Morgunblaðið - 17.03.2001, Blaðsíða 13
FRÉTTIR
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 17. MARS 2001 13
NAFN Donald Feeneys hringir sjálf-sagt bjöllum í hugum margra semfylgst hafa með fréttum hér á landiundanfarin ár. Hann kom Íslandi í
heimspressuna í janúar 1993 þegar hann
reyndi að fara með tvö börn af landi brott og
flytja þau til feðra sinna í Bandaríkjunum. Þar-
lendir dómstólar höfðu veitt feðrunum forræði
og börnin verið flutt úr landi í trássi við bann
dómstóls í Flórída.
Feeney spann upp skrautlegan lygavef hér á
landi – þóttist vera heimsfrægur kvikmynda-
framleiðandi – og var kominn með börnin í
flugstöðina á Keflavíkurflugvelli þegar hann
var handtekinn og síðan dæmdur til tveggja
ára fangelsisvistar. Hann gerði djarfa tilraun
til að strjúka úr fangelsinu en aftur varð smæð
og einangrun landsins honum að falli; hann
náðist á Vestmannaeyjaflugvelli rétt áður en
hann komst upp í flugvél til Færeyja. Hann
lauk afplánun á helmingi refsingarinnar og fór
úr landi í janúar 1994.
Fannst ég ætti ekki
að vera í fangelsi
„Mér fannst ég ekki vera sekur og fannst að
ég ætti ekki að vera í fangelsi,“ sagði Feeney í
viðtali við blaðamann Morgunblaðsins í síðustu
viku. Þá var hann í nokkurra daga heimsókn
hér á landi vegna töku heimildarmyndar á veg-
um kvikmyndafélagsins Hugsjónar. Myndin,
sem er ein myndanna um Sönn íslensk saka-
mál, verður sýnd í Ríkissjónvarpinu á sunnu-
dagskvöld og fjallar um forræðisdeiluna sem
varð til þess að Donald Feeney eyddi einu ári
og sex dögum af viðburðaríkri ævi sinni á Ís-
landi.
Þeir sem vilja vita um tildrög þess að þessi
fyrrverandi úrvalshermaður blandaðist inn í
hina íslensk-bandarísku forræðisdeilu verða að
horfa á myndina því hann neitaði að svara öðr-
um spurningum blaðamanns um afskipti sín af
forræðisdeilunni og flóttatilraunina og segir að
hann ætli sér að segja allt af létta um málið í
heimildarmyndinni.
En Feeney er ekki síður áhugaverður við-
mælandi þótt hann hafi veitt Hugsjón einka-
rétt á sögu sinni að þessu leyti. Æviferill hans
er vægast sagt óvenjulegur. Hann var einn af
fyrstu meðlimum hinnar þekktu sérsveitar
bandaríkjahers, Delta Force. Á hennar vegum
tók hann þátt í margumtalaðri tilraun til að
endurheimta bandarísku gíslana úr sendi-
ráðinu í Teheran. Sú tilraun fór út um þúfur og
kostaði nokkur mannslíf þegar herflugvél, sem
Feeney sat í, rakst á herþyrlu í íranskri eyði-
mörk.
Meðan ófriðurinn var hvað mestur í Beirút í
Líbanon snemma á níunda áratugnum var
hann lífvörður bandaríska sendiherrans í borg-
inni, hafði stöðu diplómats og lenti í vopnuðum
átökum við hryðjuverkamenn sem vildu ráða
sendiherrann af dögum.
Hann tók þátt í innrásinni á Grenada í for-
setatíð Reagans, frelsaði gísla í Súdan og kom
að fleiri leyniaðgerðum á vegum Bandaríkja-
hers.
Hann sagði af sér eftir 16 ára herþjónustu í
kjölfar ásakana um að hafa misfarið með op-
inbert fé meðan hann dvaldist í Beirút, að því
er fram kemur í bókinni Rescue My Children,
sem skrifuð hefur verið um þessa starfsemi
Feeney. Hann settist þá að í Norður-Karólínu,
stofnaði ásamt eiginkonu sinni og félaga fyr-
irtækið Corporate Training Unlimited, CTU.
Í fyrstu var markmiðið að þjálfa starfsmenn
fyrirtækja og sendiráða til að eiga við hryðju-
verkamenn og að þjálfa bandarískar lögreglu-
sveitir til sérverkefna. Starfsemin vatt upp á
sig og einhvern veginn atvikaðist það svo að
Feeney tók svo að sér að endurheimta barn
sem hafði orðið bitbein fjölþjóðlegrar forræð-
isdeilu. Það spurðist út og vakti athygli og
beiðnum um afskipti af fleiri málum tók að
rigna inn.Þegar hann kom til Íslands 1993
ásamt eiginkonu sinni og fleiri samverkamönn-
um var það í áttunda skipti sem hann ætlaði að
flytja brottnumin börn heim til foreldra í
Bandaríkjunum.
Sex mál eftir fangavist á Íslandi
Hefurðu haldið áfram að flytja börn til
bandarískra foreldra eftir að þú losnaðir úr
fangelsi hér?
„Já, en ég reyni að forðast það vegna þess að
þetta kallar á mikinn mannskap og er óhag-
kvæmt fjárhagslega. Það hafa komið upp
nokkur mál, sem ég hef haft afskipti af und-
anfarin ár. Sennilega eru málin sex síðan ég
var á Íslandi; síðast nýlega á Kosta Ríka.
Þegar ég kom heim til Bandaríkjanna héðan
var fyrirtækið mitt enn í gangi en við höfðum
lent í fjárhagslegum þrengingum og mig
langaði til að komast út úr „barna-björg-
unar-bransanum“. Ég sat í fangelsi í heilt ár en
hafði verið helsta tekjulind fyrirtækisins. Ég
kom frá Íslandi í janúar 1994 ákveðinn í að taka
ekki fleiri mál en í mars var ég kominn til Túnis
að sækja móður og barn. Skömmu síðar fór ég
til annars lands, sem ég vil ekki ræða um.
Túnis-málið spurðist út og fólk fór að hringja.
Ég tók símana úr sambandi, skipti um númer,
fékk mér leyninúmer en fólk fann mig samt.
Við erum fyrst og fremst öryggisgæslufyr-
irtæki sem sinnir fyrirtækjum. Viðskiptavinir
okkar spyrja hvers vegna við séum að taka
þetta að okkur því við töpum á þessum málum
bæði tíma og peningum. Ef ég er að vinna í ör-
yggisgæslu sjálfur fæ ég 700 dollara á klukku-
tímann en ég hef ekki þau laun þegar ég er að
sækja börn. Við fáum mörg þúsund hringingar
á ári frá fólki sem vill fá okkur til að ná í börn
fyrir sig en við höfum bara tekið að okkur örfá
mál.“
Hvað gerir það að verkum að þú vilt taka að
þér ákveðið mál af þessu tagi?
„Það er metið í hverju tilviki. Ég geri það ef
mér finnst það vera rétt og nauðsynlegt og að
það sé góð og gild ástæða til þess.“
Hvenær er góð og gild ástæða til þess?
„Það fyrsta sem við gerum er að mæla með
því við fólk að það snúi aftur og reyni að nái
rétti sínum eða komast að einhverju samkomu-
lagi, það er bæði betra og öruggara fyrir barn-
ið, auk þess sem það kostar minna. En oft virka
lagalegu leiðirnar ekki. Jafnvel í löndum sem
undirritað hafa Haag sáttmálann um forræð-
isdeilur milli landa nota dómarar sér undan-
tekningarákvæði um að barn hafi komið sér
fyrir í landi og líti á landið þar sem foreldrið
sem nam það á brott býr sem sitt heimaland.
Mörg lönd hafa hengt sig á þetta.
Aldrei venjuleg forræðisdeila
Við komum aldrei nálægt því sem kalla má
venjulega forræðisdeilu. Það verður að vera
um að ræða eiturlyf, barnamisnotkun eða eitt-
hvað slíkt. Margir sem leita til okkar halda því
fram að börnin séu misnotuð en þegar við
könnum málið komumst við að því að svo er
ekki heldur er fólk að nota þetta í von um að
vekja áhuga okkar á málinu. Áður en við förum
að hafa afskipti af máli verðum við að sannfæra
okkur um að við séum að gera rétt. Það fara
fram á okkar vegum miklar rannsóknir á
hverju einasta máli sem við erum að hugsa um
að taka að okkur; við tökum ekki bara staðhæf-
ingar fólks góðar og gildar.“
Er þetta þá af þinni hálfu bara spurning um
einstaklingana og persónur foreldranna eða
skipta líka máli hlutir eins þjóðerni og menning
landsins sem í hlut á? Stundum finnst manni
eins og Bandaríkjamenn líti þannig á að það sé
alltaf barni fyrir bestu að búa í Bandaríkjun-
um.
„Ég er oft spurður að þessu. Mörg þeirra
landa þar sem við látum til okkar taka eru
múhameðstrúar og þetta er góð spurning. En,
veistu, að ég hef líka tekið að mér mál á Ítalíu, í
Svíþjóð og Kanada. Þetta er ekki spurning um
lönd og menningu heldur um persónuleika og
einkenni fólksins sem í hlut á.
Í þeim málum sem ég hef tekið að mér er um
það að ræða að fólkið, sem nemur á brott börn-
in sín, er fullt af andúð, reiði og hefnigirni og
ber í raun ekki hagsmuni barnanna fyrst og
fremst fyrir brjósti heldur vill það hefna sín.
Málið, sem við unnum að á Ítalíu er gott
dæmi um það; það var dapurlegt mál sem fékk
góðan endi. Foreldrarnir voru giftir og bjuggu
um tíma í Ítalíu en það komu upp vandamál,
þau skildu og faðirinn fluttist til Sikileyjar.
Hann bað um að fá barnið sent í heimsókn og
konan sendi honum það en þá sagði hann að
hún sæi barnið aldrei aftur. Ég tók málið að
mér af því að mér var sagt að barnið væri mis-
notað og þannig var það en misnotkunin var
sálfræðileg. Faðirinn tók barnið út af kærleiks-
ríku heimili í New Jersey en á Sikiley var líf
þess þannig að það var í umsjón afa síns og
ömmu, sem voru komin fast að áttræðu. Afinn
fylgdi því í skólann og sótti það og lét það fara
beint inn í herbergið sitt. Barnið var fangi af
því að þau voru svo hrædd um að einhver
mundi taka það.
Móðirin fór aftur til Ítalíu og var þar í eitt og
hálft ár að vinna í málinu með lögfræðingum en
svo réð hún mig og ég tók málið að mér.
Þarna var um það að ræða, eins og svo oft, að
persónuleiki foreldrisins, sem fer burt með
barnið, er hefnigjarn og það gefur barninu ekki
mikið af sjálfu sér og tíma sínum nema kannski
í upphafi. Þau mál sem ég hef haft afskipti af
eiga það sameiginlegt að á endanum situr ein-
hver annar í fjölskyldunni uppi með ábyrgðina
á barninu. Þannig að þetta snýst ekki um þjóð-
erni eða menningu heldur persónuleikana sem
í hlut eiga.
Engar neikvæðar sögur
Það er engar neikvæðar sögur að segja af
öllum þeim börnum sem við höfum flutt heim,
afskipti okkar hafa haft jákvæð áhrif á líf
þeirra. Í nokkrum málum hafa hlutirnir þróast
svo í framhaldinu að það hafa komist á eðlileg
samskipti milli foreldranna og börnin fara nú
milli landa og heimsækja báðar fjölskyldur sín-
ar. Við gleðjumst yfir því. Við erum ekki að
reyna að sundra fjölskyldum heldur að gæta
hagsmuna barnanna. Þau ættu ekki að þurfa
að þola misnotkun, eiturlyfjaneyslu foreldra og
slíkt. Það ætti ekki að gerast en gerist oft því
að foreldrarnir ráða svo illa við að halda utan
um eigið líf að þau eru ekki fær um að hugsa
um börnin.“
Þú segir að afskiptin af þessum málum skaði
þig og fyrirtæki þitt fjárhagslega af því að þú
getir ekki sett upp það verð sem þú gætir ann-
ars fengið fyrir vinnu þína. Hver er umbunin
og hvaða afstaða fær þig þá til að taka þetta að
þér?
„Margir hafa hæfileika og getu til að gera
ýmsa hluti en gera þá ekki. Mér finnst að ef ég
geri ekki það sem er rétt og ég hef hæfileika og
getu til sé ég ekki að lifa lífinu til hins ýtrasta.
Ég vil ekki sóa einni mínútu í mínu lífi. Þegar
ég verð orðinn gamall og sestur í ruggustólinn
með pípuna vil ég geta sagt að ég hafi hafi
reynt allt sem ég gat og mér finnst ég hafa gert
það. Ég hef reynt margt, allt frá því að vera
fangi og til þess að vera diplómat, mín reynsla
spannar vítt svið og ég er mjög ánægður með
það.“
Feeney svarar játandi þegar hann er spurð-
ur hvort hann mundi aftur fallast á að hafa af-
skipti af íslensku forræðisdeilunni ef hún kæmi
inn á borð hans í dag.
„Það er enginn vafi á því. Miðað við það
hvernig kringumstæður voru þegar við tókum
að okkur málið, og vitandi hvað var á seyði
hefðum við tekið það að okkur aftur,“ segir
hann og fullyrðir að reynslan hér hafi engu
breytt um hvernig hann líti á þessi verkefni og
þá áhættu sem hann tekur í því sambandi.
Strokufélaginn vinnur hjá Feeney í Asíu
„Það var margt jákvætt, sem kom út úr dvöl-
inni hér á landi og það verður sagt frá því í
myndinni. Eitt af því er að í fangelsinu hitti ég
íslenskan mann sem reyndi að strjúka með
mér,“ segir Feeney og vísar þar til þess að í
flóttatilrauninni frá Litla-Hrauni í ágúst 1993
var með honum ungur maður sem dæmdur
hafði verið í 4 ára fangelsisvist fyrir nauðgun
og ofbeldisbrot.
„Þegar við vorum í fangelsinu kom hann til
mín og lýsti miklum áhuga á að hefja nýtt líf.
Þegar hann var búinn að afplána tók ég hann
til mín í vinnu sem öryggisvörð. Hann byrjaði á
neðsta þrepi í fyrirtækinu en fór í skóla og er
nú orðinn yfirmaður öryggismála á fimm
stjörnu hóteli í Asíu og á lítinn hlut í fyrirtæk-
inu. Það kom margt gott út úr dvölinni á Ís-
landi. Ef maður lítur á lífið með jákvæðu við-
horfi þá munu góðir hlutir gerast. Það er svo
einfalt. Þetta er dæmi um það.“
Feeney segist hafa verið umsvifamikill í As-
íu undanfarin ár. Hann setti á fót skrifstofu á
vegum CTU á Filipseyjum þegar hann vann að
forræðismáli þar og dvaldist í landinu um 14
mánaða skeið. Hann segir að því máli hafi lykt-
að með því að fjölskyldan lét undan þrýstingi
og afhenti barnið. Meðan niðurstöðu var beðið
fór hann að velta fyrir sér leiðum til að auka
tekjur sínar og niðurstaðan varð stofnun úti-
búsins, þar sem hann segir að nú starfi 300
manns að ýmiskonar öryggisþjónustu við fyr-
irtæki.
Hvernig fannst þér að koma aftur til Íslands
eftir fangavistina?
„Ég hef verið á Íslandi samtals í eitt ár og 10
daga en bara séð 10 daga af Íslandi, þar af fjóra
daga núna. Það er ágætt að vera kominn aftur
og skoða landið. Ég fór til Akureyrar í gær og
skoðaði mig um og get núna sagt að ég hafi séð
Ísland.“
Hvað finnst þér um landið?
„Ég held að Ísland sé ágætur hluti af Evr-
ópu. Ég lít ekki þannig á að það sé eitthvert
samfélag illmenna þótt ég hafi verið í fangelsi
hér og telji að ég hafi verið saklaus. Komdu
bara til Brooklyn, þar sem ég ólst upp, og
reyndu að taka einhvern af krökkunum okkar.
Þú værir heppinn að sleppa á lífi, hvað þá
ómeiddur. Fólk passar sig og sína og ég hef
ekkert á móti því. Þvert á móti, ég virði það. Ég
held að ef fleiri gerðu það og tryðu því að það
væri rétt að gera það væru minni vandræði í
heiminum. Það eru of margir sem snúa sér
undan þegar eitthvað er að.“
Morgunblaðið/Ásdís
Donald Feeney var nokkra daga hér á landi í síðustu viku við gerð heimildarmyndar um af-
skipti hans af íslenskri forræðisdeilu.
Of margir
snúa sér
undan
Donald Feeney reyndi að frelsa bandaríska gísla úr
sendiráðinu í Teheran, barðist við hryðjuverkamenn í
Líbanon og sat í fangelsi á Íslandi í eitt ár fyrir að ætla
að flytja íslensk-bandarísk börn yfir hafið. Pétur
Gunnarsson ræddi við hann í Reykjavík á dögunum.