Morgunblaðið - 08.07.2001, Side 4

Morgunblaðið - 08.07.2001, Side 4
FRÉTTIR 4 SUNNUDAGUR 8. JÚLÍ 2001 MORGUNBLAÐIÐ KOMA tívolísins til Reykjavíkur er orðin árviss viðburður og fagna ungir jafnt sem aldnir tækifærinu til að fara svo sem eina eða tvær salíbunuferðir í hringekjunni. Tív- olíið var opnað á föstudagskvöld og verður á Miðbakkanum næstu vikurnar. Það er venjulega líf og fjör á hafnarbakkanum og búast má við að margir leggi leið sína þangað á næstunni. Hræðslu- gjörnum og magaveikum er þó ráðlagt að fara sér hægt og láta skynsemina ráða í tækjavali. Morgunblaðið/Sigurður Jökull Tívolí við höfnina HAGFRÆÐISTOFNUN Háskóla Íslands hefur skilað Skipulagsstofnun umbeðnu sér- fræðiáliti á umfjöllun um efnahagslega og samfélagslega þætti matsskýrslu vegna fyr- irhugaðs álvers í Reyðarfirði. Stofnunin kemst m.a. að þeirri niðurstöðu að þar sem vænta megi aukinnar verðbólgu og launa- hækkana vegna álversins sé brýnt að reyna með öllu móti að halda aftur af launaskriði. Það geti gerst með því að flytja inn erlent vinnuafl og telur Hagfræðistofnun að sá inn- flutningur kunni að verða meiri en gert sé ráð fyrir í matsskýrslunni. Þá telur stofnunin að fórnarkostnaður þess að ráðast í gerð Kárahnjúkavirkjunar og álvers, eða Noral- verkefnið, geti orðið meiri en Þjóðhagsstofn- un reikni með í skýrslu sinni vegna álversins. Þjóðhagslegur ábati af verkefninu geti því orðið minni. Að mati Hagfræðistofnunar er óvíst að sú forsenda standist að fjármál hins opinbera batni um allt að 0,5% af landsframleiðslu með auknum tekjum umfram útgjöld. Íslenskum stjórnvöldum hafi gengið „afar illa að hemja útgjöld á góðæristímum“ og oftar en ekki hafi raunin orðið sú að útgjöld hafi vaxið í takt við tekjurnar. „Fari svo að fjármála- legan aga bresti hjá stjórnvöldum er hætt við að verðbólga verði meiri en ráð er fyrir gert. Þó verður að hafa þann fyrirvara að meg- inmarkmið Seðlabankans er að halda verð- bólgu innan tiltekinna marka,“ eins og segir í álitinu. Í niðurstöðum sérfræðiálitsins um mats- skýrsluna segir meðal annars: „Skýrsluhöf- undar gera allajafna ekki ráð fyrir að neitt annað gæti komið í stað virkjunar og álvers á Austurlandi og að Noral-verkefnið muni hafa verulega jákvæð áhrif á samfélag og efna- hagslíf svæðisins. Þetta mat hlýtur að teljast nokkur einföldun þar eð vafalítið yrði mikill þrýstingur á stjórnvöld og sveitastjórnir að grípa til annarra úrræða.“ Beita þarf fleiri tækjum til að kæla hagkerfið Hagfræðistofnunin telur að betur hefði mátt fjalla um hvaða áhrif virkjunin myndi hafa á samkeppnisgreinar á Austurlandi, og þá einkum úr hvaða störfum þeir heimamenn ganga sem fengju störf við byggingu virkj- unarinnar. Einnig hefði mátt kanna betur byggðaáhrif framkvæmdanna, bæði innan fjórðungsins og annars staðar á landinu. Gert sé ráð fyrir að lítil ástæða sé fyrir Austfirð- inga að óttast „timburmenn“ þegar fram- kvæmdirnar yrðu afstaðnar. Stofnunin telur að hér hafi verið rétt að staldra við og velta fyrir sér hvaða áhrif sá samdráttur, sem óhjákvæmilega yrði að framkvæmdum lokn- um, muni hafa á austfirskt atvinnulíf. Þá seg- ir ennfremur í niðurstöðunum: „Áætluð áhrif Noral-verkefnisins ráðast að verulegu leyti af því hvernig efnahagsástand í landinu verður þegar framkvæmdir hefjast og þurfa stjórnvöld því að móta stefnu sem tryggir stöðugleika og dregur úr verðhækk- unum áður en verkefninu verður hrint í framkvæmd. Að auki verða stjórnvöld að vera búin að ákveða til hvaða aðgerða skuli gripið á framkvæmdatímanum til að freista þess að stemma stigu við vaxandi verðbólgu og þenslu. Í skýrslu Þjóðhagsstofnunar er talið ólíklegt að eingöngu verði hægt að ná þessum markmiðum með því að skera niður opinberar framkvæmdir, þar eð þær fram- kvæmdir vegi hlutfallslega létt miðað við um- fang Noral-verkefnisins. Til að kæla hag- kerfið verður því líklega nauðsynlegt að beita fleiri hagstjórnartækjum.“ Sérfræðiálit Hagfræðistofnunar HÍ vegna álvers og virkjunar á Austurlandi Fórnarkostnaður gæti orðið meiri og ábati minni ELDUR kom upp í litlu timb- urhúsi við Austurgötu í Hafn- arfirði aðfaranótt laugardags. Miklar skemmdir urðu á innbúi hússins einkum vegna hita og reyks. Slökkvilið höf- uðborgarsvæðisins fékk til- kynningu um brunann á þriðja tímanum um nóttina. Þegar að var komið logaði eldur í rúmi og sófa og myndaðist við það mikill reykur. Húsið var mannlaust. Greiðlega gekk að slökkva eldinn. Eldsupptök eru ókunn. Reyk- skemmdir á innbúi DRÖG að gjaldskrá fyrir leyfi og eftirlit með tóbakssölu voru sam- þykkt með þremur atkvæðum gegn einu á fundi umhverfis- og heil- brigðisnefndar Reykjavíkur á fimmtudag. Tveir nefndarmenn sátu hjá. Í drögunum er lagt til að gjald fyrir hvert nýtt tóbaksleyfi verði 12.500 krónur og sama upphæð skuli greidd fyrir eftirlit með söl- unni. Hrannar B. Arnarsson, formaður umhverfis- og heilbrigðisnefndar, segir nefndina ekki gera ráð fyrir að þörf sé á sérstöku eftirliti vegna sölustaða þar sem flestir hafi þegar veitinga- eða rekstrarleyfi. „Þá yrði eftirlit þeirra staða unnið innan þess ramma og því þyrfti ekki að rukka staðina um eftirlitsgjöld nema í kjölfar kvartana eða slíks,“ sagði Hrannar. „Það er því ekki um neina sjálfkrafa árlega innheimtu að ræða eða neitt í þá veru þar sem við höfum ekki heimild til að innheimta nema það sem nemur kostnaði við það eftirlit sem farið er í.“ Samtök ferðaþjónustunnar og Samtök atvinnulífsins báru fram mótbárur við drögum gjaldskrár- innar þar sem Samtök ferðaþjónust- unnar óskuðu eftir að ekkert gjald yrði innheimt og Samtök atvinnu- lífsins sem óskuðu eftir að lægri upphæð yrði ákveðin. „Við teljum ekki unnt að verða við þessum ósk- um. Upphæðin er ákveðin á grund- velli þess sem við teljum að þurfi að leggja í vinnu við útgáfu hvers leyfis og þetta er beini kostnaðurinn sem er því samfara,“sagði Hrannar. Umhverfis- og heilbrigðisnefnd Reykjavíkur afgreiddi eins og fyrr segir drögin á fimmtudag en þau fara næst í gegnum tvær umræður í borgarstjórn. Í millitíðinni fer sam- þykktin fyrir sameiginlega nefnd ríkis, aðila úr atvinnulífinu og sveitastjórnarmanna þar sem farið verður yfir forsendur gjaldskrárinn- ar. Gjald fyrir tóbaks- leyfi 12.500 krónur DREIFING kjúklinga frá ali- fuglabúi Reykjagarðs á Ásmundar- stöðum í Rangárvallasýslu var stöðv- uð af landbúnaðarráðuneytinu á föstudag. Mun salmonella hafa fund- ist í nokkrum sýnum frá búinu við slátrun í alifuglasláturhúsi fyrirtæk- isins á Hellu 25. og 27. júní. Ekki er talið útilokað að sýkt kjöt hafi komist á markað. Í fréttatilkynningu frá landbúnað- arráðuneytinu segir, að sýni sem tekin voru meðan á eldi stóð hafi öll verið neikvæð og því ekki hægt að koma í veg fyrir að hugsanlega mengaðir kjúklingar færu á markað. Hluti kjöts fyrrnefnda sláturdaga var frystur og hefur í samráði við fyrirtækið verið settur í dreifingar- bann. Vegna hraðrar umsetningar á fersku kjúklingakjöti er ekki talið að mengaðar afurðir séu á markaði í dag. Í samræmi við reglur um eldi og heilbrigði sláturdýra hefur landbún- aðarráðuneytið, að tillögu yfir- dýralæknis, sett bann á alla frekari dreifingu kjúklingaafurða frá Ás- mundarstöðum, meðan á rannsókn á orsökum þessarar mengunar stend- ur. Fyrirtækið hefur einnig eldishús á öðrum stöðum og hafa afurðir það- an ekki verið stöðvaðar, enda engar vísbendingar um salmonellumengun þar. Samkvæmt upplýsingum sótt- varnalæknis hafa engar vísbending- ar borist um að fólk hafi veikst af völdum þessara kjúklinga og al- mennt hafa mjög fáir veikst að und- anförnu af völdum salmonellu og campbylobacter af innlendum upp- runa. Landbúnaðarráðuneytið vekur at- hygli á að náðst hefur góður árangur í íslenskri kjúklingarækt við að úti- loka, eins og kostur er, bæði salmon- ellu og campylobacter mengun í af- urðunum. Ráðuneytið segir óhætt að fullyrða að sá árangur sé með því besta sem gerist í heiminum, þar sem kjúklingaræktun sæti meira eft- irliti en önnur alidýraræktun við uppeldi og slátrun og auðvelt sé að rekja hvert afurðir hafa verið seldar. Þrátt fyrir góða stöðu og þetta mikla eftirlit er þó ekki hægt að útiloka að tilfelli sem þessi komi upp að sögn Halldórs Runólfssonar, yfirdýra- læknis. Því eru neytendur beðnir um að sýna fyllstu aðgæðslu við eldun. Dreifing kjúk- linga stöðvuð Salmonella greinist í sláturhúsi Reykjagarðs á Hellu FLÆKINGSFIÐRILDI eru árvissir sumargestir á Íslandi en fjöldi þeirra og tegundir fara eftir veðr- áttu. Skordýrafræðingar álíta að innlendar fiðrildategundir séu tæp- lega 60 en hins vegar hafa alls 120 tegundir fiðrilda sést á Íslandi. Þær tegundir sem bætast við inn- lendu fiðrildin eru svo kölluð flökkufiðrildi, 30 tegundir, og inn- fluttar tegundir sem berast hingað með matvöru eða plöntum, alls 32. Flökkufiðrildin koma fljúgandi þöndum vængjum til Íslands en til að þau komist hingað þarf að gefa hlýja suðaustanátt og örlítinn loft- raka. Þau fljúga af sjálfsdáðum en vindurinn ræður stefnu og hraða. Flökkufiðrildin berast oftast hingað til lands síðsumars og geta lifað töluvert lengi ef tíðin er góð. Félagarnir Gestur Jónsson og Andri Dagur Sævarsson, 12 ára, voru að leika sér á hjólabrettum við Grímsbæ í veðurblíðunni á þriðju- dag þegar þeir komu auga á óvenju stórt og fallegt fiðrildi. „Við höfum bara séð svona stór fiðrildi í útlönd- um en aldrei á Íslandi,“ sagði Andri Dagur spurður um fenginn sem er vel geymdur í lokaðri krukku. Fiðr- ildafangararnir segja það hafa verið lítið mál að ná fiðrildinu, „við náðum að góma það í samlokubréf og sett- um það síðan í krukku – við náðum því sko í einni tilraun,“ sagði Gestur. Strákarnir sögðust aðspurðir ekk- ert vita hvað þeir ætla að gera við fiðrildið fagra en þeir fóðra það á fíflablöðum og segja því heilsast vel. Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson Fiðrildafangararnir Gestur og Andri Dagur sýna fenginn. Félagar á fiðrildaveiðum

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.