lá leið þín á Víf-
ilstaðaspítala, þar sem þú dvaldir
síðustu ár ævi þinnar. Þaðan vil ég
minnast þín sem glæsilegrar hetju.
Alveg sama hvernig þér leið, á fætur
fórstu og alltaf varstu vel til fara og
svo falleg. Ég sagði það oft við þig
hversu falleg þú værir og ég við-
urlenni að ég var oft stolt af minni
fallegu ömmu. Þegar veður var gott
og sólin skein, varstu alltaf með
þeim fyrstu út í garð, enda varstu
alltaf með góðan lit.
Palla mínum fannst gaman að
heimsækja langönuu sína í sumar og
byrjaði oftast á því að fara á þann
stað, sem þú varst vön að sitja á úti,
því hann var alveg viss um að skini
sólin, væri langamma alltaf úti. Jós-
ef Benjamín fannst líka gaman að
heimsækja langömmu sína og hann
var alltaf „svangur í nammið“ þitt,
því alltaf áttir þú eitthvað sælgæti til
að gefa.
Elsu amma, þú varst oft mikið
veit gegnum árun sem þú áttir á Víf-
ilsstöðum en alltaf reistu upp aftur.
Þú varst ótrúleg. Ég veit að síðustu
dagar þínir voru þér erfiðir. Þú
varst ekki vön að liggja án þess að
fara eitthvað á fætur, en þarna
gastu ekkert gert. Ég sá að þú þjáð-
ist mjög og þú varst hrædd. Ég er
þakklát fyrir að hafa getað komið til
þín á hverjum degi þína síðustu
daga. Nú ertu laus við allar súrefn-
isslöngur, alla verki, allan ótta.
Það er dýrmædd minning, sem ég
alltaf mun geyma í hjarta mínu er ég
varð vitni að því hvernig þjáningin
hvarf úr andliti þínu og þú sofnaðir
rótt. Ég veit að nú hvílir þú í faðmi
Drottins.
Blessuð sé minning þín, elsku
amma mín.
Þín
Sigríður.
SIGRÍÐUR
JÚLÍUSDÓTTIR